Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ófremdarástand hefur að undanförnu ríkt í sorphirðu í Reykjavík. Fjölmargar kvartanir hafa borist úr flestum hverfum borgarinnar um yfirfullar tunnur, sem hafi ekki verið losaðar vikum og jafnvel mánuðum saman. Þá hafa mikil brögð verið að því að heimilissorp safnist upp á yfirfullum grenndarstöðvum.
Sorphirða er ein af grunnskyldum hvers sveitarfélags. Misbrestur á henni getur haft sóðaskap og jafnvel heilbrigðisvanda í för með sér. Áratugum saman gátu Reykvíkingar treyst því að hirða heimilissorps gengi áfallalaust fyrir sig í borginni. Svo er því miður ekki lengur.
Sumarið 2023 hófst innleiðing á nýju kerfi heimilissorps í Reykjavík, sem fól m.a. í sér svokallaða fjórflokkun. Innleiðingin gekk brösuglega og sorphirða fór úr skorðum í kjölfarið. Ekki verður þó annað séð en Reykjavíkurborg hafi fengið nægan tíma, eða um tvö ár, til að innleiða hið nýja kerfi en lög um það voru samþykkt á Alþingi sumarið 2021. Vandann virðist því einnig mega rekja til skorts á skipulagi og stjórnun sorphirðu hjá borginni.
Stórhækkun sorphirðugjalda
Sorphirðugjöld hafa hækkað mikið í Reykjavík á undanförnum árum. Gjöldin eru nú mun hærri í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögunum. Hækkun um nýliðin áramót (2023-2024) gerði t.d. að verkum að reykvískt heimili, sem greiddi áður samtals 37.100 krónur á ári fyrir tvær tunnur, þ.e. blandaða tunnu og pappírstunnu, þarf nú að greiða samtals 63.000 kr. fyrir tvær tvískiptar tunnur. Hækkunin nemur 25.900 kr. eða 70%.
Þessar hækkanir hafa verið réttlættar með áðurnefndum kerfisbreytingum á sorphirðu. Í frumvarpi að lagabreytingunni frá 2021 kom þó fram að kostnaður vegna breytingarinnar yrði lítill fyrir sveitarfélög og verðlagsáhrif óveruleg. Nú vísar borgin hins vegar til þessara breytinga þegar sorphirðugjöld eru hækkuð á almenning langt umfram verðbólgu.
Ruslið er reynsluvísindi
Um þverbak keyrði síðan í desember 2023 þegar kvörtunum rigndi inn vegna ósótts heimilissorps úr flestum hverfum borgarinnar. Víða var kvartað yfir því að yfirfullar sorptunnur hefðu ekki verið tæmdar fyrir jólin. Þekkt er að mest af heimilissorpi fellur til um jól og áramót og því á skipulag starfseminnar auðvitað að miðast við þá staðreynd. Hins vegar skapaðist víða ófremdarástand þegar ekki reyndist unnt að losa sig við jólasorpið með eðlilegum hætti.
Borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins hefur reynst erfitt að fá upplýsingar úr borgarkerfinu um stöðu sorphirðu í Reykjavík frá því innleiðing nýs flokkunarkerfis hófst í maí sl.
Hinn 16. ágúst 2023 óskuðu fulltrúar flokksins í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur eftir upplýsingum um framvindu sorphirðunnar, t.d. yfirliti um tafir á hirðu heimilissorps, um frávik frá sorpdagatali og hvenær mætti búast við því að sorphirðan kæmist í viðunandi horf. Fyrirspurninni hefur ekki enn verið svarað þrátt fyrir að rúmir fimm mánuðir séu liðnir frá því hún var lögð fram.
Úrbætur eru nauðsynlegar
Ljóst er að stórbæta þarf stjórn og skipulag sorphirðu í Reykjavík. Sjá þarf til þess að nægur mannafli og tækjabúnaður sé fyrir hendi svo sorphirða gangi áfallalaust fyrir sig vetur sem sumar. Með því að ráða aukamannskap um jól og áramót (t.d. skólafólk í jólafríi) mætti t.d. stórauka afköstin á þessum háannatíma í sorphirðunni.
Útboð á sorphirðu gæti einnig stuðlað að lausn vandans. Reykjavíkurborg er eina sveitarfélag landsins sem ekki býður út sorphirðu en reynslan af slíkum útboðum er góð annars staðar. Sjálfsagt er því að kanna hagkvæmni þess að bjóða út sorphirðu í Reykjavík eins og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa ítrekað lagt til. Hægt væri að gera slíkar breytingar í áföngum og hagræða í samræmi við starfsmannaveltu svo ekki þyrfti að koma til uppsagna starfsfólks í tengslum við þær. Byrja mætti í völdum hverfum og meta reynsluna áður en lengra væri haldið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. janúar 2024.