Meirihlutinn klofinn um framtíð Reykjavíkur
'}}

Á fundi borgarstjórnar í gær fóru fram umræður um tillögu Sjálfstæðisflokks um fjölgun uppbyggingarsvæða í Reykjavík. Byggði tillagan á því að aðalskipulag Reykjavíkur yrði endurskoðað með hliðsjón af eldhræringum á Reykjanesskaga svo færa mætti vaxtarmörk borgarinnar og fjölga skilgreindum uppbyggingarsvæðum.

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fjallaði í ræðu sinni um húsnæðisskortinn í borginni sem væri uppsafnaður og fyrirséður til framtíðar. Nú hefði bæst við húsnæðisvandi Grindvíkinga og óvissa um skipulagsmál á stór höfuðborgarsvæðinu með hliðsjón af eldhræringum. Mikilvægt væri að bregðast við stöðunni af yfirvegun og skynsemi, en jafnframt fyrirhyggju.

„Enn fleiri skilja nú mikilvægi Sundabrautar og þegar hún vonandi kemst í gagnið í náinni framtíð, þá verður aukin byggð á Kjalarnesi, auk byggðar á fleiri aðliggjandi svæðum, mun raunhæfari og skynsamlegri möguleiki. Svokölluð Sundabyggð. Þetta er tímabært og skynsamlegt að skoða,“ sagði Hildur m.a. í ræðu sinni.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins var ekki samþykkt af meirihlutanum heldur var henni vísað til frekari meðferðar átakshóps um húsnæðismál. Það sem þó vakti athygli í umræðum um málið var hve sundurleitur meirihlutinn var í umfjöllun um framtíðarskipulag höfuðborgarsvæðisins.

„Hér talar fólk algjörlega í kross og hefur gjörólíkar hugmyndir um framtíðarskipulag borgarinnar. Það sést glöggt í umræðunni hér í dag - og einmitt þess vegna er málinu vísað til nefndar þar sem það fær að sofa svefninum langa. Því ekki mun þessum meirihluta takast að afgreiða mál af þessum toga hér í þessum sal. Þau munu aldrei geta staðið saman að atkvæðagreiðslum um stórar breytingar á framtíðarskipulagi borgarinnar – og einmitt þess vegna mun ekkert breytast undir stjórn þessa meirihluta,“ sagði Hildur.