Umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi frá árinu 2017 hafa hlutfallslega verið flestar á Íslandi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir, ólíkt því sem haldið er fram í opinberri umræðu. Sé horft til höfðatölu er ljóst að umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi eru margfalt fleiri en á öðrum Norðurlöndum. Þetta kemur fram í frétt á vef dómsmálaráðuneytisins - sjá hér.
Í fréttinni eru bornar saman umsóknir um alþjóðlega vernd til og veitingu hennar á Norðurlöndunum. Ef horft er á höfðatölu er ljóst að Ísland fékk margfalt fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en hin Norðurlöndin, eða um 580 umsóknir á hverja 100.000 íbúa, auk þess sem veitt vernd er hæst hér af Norðurlöndunum eða 304 einstaklingar á hverja 100.000 íbúa.
Nánar má lesa um samanburðinn í frétt dómsmálaráðuneytisins.
Margfalt fleiri Palestínumenn sækja um vernd á Íslandi
Sama á við þegar kemur að umsóknum Palestínumanna um alþjóðlega vernd. Þar sker Ísland sig einnig úr og árið 2023 bárust íslenskum stjórnvöldum 223 umsóknir um alþjóðlega vernd frá Palestínu. Svíþjóð bárust ekki nema 86 umsóknir. Danmörk, Finnland og Svíþjóð viðurkenna ekki Palestínu sem sjálfstætt ríki og flokka því umsóknir þaðan sem umsóknir frá ríkisfangslausum einstaklingum. Í Danmörku sóttu 82 án ríkisfangs árið 2023, Noregi 82 og Finnlandi 11. Mögulega eru einhverjar af umsóknum í síðastnefndum þremur ríkjum frá öðrum hópum en Palestínumönnum.
Möguleg skýring á þessum mun á fjölda umsókna frá Palestínu er fólgin í frávikum í lögum, reglum og framkvæmd laga um útlendinga hér á landi í samanburði við önnur Norðurlönd. Ísland virðist eftirsóttara land en hin Norðurlöndin í augum þessa hóps. Einhver dæmi eru um að Palestínumenn hafi fengið vernd í öðru Evrópuríki áður en sótt er um vernd hérlendis. Frá árinu 2015 hafa 750 Palestínumenn sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi og eru um 80% þeirra karlmenn, þar af höfðu 53% fengið alþjóðlega vernd í öðru Evrópuríki.
Ekki skylda að sækja fólk til Gaza
Í frétt dómsmálaráðuneytisins er bent á að í lögum um útlendinga segir ekkert um skyldu íslenskra stjórnvalda til að aðstoða dvalarleyfishafa til að komast til landsins. Skyldan sem hvílir á stjórnvöldum er að gefa út dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, að því gefnu að lögbundin skilyrði séu uppfyllt. Takmarkast slík dvalarleyfi við kjarnafjölskyldu og því aðeins veitt nánustu aðstandendum einstaklinga sem hér búa og hafa rétt til fjölskyldusameingingar.