Ábyrgð, ráðdeild og spennandi framtíð
Við Sjálfstæðisfólk í Garðabæ höfum alltaf notið góðs af því að liðsheildin er sterk og við ræðum málin umbúðalaust. Á árinu sem senn líður settum við aukinn kraft í umræður og fundi um bæjarmálin á vettvangi Sjálfstæðisfélagsins okkar. Ég vil þakka stjórn félagsins og ykkur öllum fyrir kraftmikla og góða fundi, sem eru okkur bæjarfulltrúum flokksins ákaflega dýrmætir.
Ég hef haft einstaklega gott og gaman að því að eiga í virku samtali við bæjarbúa á þessu ári. Ég hef á vettvangi bæjarins lagt mikið upp úr því að skapa okkur vettvang til að „eiga samtalið“ eins og það kallast. Þetta höfum við gert á íbúafundum, á fundum með starfsfólki bæjarins og haghöfum, á hinum ýmsu viðburðum og svo framvegis. Þessi samskipti eru mér og mínu samstarfsfólki mjög mikilvæg en sýna líka hvernig við viljum vinna í þágu bæjarbúa.
Árið hefur verið annasamt og tíðindamikið. Í nýsamþykktri fjárhagsáætlun kveður við mun aðhaldssamari tón en á síðustu árum þar sem viðamikil hagræðing í rekstri og hækkun útsvars eru fyrirferðarmikil. Í umfjöllun um fjármálin er meginmálið að við í Garðabæ rísum undir okkar stefnu. Við leggjum lágar álögur á íbúana og ætlum að gera það áfram. Við höfum sett í forgrunn að vernda þjónustuna, sem er framúrskarandi og okkar þjónustuloforð. Um leið stöndum við vörð um ábyrgan rekstur og sterka stöðu bæjarins. Við sýnum fyrirhyggju á óvissutímum.
Vð höfum staðið í ströngu við endurbætur á skólahúsnæðinu okkar og einnig staðið í mikilli uppbyggingu á skólahúsnæði í Urriðaholti. Við opnuðum nýjan glæsilegan búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Brekkuási og undanfarnar vikur hafa íbúar þar verið að koma sér fyrir, sem er einkar ánægjulegt. Við stöndum í metnaðarfullum breytingum á fyrirkomulagi leikskólamála sem mun auka öryggi og gæði í þjónustunni fyrir yngsta fólkið okkar. Dagdvalarrýmum á Ísafold verður fjölgað um 10 sem er langþráður áfangi. Þá verð ég að minnast á uppbyggingu nýrra hverfa og uppbyggingu í þeim eldri. Mjög vel hefur gengið að selja lóðir í Hnoðraholti og byggð er í þann mund að byrja að rísa þar og í Vetrarmýri. Þá bjóðum við velkomna nýja íbúa á Álftanes en þar fjölgar íbúum talsvert. Þar búum við svo vel að eiga sterka innviði en munum að sjálfsögð bæta við leik- og grunnskólaþjónustu eftir þörfum.
Að vanda hefur íþróttalíf bæjarins blómstrað, með frábærum árangri yngra og eldra íþróttafólks úr Garðabæ. Ekki má heldur gleyma því að við höfum átt fjölmargar góðar samverustundir í bænum okkar. Það var mikil stemmning í frábæru Jazzþorpi í vor og Rökkvuhátíðin í haust var frábærlega heppnuð undir stjórn okkar unga og flotta listafólks. Þetta eru bara fáein dæmi úr okkar góða samfélagi.
Þrátt fyrir að við drögum úr framkvæmdum á næsta ári stöndum við vörð um mikilvæg verkefni. Þar nægir að nefna að 2.áfangi Urriðaholtsskóla verður tekinn í notkun á fyrsta ársfjórðungi og sama gildir um nýjan leikskóla við Holtsveg. Þá hefjumst við strax handa við uppbyggingu 3. áfanga Urriðaholtsskóla þar sem m.a. íþróttahús og sundlaug munu rísa. Framundan er líka mikilvæg uppbygging veitukerfis bæjarins, m.a. á Álftanesi.
Ég veit að við erum öll sammála um að það eru spennandi tímar framundan í Garðabæ. Við tökum því fagnandi á móti árinu 2024 og ætlum okkur að halda metnaði og krafti í okkar starfi.
Með hátíðarkveðjum f.h. bæjarfulltrúa XD í Garðabæ,
Almar Guðmundsson
Oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Garðabæjar