„Við erum með ákveðin forgangsverkefni, eins og það að klára að selja Íslandsbanka,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Segir hún að stefnt sé að almennu útboði í bankanum.
„Ég legg á það mikla áherslu að klára það verkefni á þessu ári,“ segir hún og að hún sjái fyrir sér algjörlega opið almennt útboð þar sem allur almenningur hefur kost á að taka þátt.
„Eins einfalt og við getum og eins gagnsætt og við getum,“ segir hún.
Þórdís Kolbrún nefndi einnig nokkur umbótaverkefni sem unnið er að nú í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, meðal þeirra er að horfa til þess hvaða eignir ríkið þurfi að eiga og hverjar ekki.
„Ég veit það alveg að í þessari ríkisstjórn munu ákveðin mál ekkert fljúga í gegn, en það þýðir ekki að það sé ekki hægt að undirbúa ákveðin mál – hvort sem það er að selja Póstinn [Íslandspóst] auk þess sem fleiri viðurkenna það að einokunarverslun ríkisins á áfengi sé kannski ekki snjall framtíðarfyrirkomulag,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Ef þú ætlar að grisja og fókusa á það sem ríkið á að sinna, þá hlýtur þú að leita allra leiða til að losa ríkið undan samkeppnisrekstri og losa ríkið við eignir sem aðrir eru betur til þess fallnir að halda utan um og búa til einhver verðmæti með. Þannig er hægt að umbreyta alls konar eignum sem ríkið situr á sem ætti að nota í annað hvort í beinar fjárfestingar í innviðum sem skipta allan almenning máli eða til að greiða niður skuldir,“ segir hún.
Hægt er að nálgast þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan og á öllum helstu hlaðvarpsveitum.