Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagði á dögunum fram skýrslu á Alþingi um innleiðingu EES-reglna í landsrétt. Skýrslan var unnin af dr. Margréti Einarsdóttur vegna skýrslubeiðni undirritaðrar ásamt hópi þingmanna. Í henni er fjallað um hvort svokölluð gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviði ráðherrans árin 2010 til 2022. Gullhúðun eða blýhúðun kallast það þegar EES-reglur eru innleiddar í íslenska löggjöf með meira íþyngjandi hætti en EES-samstarfið kveður á um; ganga lengra en regluverk Evrópusambandsins. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi. Samkvæmt henni var um að ræða gullhúðun í yfir 40% tilvika þegar EES-gerðir voru innleiddar í landsrétt. Engar vísbendingar eru um að slíkum tilfellum fari fækkandi.
Í sömu viku fór fram Framleiðsluþing SI, Samtaka iðnaðarins, í Hörpu. Samtökin beindu þar spjótunum að hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB, gullhúðun regluverks og framkvæmd eftirlits á vegum stofnana ríkisins. Þingið var vel sótt og fóru framsögumenn yfir hvernig regluverk og eftirlit hefði aukist undanfarin á og hvaða áhrif það hefði á atvinnulífið. Og auðvitað að endingu fólkið í landinu. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Maskínu fyrir SI segja 77% stjórnenda regluverk og eftirlit hafa aukist mikið undanfarinn áratug.
Við þingmenn höfum sumir reynt að spyrna fótum við reglusetningagleði íslenskra stjórnvalda; gert ítrekaðar tilraunir til að koma skikki á framkvæmd innleiðingar EES-reglna. Framkvæmdin sem lýst er í framangreindri skýrslu dr. Margrétar Einarsdóttur fer í bága við lög um þingsköp Alþingis og reglur um þinglega meðferð EES-mála. Skýrslan greinir m.a. frá því að mikill misbrestur sé á áskilinni tilgreiningu þegar meiri kröfur eru gerðar í frumvarpi en EES-gerð við innleiðingarlöggjöf og að rökstuðningur fylgi slíkri ákvörðun. Ég hef þegar brugðist við þessu með erindi til forsætisnefndar þingsins og hvatt til þess að brugðist verði við tillögum í framangreindri skýrslu. Þá mun ég leggja fram tillögu til þingsályktunar um þinglega meðferð EES mála til að undirstrika enn frekar vilja þingsins og afstöðu til gullhúðunar.
Umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson hefur sjálfur kynnt viðbrögð sín við niðurstöðum skýrslunnar varðandi þau frumvörp sem virðast innihalda gullhúðun. Hann hefur m.a. sett af stað vinnu við að endurskoða innleiðingu á EES-gerðum í löggjöf um mat á umhverfisáhrifum með það að markmiði að leggja fram frumvarp til að færa löggjöfina að EES-gerðum, þ.e. nær því sem gerist í ESB. Þannig verði regluverkið hérlendis sé ekki meira íþyngjandi en þar. Þá verður lagt til við forsætisráðuneytið að verklagi við undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa verði breytt til samræmis við niðurstöður skýrslunnar. Sérstakaur kafli verði í greinargerðum stjórnarfrumvarpa um útfærslu á viðkomandi EES-innleiðingu. Með því væru þingmenn mun betur upplýstir um frávik frá EES-reglum við innleiðingu í íslensk lög.
Niðurstöður skýrslunnar gefa fullt tilefni til sambærilegrar rannsóknarvinnu og viðbragða í öðrum ráðuneytum en umhverfisráðuneytinu. Utanríkisráðherra hefur skipað starfshóp um aðgerðir gegn gullhúðun sem lætur vonandi til sín taka. Það er mikilvægt að ekki sé gengið lengra við innleiðingu EES-gerða en þörf er á. Innlend fyrirtæki og neytendur eiga að sitja við sama borð og aðrir á innri markaði Evrópusambandsins., Auk þess koma íþyngjandi og óskilvirkar reglur sem eru sagðar stafa frá EES-samstarfinu óorði á samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Það er löngu kominn tími á samstillt átak um að bæta samkeppnishæfi Íslands.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 7. febrúar 2024