Ríkisendurskoðandi skoðar Fossvogsbrú
'}}

„Þetta er allt með hreinum ólíkindum og þær grundvallarbreytingar sem orðið hafa á verkefninu frá því Alþingi fjallaði um það á sínum tíma eru miklar,“ segir Jón Gunnarsson alþingismaður um Fossvogsbrú en hann ásamt Vilhjámi Árnasyni ritara Sjálfstæðisflokksins og alþingismanni gengu á fund ríkisendurskoðanda í vetrarbyrjun og viðruðu áhyggjur sínar af þróun mála og sívaxandi kostnaðaráætlunum. Samkvæmt nýjustu áætlunum mun brúin kosta 8,8 milljarða og geti þegar upp er staðið kostað mun meira. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

„Ríkisendurskoðandi er að skoða málið,“ segir Jón.

Hann segir að Samgöngusáttmálinn hafi verið í endurskoðun frá því síðasta sumar en ekkert bóli á niðurstöðu. Fossvogsbrúin sé eitt af þeim verkefnum sem sáttmálinn nái til. Hann telur eðlilegt að þróun þess verkefnis verði skoðað, bæði út frá stórhækkaðri kostnaðaráætlun og einnig út frá stjórnsýslu verkefnisins og þeim miklu breytingum sem orðið hafa á því frá því það var afgreitt á sínum tíma í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.

„Þar lá fyrir gróft kostnaðarmat borgarlínu sem hefur reynst marklaust. Þetta er risa verkefni og erfitt að sjá hvernig ríkissjóður á að vera í stakk búinn til að fjármagna það,“ segir Jón.

Kostnaður ekki hafður til hliðsjónar

Sigurtillagan að verkefninu var dýrasta tillagan sem kom fram og virðist kostnaður við verkefnið hafa haft lítið vægi við val á tillögu. Í blaðinu er einnig rætt við Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra í Kópavogi sem segir algjörlega afleitt hvernig kostnaðaráætlanir á fyrirhugaðri brú hafi rokið upp á síðustu árum en fyrstu kostnaðaráætlanir stóðu í 950 milljónum og voru fyrir þremur árum komnar í 2,2 milljarða, en hafa fjórfaldast síðan þá.

„Þetta er að mínu mati nokkuð sem Vegagerðin þarf að svara fyrir,“ segir Ásdís sem kveðst hafa óskað eftir því við Betri samgöngur að aflað verði skýringa á þessari hækkun.

Spurð að því hvort þurfi að hefjast handa á ný segir hún: „Það þarf að hafa í huga að Fossvogsbrúin hefur verið í aðalskipulagi hjá Kópavogsbæ frá 2013 og byggð verið skipulögð á Kársnesi miðað við að brúin rísi. Hugmyndin um Fossvogsbrú er því eldri en Samgöngusáttmálinn. Þá er mikilvægt að árétta að brúin yrði mikilvæg samgöngubót fyrir allt höfuðborgarsvæðið, ekki bara Kópavog, og er auðvitað gríðarlega mikilvæg tenging við stærstu vinnustaði landsins. Það yrði því mikið bakslag og forsendubrestur ef brúin yrði ekki að veruleika. Vegagerðin þarf hins vegar að svara því afhverju kostnaðurinn hefur fjórfaldast á ekki lengri tíma. Þá er óskiljanlegt að farið var af stað í hönnunarsamkeppni á síðasta kjörtímabili án þess að kostnaður væri hafður til hliðsjónar.“