Ísland styður varnargetu Úkraínu ásamt öðrum ríkjahópum
'}}

„Markmiðið er að stuðningurinn leiði til bættrar varnarstöðu Úkraínu í baráttunni við innrásarlið Rússa. Með því að taka þátt í þessum ríkjahópum og veita viðbótarfjárframlög höldum við áfram að sýna í verki mikilvægi þess að styðja við Úkraínu af fullum kraft,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra um þá ákvörðun að Ísland taki þátt í starfi tveggja ríkjahópa sem veita Úkraínu stuðning, annars vegar á sviði netvarna- og upplýsingamála og hins vegar á sviði sprengjueyðinga. Þetta kemur fram á vef utanríkisráðuneytisins.

Ísland tilkynnti einnig um viðbótarfjárframlag upp á 50 milljón krónur í gegnum sjóði Atlantshafsbandalagsins (e. Comprehensive Assistance Package) til kaupa á lækningavörum fyrir Úkraínu. Á vef ráðuneytisins segir að frá innrás Rússa í Úkraínu fyrir tæpum tveimur árum hafi Ísland veitt Úkraínu stuðning til mannúðar-, efnahags- og öryggistengdra verkefna upp á rúma 5,5 milljarða íslenskra króna. Stuðningurinn hefur fyrst og fremst verið veittur í gegnum alþjóðlegar stofnanir, þar á meðal Sameinuðu þjóðirnar, Alþjóðabankann, Atlantshafsbandalagið og í gegnum aðra fjölþjóðlega vettvanga.