Óli Björn Kárason alþingismaður:
Í upphafi árs virtist mikilvægasta verkefni okkar vera skýrt – ekki einfalt, en óumdeilt í hugum flestra. Að ná tökum á verðbólgu og skapa þar með forsendur fyrir verulegri lækkun vaxta. Með því væri byggt undir verulegar kjarabætur launafólks og rekstrargrunnur fyrirtækja styrktur. Tónninn sem aðilar vinnumarkaðarins höfðu slegið fyrir áramót gaf tilefni til bjartsýni. Forysta verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins var og er samstiga í að tryggja stöðugleika, lægri verðbólgu og lægri vexti. Skilaboðin hafa verið skýr: Til að markmiðið náist „verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög, að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð.“
En svo minntu náttúruöflin enn og aftur á sig síðastliðinn sunnudag. Við fengum í fangið eina stærstu áskorun sem við sem þjóð höfum staðið frammi fyrir síðustu áratugi. Framtíð eins glæsilegasta sveitarfélags landsins er ógnað með alvarlegri hætti en við höfum fengið að kynnast frá eldgosinu í Vestmannaeyjum 1973. Allir Íslendingar horfðu agndofa á krafta náttúrunnar þegar eldgígur opnaðist innan bæjarmarka Grindavíkur og hraun lagði undir sig nokkur hús.
Breyttur veruleiki
Öll berum við þá von í brjósti að hægt verði að endurbyggja Grindavík – þetta blómlega, kröftuga og skemmtilega samfélag. En þótt nauðsynlegt sé að halda í vonina verður raunsæi að ráða, ekki síst þegar kemur að stuðningsaðgerðum ríkisins við íbúa og fyrirtæki. Það blasir við að langur tími mun líða þangað til óhætt verður talið fyrir Grindvíkinga að snúa aftur heim. Þeir voru rifnir upp með rótum 10. nóvember þegar þeim var gert að yfirgefa heimili sín eftir mikla jarðskjálfta og eignatjón. Þrátt fyrir eldgos við Sundhnúksgíga 18. desember voru margir ágætlega bjartsýnir á að stutt væri í að hægt yrði að snúa aftur heim og töluverður hópur Grindvíkinga hélt jólin í bænum góða. Sú bjartsýni hvarf síðasta sunnudag.
Jarðvísindamenn telja að nýtt skeið sé hafið með tilheyrandi jarðhræringum á Reykjanesskaga. Við þurfum að laga okkur að nýjum veruleika, búa okkur undir að kljást við náttúruöflin, reisa varnarmannvirki þar sem hægt er en einnig þróa byggðina á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu með öðrum hætti en við töldum óhætt að gera. Þetta er verkefni sem Íslendingar komast ekki undan og það verður ekki leyst nema í samvinnu íbúa, sveitarfélaga, ríkisins og vísindamanna. Og það mun taka mörg ár.
Uppkaup á íbúðum
Ljóst er að eignatjón í Grindavík er gríðarlegt. Eignatjón er hægt að bæta en að yfirvinna andlegt áfall er erfiðara. Það verður ekki gert í einrúmi heldur með aðstoð vina, vandamanna og sérfræðinga. Nagandi óvissa um framtíðina fer illa með okkur öll. Grindvíkingar vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér – hvenær og hvort þeir geta snúið aftur til síns heima. Einhverjir hafa þegar tekið ákvörðun um koma ekki aftur til baka. Slíka ákvörðun ber að virða og allt barnafólk hefur á henni skilning.
Vonin og trúin er sterkasta afl okkar í glímunni við erfiðleika. Stjórnvöldum og Alþingi ber skylda til þess að veita Grindvíkingum von og styrkja trú þeirra á framtíðinni. Gefa þeim tækifæri til að ráða örlögum sínum – taka sjálfstæða ákvörðun án þvingana. Boltinn er hjá ríkisstjórn og Alþingi.
Ríkið á að bjóðast til að kaupa allt íbúðarhúsnæði í Grindavík fyrir utan það sem Náttúruhamfaratrygging hefur dæmt ónýtt og mun því bæta. Um leið verði eigendum veittur forkaupsréttur að eignum sínum, þannig að þeir geti gengið að þeim vísum þegar óvissuástandi lýkur og þeir ákveða að snúa aftur heim.
Það er rétt hjá félaga mínum og vini, Vilhjálmi Árnasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, að með uppkaupum fá Grindvíkingar nauðsynlegt svigrúm, jafnt andlegt sem fjárhagslegt. Þeir fá tækifæri til að taka ákvörðun til skemmri og lengri tíma til að koma lífi fjölskyldunnar í fastari skorður, á eigin forsendum en ekki samkvæmt forskrift hins opinbera. Slíkt er í takt við eðli Grindvíkinga sem vilja standa á eigin fótum, skapa sér eigin framtíð. Skapgerð Grindvíkinga mótaði eitt blómlegasta sveitarfélag landsins.
Það dýrmætasta
Fjórum dögum eftir að eldgos hófst í Vestmannaeyjum í janúar 1973 var minnt á það í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins að nábýlið við eldinn hafi gert það að verkum að menn æðrast ekki þótt hann bæri á sér. Íslendingar þekki ógnir hans en treysti á mildi:
„Áreiðanlega hyggjast flestir eða allir Vestmannaeyingar snúa til baka til heimkynna sinna, er mesta hættan er hjá liðin. Kannski eiga fleiri hús Vestmannaeyinga eftir að verða eldinum að bráð, og hvað gerum við þá? Líklegast er að flestir hugsi eitthvað á þennan veg: Fyrir hvert eitt hús, sem undir hrauni kann að lenda, byggjum við tvö. Þegar Hekla gaus seinast spurði einhver: Hvað gerum við, ef Búrfellsvirkjun fer? Svarið var einfalt. Við byggjum hana aftur og Austfjarðavirkjun líka.
Við byggjum þetta land og getum hvergi annars staðar hugsað okkur að lifa lífinu. Landið lifir líka, og þá staðreynd harmar enginn Íslendingur. Sambýlið getur verið erfitt á stundum, en þá erfiðleika kjósum við okkur, því að þeir eru til að sigrast á þeim.“
Náttúruhamfarirnar í og við Grindavík minna okkur á hvað er dýrmætast í lífinu; fjölskyldan, vinirnir og samfélagið sem við lifum í. Flest annað verður aukaatriði. Hvernig við sem þjóð stöndum við bakið á Grindvíkingum, jafnt fjárhagslega sem andlega, verður prófsteinn á það samfélag sem við Íslendingar höfum byggt upp. Við höfum verið hreykin af því að tilheyra samfélagi sem veitir styrk og aðstoð eftir megni þegar erfiðleikar eða hörmungar ríða yfir. Það er skylda okkar að sýna Grindvíkingum það í verki.