Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Stjórnmál snúast um það hvernig við viljum að samfélagið okkar sé skipulagt. Þar á meðal felst það í ákvörðunum stjórnmálanna að ákveða hvernig við reynum að tryggja að hagsmunir einstaklinganna fari sem best saman við hagsmuni samfélagsins í heild. Við viljum að þeir einstaklingar sem leggja mikið af mörkum fái að njóta þess en að öll njótum við þess öryggis sem getur falist í því að búa í góðu og auðugu samfélagi.
Þegar kemur að því að verðlauna þau sem ná að leggja mikið af mörkum í samfélaginu felst það ekki bara í að fólk fái notið framlags síns í launum eða peningum; mörg okkar eru upptekin af allt öðrum hlutum. Virðing, árangur og lífsfylling eru alls ekki síðri hvatning til góðra verka heldur en peningar, og sennilega mun betri.
Þetta kann að hljóma undarlega komandi frá fjármála- og efnahagsmálaráðherra sem dvelur daga langa með nefið ofan í Excel-skjölum og efnahagsskýrslum. Vissulega skipta peningar máli í samfélaginu og þjóna ómissandi hlutverki við að tryggja að við getum nálgast vörur og þjónustu, að merkjasendingar milli kaupenda og seljenda segi til um hvernig hægt sé að laga framboð að eftirspurn. En rétt eins og hundrað metra hlaup snýst ekki um sekúndur heldur hraða, þá er það markmið stjórnmálanna að stuðla að því að í samfélaginu verði til raunveruleg lífsgæði og peningarnir eru mælieining sem segir stóran hluta af sögunni um hvernig gengur, en segir ekki alla söguna.
Sköpunarkrafturinn
Eitt af því sem skiptir afgerandi máli er hvernig samfélagi gengur að leyfa nýjum hugmyndum að skjóta rótum. Kyrrstaða er ákaflega óholl fyrir okkur sem einstaklinga og er banvæn fyrir samfélög. Þess vegna ætti það alltaf að vera ofarlega á baugi hjá stjórnmálamönnum að gæta þess að við séum samfélag þar sem fólk finnur að það felast tækifæri í því að skapa nýja hluti, tala fyrir nýjum hugmyndum og prófa að fara ótroðnar slóðir. Hvað sem líður öllum þeim miklu auðlindum sem við Íslendingar njótum í svo ríkum mæli, þá er sköpunarkraftur einstaklingsins hin óþrjótandi umhverfisvæna og sjálfbæra auðlind sem ræður úrslitum um lífsgæði í landinu.
Nýsköpunarlandið Ísland
Það var því ákaflega gleðilegt að sjá fréttir í vikunni sem staðfesta enn og aftur að Ísland er um þessar mundir á réttri leið þegar kemur að umhverfi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Í samanburði á frumkvöðlastarfi í ríkjum OECD er Ísland nú í níunda sæti og höfum við verið að fikra okkur upp á slíkum listum undanfarin ári. Þessi góða staða er engin tilviljun heldur bein afleiðing af vinnu framúrskarandi og skapandi einstaklinga sem taka áhættu og þora að láta reyna á hugmyndir sínar. Stjórnvöld hafa líka lagt sitt af mörkum með ákvörðunum síðustu ára þar sem hefur meðal annars verið aukið verulega við stuðning vegna rannsókna og þróunar og heildstæð nýsköpunarstefna hefur verið mótuð, sem felur í sér sérstaka áherslu á frumkvöðladrifna nýsköpun.
Að gera gagn
Samfélag þar sem virðing er borin fyrir sköpun og fólk þorir að taka áhættu getur náð að vinna bug á jafnvel allra erfiðustu áskorunum. Þetta snýst vitaskuld um góða og skynsamlega umgjörð, þar sem ekki eru lagðar óeðlilegar hindranir í veg fyrir athafnafrelsi fólks. Í því samhengi er gott að hafin sé markviss vinna við að vinda ofan af svokallaðri „gullhúðun“ í íslenskri löggjöf þegar kemur að alþjóðlegum skuldbindingum. Þegar umgjörðinni sleppir er það svo hugarfarið sem líklega ræður einna mestu, og þar er mikil ábyrgð okkar allra sem förum með forystuhlutverk í samfélaginu. Við eigum að vera dugleg að hampa þeim sem þora að sigla móti straumnum, prófa nýja hluti og segja umbúðarlaust skoðanir sínar; allt eru þetta ómissandi hlutar af kraftmiklu og skapandi samfélagi. Sú virðing sem við berum fyrir framlagi hvert annars skiptir því líka máli, því í gagnkvæmri virðingu er að finna samfélagslegt eldsneyti og hvatningu sem getur haft áhrif ekki síður en peningar.
Allt hangir þetta saman og líka við ríkisfjármálin. Nýsköpun og frumkvöðlastarf er forsenda framfara sem eru aftur forsenda þess að ríkissjóður geti tekist á við áskoranir í dag og í framtíðinni. Við myndum gera sjálfum okkur og komandi kynslóðum sérstaklega mikinn greiða með því að huga oftar að því samhengi.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. febrúar 2024.