Óli Björn Kárason alþingismaður:
Stríð í Úkraínu, hrottaleg hryðjuverk Hamas í Ísrael, stríð á Gasa, vaxandi spenna milli Kína og Taívan, árásir Húta, sem ráða stórum hluta Jemen, á kaupskip á Rauðahafi, ófriður í mörgum löndum Afríku, spenna milli Pakistan og Indlands, borgarastríð í Myanmar, stríð í Sýrlandi, átök í Líbanon, aukin spenna milli Bandaríkjanna og klerkastjórnarinnar í Íran. Listinn er enn lengri – því miður. Heimurinn býr við meiri óstöðugleika og óvissu en áður á þessari öld. Mið-Austurlönd eru eins og púðurtunna og veruleg hætta er á að átök breiðist út. Púðurtunnurnar eru víða.
Rob Bauer, aðmíráll og formaður hermálanefndar NATO, heldur því fram að heimurinn hafi ekki verið hættulegri í áratugi. „Við neyðumst til að horfast í augu við að ekki er gefið að það ríki friður,“ sagði Bauer í nýlegu fréttaviðtali. NATO búi sig undir átök við Rússa. Í ræðu sem Bauer flutti á fundi hermálanefndarinnar 17. janúar síðastliðinn lagði hann áherslu á að sameiginlega yrðu ríki bandalagsins að tryggja pólitíska staðfestu samhliða hernaðargetu. Á tímum óvissu í alþjóðamálum mætti ekki vanmeta mikilvægi þessa.
Innrás Rússa í Úkraínu vakti frjálsar þjóðir Evrópu upp af værum blundi áhyggjuleysis og Svíar og Finnar ákváðu að ganga til liðs við varnarbandalag vestrænna þjóða. Hernaðarsérfræðingar og æ fleiri stjórnmálaleiðtogar hvetja nú til árvekni NATO-ríkja, sem verði að mæta ógnum framtíðarinnar.
Í ræðu sinni sagði Bauer að nýtt tímabil sameiginlegra varna væri hafið meðal ríkja NATO. „Og saman erum við að verja miklu meira en öryggi eins milljarðs íbúa og 31, bráðum 32, þjóða: Við erum að verja frelsi og lýðræði.“ Stríðið í Úkraínu hafi aldrei snúist um ógn við öryggi Rússlands frá Úkraínu eða NATO. „Þetta stríð snýst um að Rússar óttast nokkuð miklu öflugra en nokkurt vopn á jörðinni: lýðræðið.“
„Ef almenningur í Úkraínu býr við lýðræðisleg réttindi mun almenningur í Rússlandi þrá hið sama,“ sagði Bauer. Um þetta snúist stríðið.
Styrkur í samstöðu
Það þarf ekki mikla sérfræðiþekkingu til að átta sig á auknu mikilvægi NATO fyrir frjálsar þjóðir. Þess vegna er vaxandi einangrunarhyggja í Bandaríkjunum áhyggjuefni – ekki aðeins fyrir þjóðir Evrópu, heldur einnig fyrir lýðræðisríki um allan heim.
Meðal repúblikana á hugsjónin um sameiginlegt öryggi Vesturlanda sífellt erfiðara uppdráttar. Donald Trump hefur ekki sama skilning á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og Ronald Reagan. Repúblikanaflokkur Trumps er ekki sami flokkurinn og Reagan leiddi. Í forsetatíð sinni gagnrýndi Trump önnur aðildarríki fyrir að leggja ekki nægilega mikið af mörkum – Bandaríkin bæru hlutfallslega of þunga byrði. Gagnrýnin var á rökum reist en Trump hefur gengið lengra. Á kosningasíðu Trumps er haft eftir honum að ljúka verði „ferlinu sem við hófum undir stjórn minni að endurmeta í grundvallaratriðum tilgang NATO og verkefni NATO“.
Vivek Ramaswamy, sem hafði ekki erindi í forvaldi Repúblikana til forseta, hefur lýst því yfir að Bandaríkin eigi að segja skilið við NATO. Hann hefur lýst eindregnum stuðningi við Trump og stóð við hlið forsetans fyrrverandi þegar hann flutti sigurræðu eftir að úrslit í forvalinu í New Hampshire lágu fyrir.
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, sem í upphafi var talinn helsti keppninautur Trumps, hefur dregið sig í hlé. Í kosningabaráttunni sýndi hann lítinn skilning á varnarsamvinnu lýðræðisþjóða og í besta falli takmarkaðan skilning á alþjóðamálum. Hann er orðinn stuðningsmaður Trumps. Stór hluti, ef ekki meirihluti, þingmanna Repúblikanaflokksins fylgir Trump að málum.
Nikki Haley, fyrrum ríkisstjóri í Suður-Karólínu og sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, stendur ein eftir í keppninni við forsetann fyrrverandi. Með nokkurri einföldun má halda því fram að hún sé arftaki Reagans í alþjóðamálum. Haley gerir sér grein fyrir nauðsyn þess að lýðræðisríki vinni saman í að tryggja öryggi. Hún þekkir og styður hugmyndafræðina að baki 5. gr. sáttmála NATO – að árás á eitt ríki sé árás á öll aðildarríkin.
„Við erum að borga fyrir NATO og við fáum ekki svo mikið út úr því,“ sagði Trump í kosningabaráttunni fyrir nokkrum dögum. „Mér þykir leitt að segja ykkur þetta um NATO: Ef við þurfum einhvern tíma á hjálp þess að halda – segjum að ráðist verði á okkur – þá trúi ég ekki að það verði til staðar. Ég trúi því ekki.“
Vanþekking Donalds Trumps er lýsandi. Frá stofnun NATO árið 1949 hefur 5. greinin aðeins verið virkjuð einu sinni. Það var þegar ráðist var á Bandaríkin 11. september 2001. Gera verður þá kröfu til fyrrverandi forseta að hann þekki söguna og leggi ekki ósannindi á borð fyrir kjósendur. Og það er áhyggjuefni að sá sem sækist eftir að setjast í Hvíta húsið skuli sýna jafn mikla vanþekkingu.
NATO lifði af forsetatíð Trumps 2017 til 2021. Þolir bandalagið annað kjörtímabil? John Bolton, sem var þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, efast um það. Vonandi hefur hann rangt fyrir sér. En hitt er annað að Pútín Rússlandsforseti vonar, líkt og Xi Jinping, forseti Kína, að einangrunarhyggja nái yfirhöndinni í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Klerkastjórnin í Íran myndi fagna, líkt og Kim Jong Un, einræðisherra Norður-Kóreu.
Sjálfstætt mat
Varnar- og öryggismál Íslands hafa staðið traustum fótum með aðildinni að NATO og varnarsamningi við Bandaríkin. En í síbreytilegum og óstöðugum heimi skiptir miklu að við höfum getu og burði til að meta sjálfstætt hvernig hagsmunir lands og þjóðar verða best tryggðir. Í mörgu höfum við látið reka á reiðanum í þeim efnum. Einmitt þess vegna hafa sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins, undir forystu Njáls Trausta Friðbertssonar, lagt fram, í annað sinn, þingsályktun um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál í samvinnu við Alþjóðastofnun Háskóla Íslands.
Þróun í stjórnmálum, vaxandi einangrunarhyggja og óstöðugleiki, kallar á að Alþingi afgreiði þessa tillögu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. janúar 2024.