Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Öflugir innlendir samkeppnissjóðir skipta máli fyrir rannsóknir og nýsköpun á Íslandi og því er mikilvægt að þeir séu einfaldir, hagkvæmir og skilvirkir. Ég hef því lagt til aðgerðir sem ekki aðeins spara umtalsverða fjármuni heldur bæta umhverfi opinberra samkeppnissjóða svo um munar. Við vinnum nú að því að fækka samkeppnissjóðum sem starfræktir eru á vegum háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins úr átta í þrjá. Samhliða því ætlum við að koma á fót einni umsóknargátt og lögfesta áhrifamat sjóðanna. Þá verður skerpt á hlutverki Rannís sem umsýslu- og þjónustustofnun opinberra samkeppnissjóða.
Samkeppnissjóðir hins opinbera á vegum ráðuneyta eru hið minnsta 75 talsins. Umfang þeirra er misjafnt og eru úthlutanir allt frá nokkrum milljónum króna í nokkra milljarða. Umsýsla þeirra er nú hjá 37 mismunandi umsýsluaðilum. Við blasir að hverjum sjóði fylgir ákveðin föst vinna, óháð umfangi hans. Smæstu sjóðirnir eru mjög óhagkvæmir í rekstri. Þá eru 55 sjóðir með skipaðar stjórnir og þar eru ekki taldar með úthlutunarnefndir eða fagráð. Í flestum stjórnum sitja þrír til fimm stjórnarmenn sem í langflestum tilvikum fá greitt fyrir stjórnarsetu. Áætla má að stjórnarmenn séu 220 til 240 talsins og að umsýslukostnaður sjóðanna sé vel yfir milljarður króna árlega.
Þessu þarf að breyta með aukinni hagræðingu. Unnið verður að því að koma á einni sjóðagátt sem allir opinberir aðilar geta nýtt sér til að auka hagkvæmni við úthlutun. Gáttin mun auka skilvirkni og gagnsæi og ýta undir að hægt sé að fækka enn frekar sjóðum og stjórnarmönnum. Jafnframt mun hún veita betri yfirsýn og bæta nýtingu fjármagns, sem kemur í veg fyrir sóun. Þá mun ein gátt spara umsækjendum, frumkvöðlum og fyrirtækjum tíma og vinnu við að sækja í samkeppnissjóði hins opinbera.
Þessari vinnu er ætlað að auðvelda og leggja grunninn að því að fækka enn frekar sjóðum til að auka árangur og skilvirkni opinberra samkeppnissjóða á Íslandi auk þess sem hægt er að spara ríkissjóði, og þar með skattgreiðendum, nokkur hundruð milljónir króna árlega.
Samhliða þurfum við að tryggja að samfélagsleg áhrif samkeppnissjóða nýtist samfélaginu. Það er erfitt að réttlæta tilurð sjóða sem ekki er hægt að sýna fram á að skili umtalsverðum samfélagslegum ávinningi.
Ísland á mikið undir því að fjölga stoðum efnahagslífsins og auka verðmætasköpun í samfélaginu. Náttúran sýnir okkur mátt sinn reglulega, krafturinn getur verið ógnvænlegur og afleiðingar alvarlegar. Það er til mikils að vinna að við styðjum við aukna verðmætasköpun til að auka lífsgæði hér á landi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar 2024.