Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Á borgarstjórnarfundi síðastliðinn þriðjudag lagði Sjálfstæðisflokkur til að fallið yrði frá öllum fyrirætlunum um að færa Reykjavíkurflugvöll í Hvassahraun. Samhliða yrði fallið frá frekari fjárframlögum borgarinnar til rannsókna á Hvassahrauni sem mögulegu flugvallarstæði, en fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir 20 milljóna króna framlagi til rannsókna árið 2024. Meirihlutinn treysti sér ekki til að samþykkja tillöguna.
Vissa á óvissutímum
Síðustu ár hafa farið fram athuganir á Hvassahrauni sem mögulegu flugvallarstæði. Byggðust athuganirnar á því mati meðal annars að ekki væru líkur á að gjósa myndi í nágrenni svæðisins næstu aldirnar.
Í ljósi eldsumbrota á Reykjanesskaga að undanförnu hafa líkur á að mögulegur flugvöllur í Hvassahrauni yrði fyrir tjóni eða truflunum vegna eldsumbrota í nánustu framtíð aukist að mati eldfjallafræðinga. Hafa jarðvísindamenn bent á að Reykjanesskaginn sé kominn inn í gostímabil sem varað geti í fleiri hundruð ár.
Staðan á Reykjanesskaga veldur óvissu og vekur margar spurningar. Hún kallar á endurskoðun skipulags og húsnæðisuppbyggingar á stórhöfuðborgarsvæðinu öllu. Hún skapar hræðilega óvissu fyrir íbúa Grindavíkur. Hún skapar jafnframt óvissu fyrir íbúa nærliggjandi byggða sem lesa fregnir af hugsanlegu hraunrennsli nærri heimilum þeirra í óskilgreindri framtíð. Óvissuþættirnir eru margir en eitt er nokkuð skýrt; með hliðsjón af eldsumbrotum og jarðhræringum á Reykjanesskaga mun Hvassahraun ekki reynast besti kostur fyrir uppbyggingu nýs flugvallar.
Stefna Samfylkingar ráðandi
Á fundi borgarstjórnar flutti formaður borgarráðs, Dagur B. Eggertsson, athyglisverða ræðu, hvar hann færði fyrir því margvísleg rök að Hvassahraun væri enn frábær kostur fyrir nýjan flugvöll. Jarðhræringar á svæðinu hefðu ekki nokkur áhrif. Borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, tók hins vegar ekki í sama streng og taldi fremur ólíklegt að Hvassahraun gæti komið til frekari skoðunar. Tveir valdamestu menn borgarkerfisins töluðu í kross en annar hafði betur – meirihlutinn samþykkti ekki tillöguna og stefna Samfylkingar varð ofan á.
Virðing við skattfé
Ólíkt meirihlutanum treystir Sjálfstæðisflokkurinn sér til að taka afgerandi afstöðu og segja uppbyggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni óskynsamlega. Við treystum okkur jafnframt til að tala alveg skýrt um það, að skattfé almennings skuli sýnd sú lágmarksvirðing að verja ekki 20 milljónum til viðbótar í rannsóknir á Hvassahrauni. Með hliðsjón af jarðhræringum á Reykjanesskaga og staðsetningu alþjóðaflugvallar í Keflavík muni Hvassahraun ekki reynast besti kostur fyrir nýjan flugvöll sem gegna eigi hlutverki bæði varaflugvallar og innanlandsflugvallar. Við erum óhrædd við þessa afstöðu og erum afgerandi í máli okkar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.