Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Annað viðburðaríkt ár er senn að baki, en um þessi áramót er samfélagið í Grindavík okkur flestum efst í huga. Íslendingar kunna að kljást við náttúruöflin og undanfarin misseri hefur ekki skort á stórar áskoranir, jafnt á þeim vettvangi og öðrum. Hins vegar er fátt sem býr fólk undir þá þrekraun að yfirgefa heimili sín að kvöldlagi í óvissu um hvað tekur við. Styrkur Grindvíkinga við þessar aðstæður hefur verið aðdáunarverður. Þar fer enda samfélag frumkvöðlastarfsemi, elju og verðmætasköpunar.
Snör handtök dómsmálaráðherra, Alþingis og starfsfólks á vettvangi við byggingu varnargarða sönnuðu gildi sitt þegar gos brast á með litlum fyrirvara að kvöldlagi þann 18. desember. Það hefur löngum verið styrkur okkar Íslendinga að geta brugðist hratt við óvæntum aðstæðum. Þótt framvindu mála sé erfitt að fjölyrða um, þá er eitt víst; við munum standa með Grindvíkingum af fullum þunga eins lengi og með þarf.
Sterk staða vísar veginn
Nýliðið ár einkenndist af viðsnúningi í efnahagslífinu. Staða ríkissjóðs hefur batnað langt umfram björtustu spár Covid-áranna, hvort sem litið er til afkomu eða skuldastöðu. Tíðindi ársins af stöðugt betra lánshæfi ríkissjóðs bera stöðunni skýr merki. Hagvöxtur hefur tryggt lægri skuldahlutföll, sem létta byrðar landsmanna, skapa jarðveg frekari skattalækkana og tækifæri til að fjárfesta af enn meiri krafti í innviðum.
Afkoma ríkissjóðs hefur verið langt umfram væntingar undanfarin tvö ár. Það skilar sér nú til baka í tekjum til ríkissjóðs að hafa staðið með heimilum og fyrirtækjum í heimsfaraldrinum. Gjaldskyld félög hafa aldrei verið fleiri og fleiri greiða nú tekjuskatt en þegar mest var 2016. Af þessu má enn og aftur sjá að besta leiðin til að tryggja tekjur til ríkisins er að skapa góð skilyrði fyrir kraftmikið atvinnulíf.
Jákvæð merki eru komin fram um að verðbólga fari minnkandi. En björninn er ekki unninn. Samstöðu þarf til að ná verðbólgu áfram niður og þar munu samningar á vinnumarkaði spila stórt hlutverk á komandi ári. Takist vel til er raunhæft að hafa væntingar um vaxtalækkanir í náinni framtíð.
Barist um grundvallargildi
Um síðustu áramót fjallaði ég hér um breytta heimsmynd í kjölfar miskunnarlauss innrásarstríðs Rússa í Úkraínu. Ári síðar berjast Úkraínumenn enn gegn innrásarliðinu og verja tilvist sína sem frjáls og fullvalda þjóð. Þeir berjast hins vegar ekki aðeins fyrir eigin tilvist, heldur fyrir því að alþjóðalög og landamæri séu virt. Á þeim gildum byggir heimssýn okkar Íslendinga líkt og annarra vestrænna lýðræðisríkja. Ísland mun áfram standa af fullum krafti með úkraínsku þjóðinni í baráttunni, jafnt í orði sem á borði. Við vinnum nú að langtímaáætlun að stuðningi við Úkraínu.
Ófriðarbálið hefur logað víðar með tilheyrandi mannfalli og hörmungum. Hrottaleg hryðjuverkaárás Hamas á saklausa borgara í Ísrael þann 7. október hóf nýja öldu ófriðar á svæðinu sem ekki sér fyrir endann á. Líkt og svo oft áður eru það almennir borgarar sem bera þyngstu byrðarnar.
Ísland hefur beitt sér af krafti á alþjóðlegum vettvangi frá upphafi, jafnt með stuðningi og meðflutningi ályktana í Sameinuðu þjóðunum, margföldun fjárframlaga til mannúðaraðstoðar og fundum með stjórnvöldum á svæðinu. Ákallið er skýrt um vopnahlé, óheft aðgengi neyðaraðstoðar, tafarlausa lausn gísla Hamas og virðingu við alþjóðalög. Teggja ríkja lausn verður enn að teljast eini raunhæfi grundvöllur friðar á svæðinu til lengri tíma.
Umbætur og raunsæi
Á umbrotatímum síðustu ára höfum við tekið á móti fjölda fólks á flótta í leit að vernd og leggjum með því okkar af mörkum líkt og aðrar þjóðir. Álagið á innviði og stjórnsýslu er hins vegar orðið verulegt áhyggjuefni og kostnaður vegna málaflokksins er kominn úr böndunum. Sérstakt áhyggjuefni er að séríslenskar reglur stuðla að opnara kerfi en þekkist í nágrannalöndum. Óraunhæft er að samfélag okkar leggi meira af mörkum vegna vanda fólks á flótta en nágrannaþjóðir og forsenda árangursríkrar stefnu í málaflokknum er að framkvæmd hennar ofgeri hvorki innviðum eða stjórnsýslu. Til lengri tíma þarf hún einnig að vera í góðri sátt við samfélagið. Umbóta er þörf á þeim lögum og reglum sem gilda um hælisleitendamál. Um það vitna allar tölur sem m.a. sýna að við fáum mun fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd en nágrannaþjóðir og við samþykkjum hærra hlutfall umsókna.
Umbrotatímar í heimsmálunum hafa að sama skapi minnt okkur á mikilvægi þess að öryggis- og varnarmál okkar Íslendinga séu í föstum skorðum. Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og varnarsamningur við Bandaríkin 1951 voru ekki óumdeild skref, en ég hygg að um þau efist fáir í dag. Þjóðaröryggisstefnan frá 2016 skapaði enn fremur breiða pólitíska sátt um þessar grunnstoðir í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar. Við núverandi aðstæður getur ekki verið valkvætt að taka þátt og axla ábyrgð. Ég mun þess vegna beita mér fyrir því að við, líkt og önnur bandalagsríki, leggjum meira af mörkum á komandi árum - bæði hér heima og í fjölþjóðlegu varnarsamstarfi.
Nýtum tækifærin
Þrátt fyrir legu landsins erum við ekki eyland í efnahagsmálum, frekar en í öryggis- og varnarmálum. Á komandi ári fögnum við 30 ára afmæli EES-samningsins sem markaði vatnaskil fyrir íslenska þjóð. Fjórfrelsið, með tilheyrandi tækifærum til búsetu, viðskipta og frjálsrar farar hefur verið meðal helstu drifkrafta framúrskarandi lífskjara okkar Íslendinga. Á tímum vaxandi einangrunar- og verndarhyggju víða hefur sjaldan skipt meira máli að bera áfram kyndil viðskiptafrelsis, en við slíkar aðstæður hefur okkur ávallt farnast best.
Með þessu er ekki sagt að tækifærin komi öll að utan. Þvert á móti. Við erum í einstakri stöðu til að halda áfram að stórbæta lífskjör okkar á komandi árum. Forsenda áframhaldandi hagvaxtar og framfara er að við nýtum auðlindir okkar og tækifæri. Fá ríki búa að sömu möguleikum til að leggja sitt af mörkum í orku- og loftslagsmálum, með gagnkvæmum ávinningi fyrir íslenskt samfélag og heimsbyggðina alla. Við sitjum þó ekki ein að þeirri stöðu og ef sofnað er á verðinum geta tækifærin hæglega gengið okkur úr greipum.
Sóknarfærin liggja í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum. Sjávarútvegur, stóriðja og hugverkaiðnaður eru meðal hryggjarstykkja atvinnulífsins með tilheyrandi ávinningi í skatttekjum og fjölbreyttum störfum. Þar hefur hvetjandi skattkerfi og umgjörð sem styður við vaxandi verðmætasköpun verið lykilatriði. Ný tækifæri liggja víða í ferðaþjónustu, fiskeldi og beislun vindorku, svo fátt eitt sé nefnt. Umgjörðin er mislangt á veg komin og sums staðar verður vart við vaxtarverki. Þeir mega þó ekki verða til þess að við leggjum árar í bát, heldur ættu þeir að vera okkur hvatning til að gera sífellt betur - öllum til heilla. Ef við höldum rétt á spilunum eru okkur allir vegir færir.
Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.
Grein birt í Morgunblaðinu á síðasta degi ársins.