Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Góðan dag, ég er frá stjórnvöldum og er kominn til að hjálpa.“ Það vakti mikla athygli á sínum tíma þegar Ronald Reagan, þá forseti Bandaríkjanna, sagði að þetta væru ekki endilega þau orð sem kjósendur þyrftu að heyra. Með því lagði hann áherslu á að afskipti hins opinbera eru ekki alltaf til þess fallin að bæta líf okkar, heldur þvert á móti verða þau oftar til þess að flækja það á svo marga vegu. Auðvitað þarf að setja þetta í samhengi við tímann þar sem orðin voru látin falla, en það má þó vel heimfæra þessi orð á nútímann og taka undir þau. Verkefni stjórnmálanna eru fjölbreytt og ég trúi því að stjórnmálastarf skipti máli. Við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna þurfum þó að hafa skýra sýn um hvert við viljum stefna en einnig að láta hendur standa fram úr ermum gagnvart þeim verkefnum.
Verkefnin felast þó ekki í því að hafa vit fyrir fólki eða ákveða, fyrir hönd hins opinbera, hvernig það á að lifa lífi sínu. Hlutverk stjórnmálamanna er miklu fremur að skapa aðstæður þar sem fólk hefur val um það hvar það vill búa, starfa, stunda nám, sækir sér heilbrigðisþjónustu og þannig mætti áfram telja. Til þess þarf að skapa grundvöll þar sem einkaframtakið fær að njóta sín, þar sem fyrirtæki fá að starfa í friði frá hinu opinbera, þar sem sköttum og gjöldum er stillt í hóf og þar sem hugað er að helstu grunninnviðum landsins. Frjálst val færir valdið til fólksins og í því felst hið raunverulega lýðræði.
Við stöndum fyrir ýmsum áskorunum nú í upphafi árs. Það sem skiptir okkur öll máli er að verðbólgan hjaðni og vextir lækki. Þar skiptir höfuðmáli að skynsamleg sátt náist við gerð kjarasamninga. Önnur brýn verkefni eru á sviðum mennta-, orku- og útlendingamála. Það blasir við að við þurfum að ná betri árangri í menntakerfinu okkar, við þurfum að ráðast í frekari orkuöflun og einfalda leyfisveitingar sem og að ná betri tökum á málefnum þeirra sem hingað koma til að leita eftir alþjóðlegri vernd. Þetta eru þau verkefni sem stjórnvöld þurfa að setja í forgang. Það er ekki – og á ekki að vera – hlutverk stjórnmálanna að ætla sér að laga öll raunveruleg og óraunveruleg vandamál, grípa inn í öll verkefni eða boða frekari opinber afskipti af málum sem einstaklingar eða fyrirtæki geta sjálf leyst. Rétt eins og Reagan benti á er það ekki endilega það sem fólk þarf á að halda.
Á forsendum einfaldara lífs, frelsis og samkeppni hefur okkur tekist að leysa ýmis mál. Við eigum að einblína á það að leysa krafta úr læðingi og búa til umhverfi þar sem fólk hefur jöfn tækifæri og val. Það að setja sér markmið um að einfalda regluverk frekar en að flækja það og treysta fólki til eigin ákvarðana og athafna í lífi og starfi er ágætis áramótaheit.
Gleðilegt nýtt ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. janúar 2024.