Óli Björn Kárason, alþingismaður:
Tónninn sem sleginn hefur verið af aðilum vinnumarkaðarins síðustu vikurnar gefur tilefni til töluverðrar bjartsýni um að hægt sé að ná raunhæfum kjarasamningum til langs tíma sem verja kaupmátt og leggja grunn að betri lífskjörum á komandi árum. Það yrði ekki ónýt nýársgjöf til launafólks og fyrirtækja. Með slíkum samningum mun raunverulegur árangur nást í baráttunni við verðbólgu og tryggja verulega lækkun vaxta. Fátt skiptir launafólk meira máli. Og fátt byggir betur undir aukinn kaupmátt til lengri tíma.
Síðasta fimmtudag liðins árs komu aðilar vinnumarkaðarins saman á fundi í húsnæði ríkissáttasemjara. Í sameiginlegri yfirlýsingu segir: „Samtök atvinnulífsins og breiðfylking landssambanda og stærstu stéttarfélaga á almenna vinnumarkaðnum hafa tekið höndum saman um gerð langtímakjarasamninga sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika í efnahagslífinu.“ Þá er bent á að eitt mikilvægasta verkefnið í komandi kjaraviðræðum sé að ná niður mikilli verðbólgu og háu vaxtastigi og til „að það markmið náist verða allir aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki landsins, ríki og sveitarfélög, að leggjast á eitt og getur enginn skorast undan ábyrgð“. Í framhaldi af yfirlýsingunni samþykkti stjórn Samtaka atvinnulífsins áskorun til aðildarfélaga sinna, annarra fyrirtækja landsins, ríkis og sveitarfélaga um að styðja við sameiginleg samningsmarkmið nýrra kjarasamninga með því að halda aftur af verðhækkunum og launaskriði eins og unnt er. Þessa áskorun ber öllum að taka alvarlega.
Forsendur lægri vaxta
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri telur að takist aðilum vinnumarkaðarins ætlunarverk sitt muni árangur nást í baráttunni við verðbólguna. Þar með lækki vextir fljótlega. Í viðtali við mbl.is benti seðlabankastjóri á að sagan sýni að sátt á vinnumarkaði sé lykillinn að verðstöðuleika. Það eigi t.d. við um þjóðarsáttina árið 1990. „Kjarabætur fólks koma ekki bara í gegnum nafnlaunahækkanir heldur með því að horfa á heildarmyndina. Kaupmáttur getur aðeins vaxið í smáum en þéttum skrefum, á grundvelli stöðugleika og vaxandi framleiðni – verðmætasköpun.“
Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka metur stöðuna með svipuðum hætti í viðtali við Dagmál Morgunblaðsins í lok síðasta árs. Verði samið um 4-5% launahækkanir séu líkur á því að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans náist að ári eða snemma á árinu 2025. Verðbólguvæntingar myndu hjaðna og vaxtastig lækka hraðar en áður hefur verið reiknað með. Þannig verði til grunnur undir betri lífskjör hér á landi.
Það er barnaskapur að ætla að ríkisvaldið fái frítt spil í komandi kjarasamningum. Jafnt ríki og sveitarfélög geta leikið lykilhlutverk í að tryggja að skynsamlegir langtímasamningar náist milli aðila vinnumarkaðarins. Þótt ég hafi aldrei verið hrifinn af því að hið opinbera komi með beinum hætti að lausn deilna á vinnumarkaði er fráleitt annað en huga að því með hvaða hætti slík aðkoma geti verið.
Skynsamlegasta krafan
Krafan verður örugglega hávær um að auka bóta- og millifærslukerfið, ekki síst með hækkun barna- og vaxtabóta og húsnæðisbóta. Skynsamlegt svar ríkisstjórnarinnar við slíkum kröfum er að leggja fram áætlun um verulega lækkun lægsta þreps tekjuskattsins. Fátt kemur þeim sem lægri launin hafa betur en lækkun tekjuskatts fyrir utan lækkun útsvars.
Svo það sé sagt enn og aftur: Skynsamlegasta krafan sem samtök launafólks geta lagt fram gagnvart ríkisvaldinu – ríkisstjórn þriggja flokka – er að mörkuð verði langtímastefna í ríkisfjármálum, sem taki mið af því að aukinn hluti hagvaxtar verði eftir í vösum launafólks. Að launahækkanir verði ekki étnar upp á komandi árum með hækkun skatta og gjalda líkt og sumir stjórnmálaflokkar hóta komist þeir til valda. Að sá stöðugleiki sem tekist gæti með nýrri þjóðarsátt verði ekki nýttur til að stækka sneið hins opinbera af þjóðarkökunni heldur til að tryggja að aukin verðmæti verði eftir í vösum launafólks.
Hitt er rétt að lífskjör launafólks ráðast ekki aðeins af því hversu margar krónur eru eftir í launaumslaginu eftir að skattar og gjöld hafa verið greidd. Vextir og verðbólga skipta miklu en það vill oft gleymast að lífskjörin ráðast einnig af því hvernig til tekst við alla stjórnsýslu hins opinbera – hversu hagkvæm og góð þjónustan er.
Þegar sveitarfélögin tryggja ekki nægjanlegt framboð af lóðum undir íbúðir finnur launafólk harkalega fyrir því í formi hærra íbúðaverðs og -leigu, hærri verðbólgu og vaxta. Þegar leikskólamál eru í ólestri greiða ungir foreldrar kostnaðinn, samfélagið allt verður fyrir tjóni og jafnrétti á vinnumarkaði er ógnað. Þegar grunnskólinn nær ekki að tryggja að nemendur nái grunnfærni í lestri og stærðfræði er grafið undan öflugasta verkfærinu til að tryggja öllum jöfn tækifæri. Þegar skipulag heilbrigðisþjónustunnar tekur fremur mið af þörfum kerfisins en þörfum þeirra sem á þjónustunni þurfa að halda er byggt undir tvöfalt heilbrigðiskerfi. Þegar stjórnkerfi hins opinbera leggur steina í götur fyrirtækja gefast frumkvöðlar upp. Þegar komið er í veg fyrir skynsamlega nýtingu grænna orkukosta er ekki aðeins orkuöryggi heimila og fyrirtækja ógnað, heldur nýjum tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara fórnað.
Skynsamlegir kjarasamningar eru mikilvægir en duga því ekki einir og sér til að tryggja stöðugleika og bættan hag alls almennings. Það hefur bein áhrif á lífskjör okkar allra hvernig ríkið og sveitarfélögin standa að verki. Hvernig farið er með opinbera fjármuni og eignir er spurning um lífskjör og lífsgæði, ekki síður en hvað verður eftir í launaumslaginu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2024.