Brask og brall

Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Engum dylst það neyðarástand sem ríkt hefur í húsnæðismálum í Reykjavík en í því hefur óheilbrigð nálgun borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og nú Framsóknar við ráðstöfun lóða og byggingarheimilda haft mikið að segja. Sú nálgun einkennist annars vegar af áherslu á að fleyta sér yfir núllið fyrir ársuppgjör og hins vegar af því að gera vel við suma umfram aðra.

Sérstakir afslættir

Þetta lýsir sér í að ekki virðist skipta máli hvort greiðslur berist tímanlega eða uppbygging sé hafin eða henni lokið á lóð fyrir tilskilin tíma. Jafnvel þótt finna megi slík ákvæði í samningum er þeim sjaldnast fylgt eftir af hálfu borgarinnar. Oft fá einstakir aðilar sérstaka afslætti af lóðum á ýmsum forsendum. Algengast er að afslátturinn sé veittur undir formerkjum þess að viðkomandi félag hafi átt vinningstillöguna í hönnunarsamkeppni um tilteknar lóðir.

Vandinn er sá að oft endar vinningstillagan uppi á hillu hjá viðkomandi félagi, safnar ryki og hækkar í verði í eignasafni eða verður að söluvarningi á milli félaga veltandi milljörðum. Reyndar þarf ekki einu sinni vinningstillögu til að fá sérmeðferð. Dæmi um það eru lóðir í Gufunesi sem tiltekið félag keypti með afslætti ofan á fádæma kostakjör gegn því að reisa þar kvikmyndagerðarþorp ásamt fleiru. Mörgum árum, kennitöluskiptum, sölum og nokkrum deiliskipulagsbreytingum síðar, þar sem byggingum fyrir atvinnustarfsemi er breytt í íbúðarbyggingar og byggingarmagn aukið heilt yfir, hefur lítið sem ekkert risið af því sem áformað var. En verðmæti lóðanna stígur við hverja deiliskipulagsbreytingu á meðan lóðaskortinum er viðhaldið.

Bensínstöðvalóðirnar

Annað dæmi eru bensínstöðvalóðirnar. Í dag eru bensínstöðvar orðnar að eins konar þjónustumiðstöðvum þar sem jafnan má finna matvöruverslun, kaffihús, veitingastaði, pósthús, rafhleðslustöð og bensíndælu, þvottastöð og loftpumpu og fleira. Þetta ákveður borgarstjórnarmeirihlutinn að sé óæskilegt að hafa inni í hverfum og afhendir olíufélögunum byggingarheimildir á lóðunum án sérstakrar greiðslu að undanskildum gatnagerðargjöldum gegn því að þau hætti rekstri, rífi bensínstöðvarnar og byggi blokkir. Þessi gjafagjörningur byggðist á því að ekki væri búið að ákveða hve mikill byggingarréttur kæmi í hlut lóðarhafa, þótt borgin hafi strax áætlað að þarna kæmu 700-800 íbúðir. Nú nokkrum árum síðar hefur lítið raungerst í þeirri uppbyggingu, enda voru til að byrja með engar haldbærar teikningar á borðinu til að deiliskipuleggja, sem er verulega tímafrekt ferli hjá borginni. Að auki eru bensínstöðvarnar vinsælar. Sumar þeirra hafa ríkt listrænt eða menningarsögulegt gildi, Laugavegur 180 og Ægisíða 102 til dæmis, og margar þeirra eru vel sóttar af íbúum viðkomandi hverfis sem vilja síður sjá þær fara. Fyrir vikið hafa sumir forráðamenn olíufélaga sýnt aðgát og flýtt sér hægt við að þróa íbúðauppbyggingu á lóðunum sem fá þá að hækka í verði í takt við lóðaskortinn, en aðrir forráðamenn hafa selt byggingarheimildirnar áfram með dágóðum hagnaði til annarra félaga sem deila með þeim eignatengslum.

Hver græðir á sjúkum húsnæðismarkaði?

Það er ekki hægt að sakast við þá sem þiggja slík kostakjör þegar þau bjóðast frá borginni. Ábyrgðin er borgarstjórnarmeirihlutans sem ákveður sérstaklega að haga ráðstöfun lóða og byggingarheimilda með þessum hætti og sýnir einstakan skort á staðfestu gagnvart eigin fyrirætlunum í hvert sinn sem óskað er eftir breytingum sem skapa meiri hagnað hjá lóðarhöfum. Yfirleitt keppast sveitarfélög um að hafa gegnsæjan og stífan ramma utan um ráðstöfun lóða til að gæta jafnræðis, fyrirbyggja lóðabrask og tryggja að uppbyggingin fari fram innan tilskilins tíma. Þetta er nauðsynlegt verkfæri fyrir sveitarfélög sem vilja halda uppbyggingaráætlun og vinna að heilbrigðum húsnæðismarkaði þar sem framboð annar eftirspurn og íbúðir eru á viðráðanlegu verði. Af verkunum að dæma er þetta ekki forgangsmál í ráðhúsinu, enda hefur skortsstefnan sem einkennir húsnæðismálin í Reykjavík sprengt upp húsnæðisverð sem skilar sér í ríflegum fasteignagjöldum til borgarinnar.

Koma út í tapi

Til lengri tíma litið koma bæði borgin og Reykvíkingar þó út í tapi. Borgin fer á mis við þau fasteignagjöld sem hún gæti verið að fá af nýjum íbúðum á sama tíma og neyðin á fasteignamarkaði eykst með hverju ári. Sífellt færri hafa bolmagn til að takast á við húsnæðisverð í Reykjavík sem bæði eykur þrýsting á félagslega kerfið og á uppbyggingu í nágrannasveitarfélögum þar sem húsnæðisverð er lægra. Nú hefur hægt mikið á fasteignamarkaðnum vegna vaxtahækkana og verktakar halda að sér höndum eins og þeir telja sér fært. En fyrr en síðar munu vextir lækka og fasteignamarkaðurinn taka hraustlega við sér. Þá skiptir máli að framboð á íbúðarhúsnæði aukist í takt við aukna eftirspurn því annars verða afleiðingarnar miklar verðhækkanir. Hvað gerir borgarstjórnarmeirihlutinn þá? Verður haldið áfram á sömu vegferð? Eða verður blaðinu snúið við og eðlilegar ráðstafanir gerðar til að tryggja aukið framboð á íbúðarhúsnæði í Reykjavík á viðráðanlegu verði?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.