Vill að ríkið kaupi íbúa út
'}}

„Ég veit ekki hvernig mér líður, ég er hálftil­finn­inga­laus. Þetta er bæði ógn­vekj­andi og mjög óraun­veru­legt og ég er dof­inn yfir þessu,“ seg­ir Vil­hjálm­ur Árna­son ritari Sjálfstæðisflokksins og alþing­ismaður sem býr í Grindavík í samtali við Morgunblaðið í dag - sjá hér.

Vilhjálmur telur að byggð verði áfram í Grindavík, þrátt fyrir eldsumbrot þó augljóslega verði lengri bið á því en áður var talið. Hann vill að stjórnvöld stígi fastar inn og hjálpi fólki að hjálpa sér sjálft.

Hann segir að nú sé að koma annar eins hópur inn á fasteignamarkaðinn og gerðist síðast, fólk sem dvalið hefur inni hjá ættingjum, í sumarhúsum og í bráðabirgðahúsnæði. Þetta fólk þurfi nú að finna sér húsnæði til lengri tíma og að stjórnvöld þurfi að aðstoða við það.

Segir hann margar leiðir færar til þess. Til dæmis megi borga fólki sitt húsnæði út og gefa því svo forkaupsrétt á því aftur þegar bærinn verði byggilegur á ný. Einnig mætti veita ívilnanir, t.d. skattleggja ekki séreignasparnað þegar hann væri tekinn út, afnema stimpilgjöld sem og að veita íbúum aðra fjárhagsaðstoð. Hann bendir á að ýmis kostnaður hafi aukist verulega hjá Grindvíkingum m.a. vegna lengri fjarlægða og dýrari samgangna. Fólk hafi einnig orðið fyrir tekjufalli vegna ástandsins.

Getum eytt óvissu fólks

„Við eyðum ekki óviss­unni með nátt­úr­una, en við get­um eytt óvissu fólks hvað varðar hús­næðismál og fjár­hag. Það verður líka að hafa svör fyr­ir fyr­ir­tæk­in, svo þau flytji ekki var­an­lega á brott,“ segir Vilhjálmur við Morgunblaðið.

Hann var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun - sjá hér. Þar sagði hann of mikla svartsýnisspá að halda að ekki verði aftur búið í Grindavík næstu ár eða áratugi. Það sé áfram fullur hugur hjá eigendum fyrirtækja að halda starfsemi sinni áfram sem sé forsenda þess að hægt sé að byggja bæinn upp á ný. Hins vegar verði að grípa þá íbúa sem ekki geti hugsað sér nú að snúa til baka.

„Það er ekki hægt að svara spurningum um náttúruna, hvernig hún ætlar að haga sér, en það er hægt að svara því hvernig íbúar verða gripnir og fyrirtækin,“ segir hann og að nauðsynlegt sé að fólk geti farið að skipuleggja næstu mánuði og jafnvel ár, búa sér heimili á nýjum stað án þess að þurfa að hafa áhyggjur af tveimur heimilum.

Hann segir að lengri bið sé eftir því að íbúar treysti sér til að snúa til baka. Tryggja þurfi öryggi fyrir börn þar sem fjöldi nýrra sprunga hafi myndast í gær og að það taki lengri tíma að laga heitt og kalt vatn auk rafmagns.

Hleypa þarf fyrirtækjum inn sem fyrst

„Það þarf líka að hleypa fyrirtækjum inn sem fyrst í verðmætabjörgun og koma hita og rafmagni á þau. Forsenda þess að hægt sé að byggja Grindavík hratt upp aftur er að koma starfseminni í gang sem fyrst,“ segir Vilhjálmur.

Ljóst sé að einhver hópur fólks muni ekki treysta sér til að snúa til baka, breytingin í gær hafi verið svo stór að ekki þurfi að spyrja neinn að því hvort hann vilji flytja til baka eða ekki. Það eigi svo margt eftir að koma í ljóst. Ástandið sé flókið, náttúruhamfaratrygging sé eitt en hættusvæðin annað. Fljótlegast sé að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft. Stjórnvöld verði að koma að því.

„Þetta eru svör sem hægt er að svara strax og þarna er hægt að hjálpa fólkinu að fara vinna strax í áfallinu og byrja á nýjum punkti. Það þarf þá ekki að vera fylgjast með fréttum í miðju áfalli í marga mánuði um hver ætlar að gera hvað,“ segir Vilhjálmur.