Áramótakveðja

Nú þegar árið 2023 er að líða undir lok er gott að horfa yfir þau verkefni sem hafa verið á borði okkar í Múlaþingi og eru framundan.

Rekstur sveitarfélagsins eins og annarra sveitarfélaga um allt land hefur verið krefjandi nú á verðbólgutímum en fagnaðarefni er þó að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins hefur snúið til betri vegar og fjárhagsáætlun sýnir fram á enn betri rekstrarafkomu á komandi ári.

Uppbygging á vegum sveitarfélagsins hefur verið víðtæk og samkvæmt áætlun. Skipulagsmál hafa verið krefjandi og mikilvægt að halda áfram vel og faglega utan um þann málaflokk því stórar samgönguframkvæmdir eru framundan. Fjarðarheiðargöng eru í forgangi í gildandi jarðgangnaáætlun, tilbúin til framkvæmda ásamt öllu því mikilvæga skipulagi sem tengir göngin við byggð á Seyðisfirði og á Egilsstöðum. Heilsársvegur um Öxi er einnig framkvæmd innan Múlaþings sem við leggjum þunga áherslu sem eru bæði öflugu atvinnulífi og íbúum mikilvægar.

Aukin tæknivæðing undanfarin ár ýtir undir betri aðgang að störfum, menntun og þjónustu óháð búsetu og höfum við séð töluverða íbúafjölgun fylgja þeirri þróun sem er langt umfram markmið húsnæðisáætlunar. Húsnæðisuppbygging er því mikilvæg samhliða þeirri íbúafjölgun og áhersla okkar hefur verið að eiga nægar fjölbreyttar skipulagðar lóðir svo framkvæmdaaðilar geti farið hratt og vel í húsnæðisuppbyggingu.

Þjónusta sveitarfélagsins þarf einnig að laða fólk að og höfum við lagt metnað í öfluga þjónustu í öllum okkar byggðakjörnum og sérstaklega má nefna áherslu okkar á að tryggja næg leikskólapláss í öllum byggðakjörnum Múlaþings þar sem öll börn frá 12 mánaða aldri fá leikskólavistun.

Múlaþing er eitt fjögurra sveitarfélaga á austurlandi sem hugsar nú sem ein heild varðandi alhliða innviðauppbyggingu í gegnum svæðiskipulag Austurlands 2022-2044. Sú aðferðafræði er afar sterk og ýtir undir stórtækar framkvæmdir. Sveitarfélögin létu einnig framkvæma greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands í gegnum samband sveitarfélaga á austurlandi (SSA). Þar bendum við á mikilvægi Austurlands í verðmætasköpun sem skapar um fjórðung útflutningstekna ríkisins. Að sveitarfélög sameinist sem ein öflug heild ýtir undir enn frekari framkvæmdir og verðmætasköpun sem tryggir hag allra sveitarfélaga og fagna ég því heillaskrefi okkar.

Með bestu óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.