Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Enn eykst áætlaður kostnaður við fyrirhugaða Fossvogsbrú. Heildarkostnaður við smíði brúarinnar hefur margfaldast frá upphaflegri áætlun og er nú metinn á 8.800 milljónir króna. Ekki er víst að sú kostnaðaráætlun standist enda er um mjög sérhæft mannvirki að ræða.
Fossvogsbrú yrði 270 metra löng stálbrú, sem tengja á saman tvö jaðarsvæði: Kársnes og Nauthólsvík. Brúin mun hafa takmarkaðan almennan tilgang. Ekki er gert ráð fyrir bílum heldur einungis gangandi og hjólandi umferð um hana, auk borgarlínuvagna. Brúin mun lítil sem engin áhrif hafa til styttingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, fyrir utan þá sem eiga erindi á milli þessara jaðarsvæða.
Fossvogsbrú var fyrst rædd í borgarstjórn fyrir rúmum áratug og snerist hugmyndin þá um krúttlega göngu- og hjólabrú, sem kosta átti nokkur hundruð milljónir króna. Síðan hafa kostnaðaráætlanir margfaldast og ólíklegt er að endanlegur kostnaður verði undir tíu milljörðum. En eins og við fleiri opinberar framkvæmdir virðist kostnaðurinn ekki skipta máli. Skattgreiðendur borga brúsann á endanum.
Flaggskip borgarlínunnar?
Fossvogsbrú hefur verið nefnd flaggskip svokallaðrar borgarlínu. Komið hefur á daginn að upphaflegar kostnaðaráætlanir hennar hafa verið stórlega vanmetnar. Gert er ráð fyrir að kostnaður við framkvæmdahluta borgarlínu nemi 126 milljörðum króna á verðlagi síðasta árs. Á þá eftir að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði, sem mun að auki nema milljörðum króna árlega.
Allt bendir til að Fossvogsbrú verði óarðbær og hafi neikvætt núvirði eins og raunar borgarlínuverkefnið í heild. Margar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru arðbærar og miklu þarfari. Nær væri t.d. að efla núverandi strætókerfi en að bæta öðru kerfi við með óvissum kostnaði og árangri.
Geysidýrt gæluverkefni
Fossvogsbrú er skólabókardæmi um opinbert gæluverkefni, þar sem kostnaðaráætlunum virðist viljandi vera haldið lágum á meðan verið er að „selja“ verkefnið og lauma því yfir á herðar skattgreiðenda. Þegar dregur að framkvæmdum eru nýjar og raunhæfari áætlanir lagðar fram í trausti þess að málið sé komið svo langt að of seint sé að hætta við hina óarðbæru framkvæmd.
Þegar óskað var eftir upplýsingum um kostnað við Fossvogsbrú árið 2022 mætti undirritaður mikilli tregðu í kerfinu. Í árslok fékkst það svar að áætlaður kostnaður við brúna næmi 2.250 milljónum króna þótt augljóst væri að sú tala væri alltof lág og löngu úrelt.
Síðastliðið haust stökkbreyttist kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar í 7.500 milljónir króna. Nú hefur hún hækkað í 8.800 milljónir en þó er líklegt að raunkostnaður verkefnisins verði hærri.
Í uppfærðri kostnaðaráætlun er ekki gert ráð fyrir því að ryðfrítt stál verði notað í Fossvogsbrú eins og áður var stefnt að en þannig næst að lækka áætlunina um 1.400 milljónir. Var áður fullyrt að vegna mikils sjóálags væri ryðfría stálið nauðsynlegt til að halda viðhaldskostnaði niðri. Hætt hefur verið við notkun ryðfría stálsins með einu pennastriki, að því er virðist til að lækka kostnaðaráætlun.
Hagsmunir skattgreiðenda
Margföldun kostnaðaráætlunar ætti með réttu að leiða til þess að arðsemi Fossvogsbrúar yrði endurmetin í ljósi stökkbreytts kostnaðar. Í raun þyrfti að endurmeta arðsemi allra framkvæmda í tengslum við fyrirhugaða borgarlínu. Eftirfarandi spurningar blasa við:
· Er réttlætanlegt að verja um tíu milljörðum króna í afar dýra Fossvogsbrú, sem mun nýtast almenningi að mjög takmörkuðu leyti? Er ekki skynsamlegra að verja þessum fjármunum í brýnni og arðbærari samgönguverkefni í borginni?
· Er í lagi að þyngja skattbyrði Reykvíkinga enn frekar með nýjum skatti (umferðargjaldi) til að fjármagna borgarlínu, sem kosta mun hátt á annað hundrað milljarða króna?
Ekki síst ættu alþingismenn Reykvíkinga að svara þessum spurningum og láta málið til sín taka með hagsmuni skattgreiðenda að leiðarljósi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. febrúar 2024.