Birgir Þórarinsson alþingismaður:
Austurvöllur er helgur staður í huga Íslendinga. Þar standa minnisvarði Jóns Sigurðssonar forseta, Alþingishúsið og Dómkirkjan. Það ætti því að vera skylda hvers manns að ganga vel um staðinn og sýna honum virðingu. Þetta sagði Jón Benonýsson í viðtali í Vísi árið 1965. Jón var vörður á Austurvelli og gekk um völlinn með einkennishúfu frá morgni til kvölds allt árið í ýmsum veðrum og sá til þess að staðurinn væri þrifalegur, þar færi ekkert misráðið fram og ekki væri gengið á grasinu.
Austurvöllur ekki skipulagt tjaldsvæði
Nú er hún Snorrabúð stekkur og helgin yfir Austurvelli lítilsvirt. Krotað er reglulega á styttuna af Jóni Sigurðssyni forseta, mótmælaspjöld hengd utan á hana, jafnvel plastpokar settir yfir höfuð Jóns og styttunni sýnd óvirðing. Austurvöllur sjálfur er svo orðinn að ókeypis tjaldstæði í boði Reykjavíkurborgar. Ætla má að þar gerist borgin sek um lögbrot þar sem Austurvöllur er ekki skipulagt tjaldsvæði. Ekki er aðgangur að salerni né rennandi vatni, eins og krafa er gerð um á tjaldsvæðum. Reykjavíkurborg veitir engu að síður leyfi fyrir tjöldum og þá ber henni að greiða gistináttaskatt. Viðbúið er að ferðamenn sem greiða fyrir gistingu í Laugardal og heimilislausir Íslendingar sem þar leita skjóls muni von bráðar færa sig niður á Austurvöll svo þeir þurfi ekki að greiða fyrir gistinguna. Það er þó ekki sjálfgefið að Reykjavíkurborg leyfi þeim að gista, þar sem það eru einkum hælisleitendur sem fá að reisa tjaldbúðir á Austurvelli, til þess að hafa góða aðstöðu til að mótmæla þjónustunni sem þeir fá á Íslandi, þrátt fyrir að hún sé sú besta sem býðst í Evrópu. Eða að mótmæla því að ekki fái fleiri hælisleitendur að dvelja hér á landi, þrátt fyrir að hlutfallslega fái flestir hér hæli miðað við önnur lönd. Jón Benonýsson fékk enga aðstöðu á Austurvelli og fékk ekki að tjalda þó svo að Austurvöllur hafi verið hans starfsstöð sumar jafnt sem vetur.
Lögreglusamþykkt og Yasser Arafat
Í lögreglusamþykkt Reykjavíkur segir: „Eigi má gista í tjöldum, húsbílum, hjólhýsum og tjaldvögnum á almannafæri í þéttbýli utan sérmerktra svæða.“ Í tjaldbúðum hælisleitenda á Austurvelli er sofið, eldaður matur og stórir gashitarar tendraðir til að halda hita á mannskapnum, með tilheyrandi sprengi- og eldhættu. Allt er þetta í nokkurra metra fjarlægð frá Alþingishúsinu. Tjaldbúð í svo mikilli nálægð við þinghús þjóðarinnar er þjóðaröryggismál og á ekki að viðgangast. Enginn virðist fylgjast með því hvað fer fram í tjaldbúðinni né hvaða búnaði er þar komið fyrir. Ég fullyrði að slíkt leyfðist hvergi í svo mikilli nálægð við þjóðþing annarra ríkja. Ég heimsótti nýlega forsetahöllina Mukata í Ramallah í Palestínu. Umhverfis höllina, sem samanstendur af nokkrum byggingum og minnisvarða og grafhýsi Yassers Arafats, er hár veggur sem gætt er af vopnuðum vörðum. Þar kemst enginn inn fyrir nema eiga þangað erindi og þurfa gestir að fara í gegnum hlið og vopnaleit. Minnisvarða Arafats er sýnd mikil virðing með heiðursverði alla daga. Það þarf varla að minnast á það að stranglega er bannað að klifra upp á minnisvarðann og flagga þar erlendum þjóðfána, hengja á hann kröfuspjöld og krota á hann. Tjaldbúðir eru að sama skapi bannaðar á svæðinu.
Vanvirðing borgaryfirvalda
Það er skylda þingmanna að standa vörð um minningu frelsishetju okkar Jóns Sigurðssonar forseta og sýna honum tilhlýðilega virðingu. Að sama skapi ber að virða helgi Austurvallar. Dusta ber rykið af fyrri áformum um að skipulagsvald Austurvallar og Alþingisreitsins verði hjá Alþingi.
Mótmælendur á Austurvelli þurfa ekki að reisa tjaldbúð eða gistiaðstöðu til að koma málefnum sínum á framfæri. Alþingi er friðheilagt, enginn má raska friði þess og frelsi. Öryggi og umhverfi Alþingis verður að tryggja. Borgaryfirvöldum væri sæmst að láta af þessum tjaldbúðaskrípaleik og vanvirðingu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 8. janúar 2024.