Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ársverðbólga 2023 nam 7,7% á landsvísu og hefur ekki verið hærri í mörg ár. Verðbólgan fór yfir 10% í mars en hjaðnaði nokkuð þegar leið á árið. Góður árangur hefur því náðst í baráttunni við verðbólguna undanfarna mánuði en betur má ef duga skal.
Eitt brýnasta verkefni nýhafins árs verður að lækka verðbólguna frekar. Jafnframt þarf að lækka vexti. Um það eru flestir hagfræðingar, stjórnmálamenn og verkalýðsleiðtogar sammála. Ljóst er að skynsamlegir kjarasamningar eru ein helsta forsenda þessara markmiða.
Önnur mikilvæg forsenda er sú að hið opinbera hækki ekki verð á þjónustu sinni langt umfram verðlag enda eru allar slíkar hækkanir olía á verðbólgubálið. Frá samtökum launafólks er því hávær krafa um að ríki og sveitarfélög gæti hófs í gjaldskrárhækkunum.
Samkvæmt samþykktri tillögu borgarstjóra frá því í nóvember sl. áttu gjaldskrár þjónustugjalda borgarinnar að jafnaði að hækka um 5,5% nú um áramótin. Þegar gjaldskrárnar eru lesnar sést að frá þessari tölu eru mörg sláandi frávik eins og eftirfarandi dæmi sýna:
Allt að 71% hækkun sorphirðugjalda
Sorphirðugjöld hækka um allt að 71% um áramótin. Árgjald fyrir blandaða tunnu verður 43.000 krónur og hækkar þannig um 17.800 kr. milli ára (71%). Árgjald tunnu fyrir matarleifar hækkar um 2.700 kr. (17%) og verður 18.200 kr.
Árgjald fyrir pappírstunnu lækkar hins vegar um 1.800 krónur (15%) og verður 10.100 krónur. Þá lækkar árgjald plasttunnu um 1.100 krónur (9,2%) og verður 10.900.
Árgjald tvískiptrar tunnu fyrir blandað sorp og matarleifar verður 52.500 kr. og tvískiptrar tunnu fyrir pappír og plast 10.500 kr.
Heimili, sem greiddi áður samtals 37.100 krónur á ári fyrir tvær tunnur, þ.e. blandaða tunnu og pappírstunnu, þarf nú að greiða samtals 63.000 krónur á ári fyrir tvær tvískiptar tunnur. Hækkunin nemur 25.900 krónum eða 70%.
40% hækkun bílastæðagjalda
Bílastæðagjöld í miðborginni voru hækkuð um 40% í október. Þá var tekin upp gjaldtaka á sunnudögum, gjaldsvæði stækkuð og gjaldtökutími lengdur til kl. 21 alla daga vikunnar.
29% hækkun í strætó
Fargjöld strætisvagna hækka 8. janúar. Stakt gjald hækkar þá um 10,5% eða í 630 krónur. Um er að ræða þriðju gjaldskrárhækkun Strætó bs. á fimmtán mánuðum. Hefur stakur farmiði hækkað um 29% á þessu rúma ári eða úr 490 í 630 krónur. Er þetta líklega hæsta staka strætógjald í heimi. Enginn magnafsláttur er veittur þótt keyptar séu tíu ferðir eins og tíðkast víðast hvar erlendis.
Miklar hækkanir Sorpu
Mikill munur er á verðhækkunum vegna móttöku úrgangs hjá Sorpu. 28 af 107 gjaldaliðum standa í stað eða lækka. 25 gjaldaliðir hækka hins vegar um rúmlega 100%. Mesta verðhækkunin nemur 310%, þ.e. fyrir mengaðan uppgröft á urðunarstað.
Níu af þrettán gjaldflokkum hjá gas- og jarðgerðarstöðinni Gaju hækka í verði og eru þær hækkanir á bilinu 24-70%. Gjaldhækkanir á endurvinnslustöðvum eru hóflegar, frá 0-4,35%.
Ljóst er að áðurnefndar hækkanir Sorpu bitna helst á atvinnufyrirtækjum og þess vegna þykir ef til vill í lagi að hafa þær svo miklar. Það má þó ekki gleymast að það eru ætíð neytendur sem borga á endanum fyrir auknar álögur á atvinnulífið.
21% hækkun skíðakorta
Dagskort fullorðinna hækkar í verði um 21%, kostar 5.940 eftir hækkun. Vetrarkort hækkar í 51.600 kr. eða um 16%, dagskort á göngusvæði hækkar um 20% og vetrarkort um 21%. Þá fá eldri borgarar ekki lengur ókeypis aðgang að skíðalöndunum.
Gjaldskrár verði endurskoðaðar
Allar hækkanir á gjaldskrám Reykjavíkurborgar og dótturfyrirtækja hennar hafa verið samþykktar af borgarfulltrúum meirihluta Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar. Þegar þessar hækkanir eru skoðaðar er engu líkara en óðaverðbólga geisi í Reykjavík.
Á síðasta fundi borgarráðs fyrir jól var samþykkt að hugsanlega yrði dregið úr áður ákveðnum gjaldskrárhækkunum „vegna þjónustu við börn og barnafjölskyldur þannig að þær verði ekki hærri en 3,5% árið 2024“.
Einar Þorsteinsson verðandi borgarstjóri sagði í fjölmiðlum í vikunni að Reykjavíkurborg væri tilbúin að halda aftur af gjaldskrárhækkunum til að stuðla að jafnvægi í efnahagslífinu.
Reykjavíkurborg verður að endurskoða þær gjaldskrárhækkanir sem eru algerlega úr takti við eðlilegar kostnaðarhækkanir eða þróun verðlags í landinu. Að óbreyttu munu þessar hækkanir virka sem olía á verðbólgubálið og bitna á efnahag fjölmargra barnafjölskyldna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. janúar 2024.