Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Á þeim tíma sem er liðinn síðan ný borgarstjórn Reykjavíkur kom fyrst saman í byrjun júní 2022 hafa nokkur grundvallaratriði orðið bærilega skýr. Það þýðingarmesta er hversu nauðsynlegt það er að ná tökum á rekstri stærsta sveitarfélags landsins svo það hætti að reiða sig á dýr lán til að tryggja sér laust fé. Annað afar veigamikið atriði er að raunsæi, en ekki draumórar, ráði för við að bæta samgöngumál höfuðborgarsvæðisins.
Hvorugt þessara atriða er unnt að leysa án þess að breyta fyrst stjórnsýslukerfi Reykjavíkurborgar. Sem sagt: verði stjórnsýslukerfi Reykjavíkurborgar ekki endurhugsað verður fáu breytt hjá borginni.
Eins og staðan er akkúrat núna hafa of margir aðilar hagsmuni af því að viðhalda stærð kerfisins og því gildismati sem það starfar eftir. Engu breytir hér að margir öflugir embættismenn hjá Reykjavíkurborg sinna störfum sínum af alúð í þágu borgarbúa.
Eigi að síður er hægt að breyta borginni. Að mínu mati væri farsælt til að byrja með að fækka ráðum, sviðum og nefndum Reykjavíkurborgar. Jafnframt þarf borgin að þrýsta á um að lögum sé breytt svo að kjörnum fulltrúum í borgarstjórn verði fækkað. Frekari skref þarf svo að stíga til að einfalda rekstur Reykjavíkurborgar, minnka báknið og breyta Reykjavík til að gera hana að betri borg.
Framsóknarflokkurinn: Ásýnd eða efnislegt innihald?
„Breytum Reykjavík“ var slagorð Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar vorið 2022. Eftir mikinn kosningasigur endurreisti flokkurinn meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur sem hafði fallið í kosningunum. Borgarstjóri sem hafði gegnt því embætti í samfleytt átta ár og flokkur hans tapað miklu fylgi í kosningunum vorið 2022 fékk að halda í stólinn í rúma 18 mánuði í viðbót.
Það voru þá allar breytingarnar.
Fyrir skömmu varð þó sú breyting að oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur varð borgarstjóri.
En þá komum við að veigamesta framlagi þessarar greinar. Framsóknarflokkurinn mun litlu sem engu breyta nema gripið sé til uppskurðar á stjórnsýslukerfi Reykjavíkurborgar. Lítil hætta er hins vegar á að það gerist með starfandi samstarfsflokkum Framsóknarflokksins enda embættismannakerfi borgarinnar víða orðið samgróið þeim stjórnmálaöflum.
Staða borgarstjóra Framsóknarflokksins er því snúin.
Þótt hann geti án efa mótað vandaðar umbúðir um ímynd sína er líklegt að hann komi litlu í verk. Rekstur Reykjavíkurborgar verður áfram háður dýrum lánum. Samgöngur munu ekki batna, þvert á móti munu tafirnar í umferðinni aukast. Í skipulagsmálum mun hugmyndafræði Samfylkingarinnar ráða för. Biðlistar eftir leikskólaplássum munu haldast langir. Og svo mætti lengi telja af óleystum viðfangsefnum á vettvangi borgarmálanna.
Lokaorð
Að mínu mati horfir margt í framkomu núverandi borgarstjóra til framfara í samanburði við forvera hans. Á hinn bóginn er vandinn sá að fram til vorsins 2026 má vænta fárra ef nokkurra efnislegra breytinga á stjórn borgarinnar.
Væntanlega verður það Framsóknarflokknum dýrt í næstu borgarstjórnarkosningum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.