Vill almennt útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka í ár
'}}

„Við erum með ákveðin for­gangs­verk­efni, eins og það að klára að selja Íslands­banka,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Segir hún að stefnt sé að almennu útboði í bankanum.

„Ég legg á það mikla áherslu að klára það verk­efni á þessu ári,“ segir hún og að hún sjái fyrir sér algjörlega opið almennt útboð þar sem allur almenningur hefur kost á að taka þátt.

„Eins ein­falt og við get­um og eins gagn­sætt og við get­um,“ segir hún.

Þórdís Kolbrún nefndi einnig nokkur umbótaverkefni sem unnið er að nú í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, meðal þeirra er að horfa til þess hvaða eignir ríkið þurfi að eiga og hverjar ekki.

„Ég veit það al­veg að í þess­ari rík­is­stjórn munu ákveðin mál ekk­ert fljúga í gegn, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að und­ir­búa ákveðin mál – hvort sem það er að selja Póst­inn [Íslandspóst] auk þess sem fleiri viður­kenna það að ein­ok­un­ar­versl­un rík­is­ins á áfengi sé kannski ekki snjall framtíðarfyr­ir­komu­lag,“ seg­ir Þór­dís Kol­brún.

„Ef þú ætl­ar að grisja og fókusa á það sem ríkið á að sinna, þá hlýt­ur þú að leita allra leiða til að losa ríkið und­an sam­keppn­is­rekstri og losa ríkið við eign­ir sem aðrir eru bet­ur til þess falln­ir að halda utan um og búa til ein­hver verðmæti með. Þannig er hægt að umbreyta alls kon­ar eign­um sem ríkið sit­ur á sem ætti að nota í annað hvort í bein­ar fjár­fest­ing­ar í innviðum sem skipta all­an al­menn­ing máli eða til að greiða niður skuld­ir,“ segir hún.

Hægt er að nálgast þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.