Óli Björn Kárason alþingismaður:
Sundrung og skautun vestrænna samfélaga er ógn sem fæstir virðast leiða hugann að. Umburðarlyndi á raunverulega í vök að verjast. Óþol gagnvart þeim sem eru á annarri skoðun vex, friðleysi og fordómar sundra og grafa undan lýðræði. Eitrið seytlar um æðar háskólasamfélaga, sem áður voru brjóstvörn frjálsra skoðanaskipta.
Í bandarískum háskólum hafa fræðimenn verið flæmdir úr starfi. Skipulega er komið í veg fyrir opna og frjálsa umræðu. Háskólarnir eru hægt og bítandi að hneppa sjálfa sig í spennitreyju rétthugsunar. Skautun samfélagsins birtist í áhrifamiklum fjölmiðlum sem er fyrirmunað að fjalla af yfirvegun og sanngirni um mikilvæg samfélagsleg málefni. Hér á Íslandi hefur Ríkisútvarpið verið að breytast í kirkjudeild pólitísks rétttrúnaðar þar sem hlutleysi er fórnarlambið en skattgreiðendur eru neyddir til að borga reikninginn.
Með skipulegum hætti er kynt undir óþoli og virðingarleysi gagnvart ólíkum skoðunum. Í stað rökræðunnar er reynt að kæfa andstæð sjónarmið. Dómar eru felldir yfir mönnum og málefnum. Ofsi og svívirðingar þykja réttlætanlegar til að þagga niður í röddum sem ekki eru í takt við rétttrúnaðinn.
Ógnanir og svívirðingar
Í andrúmslofti sem hefur fengið að grafa um sig á síðustu árum ætti það kannski ekki að koma á óvart að unglingsstúlkum finnist það eðlilegt og nauðsynlegt að útbúa myndband og birta á samfélagsmiðlum, þar sem þær pissa utan í vegg á heimili stjórnmálamanns, sem er þeim ekki þóknanlegur. Og þær láta persónulegar svívirðingar fylgja.
Og því miður er það að verða hluti af veruleika kjarkmikilla stjórnmálamanna – ekki síst kvenna – að sæta ógnunum. Á mánudag réðst karlmaður að Diljá Mist Einarsdóttur, þingkonu Sjálfstæðisflokksins, þar sem hún var að yfirgefa Alþingi á bíl sínum. Kastaði klaka í bílinn og jós fúkyrðum yfir þingkonuna.
Atlagan að Diljá Mist er því miður ekki eina dæmið um hvernig ógnunum er beitt í stað rökræðu og virðingar fyrir andstæðum sjónarmiðum.
Ég hef áður reynt að vara við þeirri hættu sem frjáls samfélög standa frammi fyrir þegar umburðarlyndi er fórnað á altari rétthugsunar og slaufunar. Lýðræðið hvílir á mörgum hornsteinum. Málfrelsi þar sem ólíkar skoðanir takast á er einn þessara steina. Með lögum og stjórnarskrá er réttur hvers og eins tryggður til að láta skoðanir sínar í ljós, án þess að eiga það á hættu að vera refsað. En málfrelsið veitir engum rétt til að svívirða samborgara eða koma í veg fyrir að sjónarmið þeirra heyrist með háreysti og formælingum.
Grafið undan málfrelsi
Í grein sem birtist á þessum stað í september 2020 hélt ég því fram að á síðustu árum hefði sjálfsmyndastjórnmál orðið stöðugt áhrifameiri á Vesturlöndum. Í stað almennrar hugmyndafræði, s.s. um réttindi einstaklinga, hlutverk ríkisins og stjórnskipan, snérust stjórnmál sjálfsmynda um þjóðfélagsstöðu, kynþætti, kynhneigð, trúarbrögðum o.s.frv.:
„Frelsi krefst mikils af borgurunum. Sjálfsmyndastjórnmál mynda hins vegar farveg fyrir kröfur á samborgarana. Ýta undir trúna á að samfélagið skuli skipulagt af hinum réttsýnu. Til að ná markmiðinu er nauðsynlegt að pólitísk hollusta byggist á gremju, kvörtunum og dylgjum í garð annarra. Þeir sem ekki taka undir eru skilgreindir sem fjandmenn og kúgarar sem verði að þagga niður í. Að hver og einn leiti að innri styrkleika til að lifa farsælu lífi, er fyrirlitlegt.
Sjálfsmyndastjórnmál ganga á hólm við frjáls og opin samfélög sem umbera ekki aðeins ólík sjónarmið og skoðanir heldur hvetur til rökræðna – mynda öflugt skjól fyrir dýnamíska umræðu og skoðanaskipti ekki síst í háskólum og fjölmiðlum.“
Sjálfsmyndastjórnmál grafa undan málfrelsi, rökræðum og andófi. Í Bandaríkjunum hefur menning ritskoðunar og slaufunar náð að festa rætur. Varnarvirki frjálsra skoðanaskipta – háskólar og fjölmiðlar – eru að breytast í eins konar vígvelli þar sem „rangar“ skoðanir eru barðar niður. Þannig er reynt að taka gildi lýðræðis úr sambandi. Ég óttast að svipuð þróun sé að eiga sér stað víða í Evrópu og einnig hér á landi. Umburðarlyndi, hófsemd og virðing eru að láta undan gagnvart öfgum og ógnunum.
Sjálfsþöggun
Ef ekki er spyrnt við fótum verður gagnrýnin opinber umræða brotin niður – fræðimenn jafnt sem aðrir forðast að taka til máls. Beita sig sjálfsþöggun til að sleppa við svívirðingar og til að verja friðhelgi sinna nánustu. Og þannig molnar hægt en örugglega undan frelsinu og við tekur ok hins ósýnilega valds sjálfsmyndastjórnmála sem kyndir undir átökum og sundrungu. Stjórnlyndi hefur alltaf kunnað illa við að leitað sé svara við áleitnum spurningum og þolir ekki gagnrýni. Þöggun er áhrifaríkt valdatæki pólitískrar rétthugsunar sem beitt er gegn fjölbreytileika mannlífs og skoðana. Ef þöggunin dugar ekki, er alið á andúð og tortryggni í garð þeirra sem ekki eru þóknanlegir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. febrúar 2024.