Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Eldsumbrotin á Reykjanesi vekja nú sérstaka athygli á byggðaþróun, skipulagi og samgöngustefnu sem við sjálfstæðismenn í Reykjavík höfum beitt okkur fyrir í gegnum tíðina. Þetta eru hugmyndir um áframhaldandi rekstur Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni, uppbyggingu í Úlfarsárdalnum, þróun íbúðarbyggðar inn og norður með Sundum, í átt að Kjalarnesi, lagningu Sundabrautar og íbúðarbyggð í Geldinganesi. Allt eru þetta hugmyndir sem fyrrverandi borgarstjóri hefur hafnað og ekki mátt heyra minnst á. En nú eru þær nauðsynleg og tímabær viðbrögð við náttúruvá, vaxandi umferðartöfum og yfirvofandi gífurlegum húsnæðisskorti.
Reykjavíkurflugvöllur – öryggishlutverk á óvissutímum
Í næsta mánuði verður lögð fram skýrsla sérfræðinga um áformað flugvallarstæði í Hvassahrauni sem þá verður að öllum líkindum endanlega blásið af. Þar með verður leit að nýju flugvallarstæði aftur komin á núllpunkt. Einungis fyrrverandi borgarstjóri heldur enn í von og vilja til að reisa flugvöll í Hvassahrauni. Finnist nýr staður um síðir taka við tímafrekar rannsóknir og því næst a.m.k. 15 til 20 ára uppbyggingartímabil.
Reykjavíkurflugvöllur verður því áfram í Vatnsmýrinni um áratuga skeið og mikilvægi hans, ekki síst öryggishlutverk, mun að öllum líkindum aukast mjög vegna óvissu og langvarandi náttúruhamfara á Reykjanesi. Við slíkar aðstæður yrðu frekari þrengingar að vellinum, af manna völdum, augljós ógnun við samgöngukerfi og öryggishagsmuni þjóðarinnar.
Borgaryfirvöld verða því að láta af öllum áformum um að reisa íbúðarbyggð nánast ofan í flugbrautum vallarins, eins og skipulag hins nýja Skerjafjarðar gerir ráð fyrir. Við núverandi aðstæður þarf Reykjavíkurflugvöllur á öllu sínu landsvæði að halda, meðal annars fyrir flughlöð sem varaflugvöllur, þar með talið það svæði þar sem nú er fyrirhugað að reisa hinn nýja Skerjafjörð. Reisa þarf sómasamlega flugstöð sem tengja mætti samgöngumiðstöð annarra ferðamáta og breyta aðalskipulagi til að tryggja stöðu Reykjavíkurflugvallar.
Meiri uppbygging í Úlfarsárdal
Íbúðauppbygging hefur dregist mjög saman í Reykjavík á þéttingartímabilinu frá 2013. Hátt lóðaverð á dýrum þéttingarreitum var helsta ástæðan fyrir fasteignaverðbólgunni og framboð á nýjum íbúðum hefur verið afar einhæft um árabil. Hátt vaxtastig að undanförnu og hörmungarnar í Grindavík auka enn á húsnæðisskortinn, sem á eftir að fara í nýjar hæðir á næstu misserum ef ekki verður brugðist við af festu. Við þessar aðstæður þarf m.a. að hefja íbúðauppbyggingu í Úlfarsárdal sem allra fyrst
Sundabraut í forgang
Vegna eldsumbrotanna telja skipulagsfræðingar nú einsýnt að byggð Reykjavíkur beinist inn með Sundum og í átt að Kjalarnesi. Gera þarf því strax viðeigandi breytingar á aðalskipulagi til að hraða slíkri uppbyggingu. Sundabraut er nauðsynleg forsenda slíkrar byggðarþróunar. Hún myndi draga úr þeim miklu umferðartöfum sem nú eru taldar kosta íbúa höfuðborgarsvæðisins um 80 milljarða á ári. Lagning fyrsta áfanga Sundabrautar myndi draga úr umferðarþunga um Ártúnsbrekku, dreifa umferð, auka umferðaröryggi, stytta vegalengdir og draga úr umferðarmengun. Síðast en ekki síst yrði hún mikilvæg öryggis- og flóttaleið við hóprýmingar. Ég flutti tillögu í borgarstjórn um Sundabraut árið 2017 sem þá var samþykkt og sem kom undirbúningi hennar aftur á rekspöl. En við núverandi aðstæður er nauðsynlegt að hefja framkvæmdir við Sundabraut sem fyrst.
Íbúðarbyggð í Geldinganesi
Geldinganesið er óbyggt og þar blasa við tækifæri til mikillar uppbyggingar. Ólíkt þéttingarreitum í eldri byggð er þar hægt, án nokkurs niðurrifs, að skipuleggja og hefja uppbyggingu án tafar. Geldinganesið er í eigu Reykjavíkurborgar. Þar má því halda lóðaverði hófstilltu, ólíkt lóðum á þéttingarreitum, í einkaeign fjársterkra aðila, lóðum sem ganga kaupum og sölum milli fjárfesta og verktaka, sem maka þannig krókinn og hækka lóða- og íbúðaverð, löngu áður en hafist er handa við að reisa þar íbúðarbyggð. Víðfeðmi Geldinganessins samsvarar öllu svæðinu frá Ánanaustum að Rauðarárstíg og frá Sæbraut að Hringbraut. Þar mætti á skömmum tíma skipuleggja 20 þúsund manna íbúðarbyggð. Ég flutti tillögu um íbúðarbyggð í Geldinganesi árið 2020 og hef haldið ótrauð áfram að vinna því máli brautargengi.
Óvissutímar kalla á breytt viðhorf
Hér hafa verið nefnd dæmi um fjögur mikilvæg verkefni sem nú bíða úrlausnar við nýjar og erfiðari aðstæður en áður. Öll hefðum við kosið að náttúruöflin hefðu hlíft okkur við þeirri vá sem nú ógnar verðmætum samfélagsinnviðum á Reykjanesi. Við núverandi aðstæður veit enginn hvað nýhafið eldsumbrotaskeið á eftir kosta þessa fámennu þjóð. En áföllin eru til að læra af þeim. Það gerum við með því að hætta að bruðla með almannafé; hætta að hugsa um krúnudjásn yfir Fossvoginn og aðrar svimandi kostnaðarsamar skýjaborgir sem aldrei verða að veruleika. Það gerum við með því að bretta upp ermar og láta verkin tala, með ráðdeild og áræði. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.