Heil og sæl kæru félagar í Málfundafélaginu Óðni.
Vonandi eru allir komnir í gott jólaskap.
Árið hefur verið viðburðarríkt hjá Óðni.
Aðalfundur félagsins var haldinn þann 4. janúar síðastliðinn og ný stjórn kjörin. Stjórn skipa í dag Birna Hafstein formaður, Auður Björg Guðmundsdóttir varaformaður, Magnús Þór Gylfason ritari, Þorvaldur Birgisson gjaldkeri, Bryndís Bjarnadóttir, Guðný Halldórsdóttir, Hildur Hauksdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Viktor Ingi Lorange meðstjórnendur. Á fyrsta stjórnarfundi nýrrar stjórnar var sett niður metnaðarfull áætlun fyrir árið og hefur stjórn unnið ötullega að því að fylgja henni eftir. Okkur er mikilvægt að opna fyrir aukið samtal innan grasrótar Sjálfstæðisflokksins sem og við allt sjálfstæðisfólk og bjóða til funda öllum þeim sem hafa áhuga á að hittast, ræða og fræðast um mikilvæg mál. Samstaða og samtal er okkur hugleikið og á fundi okkar eru allir velkomnir, félagsmenn, allir sjálfstæðismenn og allt fólk - sama hvar það er statt í stjórnmálum. Við á Íslandi erum svo lánsöm að búa hér friðsæl þjóð í frjálsu landi. Við gerum svo margt gott en það er alltaf hægt að gera betur hvort sem það er innan okkar ágæta flokks eða við stjórn landsins.
Óðinn hefur haldið fjóra opna fundi í Valhöll með góðum árangri. Fyrsti opni fundurinn hafði yfirskriftina „Jöfn tækifæri barna“ og fengum við til liðs við okkur til að sitja í pallborði, Hildi Björnsdóttur oddvita borgarstjórnarflokksins, Óla Björn Kárason þingmann, Jón Pétur Zimsen aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla, Elfu Lilju Gísladóttur tónlistarkennara og verkefnastjóra „List fyrir alla.” Pallborði stjórnaði Kristrún Lind Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Ásgarðs. Í upphafi fundar lék Hjörtur Ingvi Jóhannsson fyrir okkur á píanó. Það er fátt betra í upphafi funda eða þar sem fólk kemur saman en að hlusta á lifandi tónlist. Tónlist hefur jákvæð áhrif á líðan og þjappar okkur saman - gerir lífið bara betra almennt! Þessi nýbreytni fór vel í fólk og einn fundargesta, stálheiðalegur sjálfstæðismaður, sagðist aldrei hafa komið á fund í bókastofu Valhallar fyrr þar sem lifandi tónlist hefði verið flutt og brosti breitt. Fundurinn var virkilega áhugaverður og við hefðum auðveldlega getið setið fram á nótt og rætt málin. Gaman væri að halda framhaldsfund um þetta mikilvæga málefni.
Annar opni fundurinn sem við héldum var fundur í samstarfi við Jón Gunnarsson þáverandi dómsmálaráðherra undir yfirskriftinni: „Næstu skref í útlendingamálum.” Jón var gestur fundarins og fór yfir málefnið. Það var stappað út úr dyrum enda mál sem hefur tekið mikið pláss í allri samfélagsumræðu. Fólk var hvatt til að taka þátt í umræðum og sjálfstæðisfólk lét ekki sitt eftir liggja í þeim efnum.
Þriðji opni fundur okkar var afmælisfundur í tilefni 85 ára afmæli félagsins okkar þann 29. mars síðastliðinn. Til liðs við okkur til að fagna áfanganum fengum við Reykjavíkurráðherrana okkar tvo þau Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðlaug Þór Þórðarson. Í upphafi fundar lék aftur fyrir okkur á píanó Hjörtur Ingvi við mikla lukku. Guðlaugur Þór flutti hátíðarávarp og fór yfir upphaf og sögu Óðins og gerði því afar góð skil. Hann fór yfir mikilvægi samstöðu og blés fólki byr í brjóst. Áslaug Arna hélt stórgóða gagnvirka vinnustofu með fundargestum. Við skiptum okkur á borð og svöruðum ákveðnum spurningum. Þetta var einstaklega skemmtilegt og upplýsandi og áhrifarík leið til að þjappa fólki saman og sýna samstöðu í verki. Eftir fundinn var boðið uppá veitingar í boði Ölgerðarinnar.
Fjórði fundur félagsins var svo haldinn í september í samstarfi við Vörð, fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Gestur fundarins var nýráðinn framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins Sigríður Margrét Oddsdóttir og fór hún yfir áskoranir vetrarins innan SA og í samfélaginu öllu. Sérstaklega tók hún fyrir verðbólguna sem er ein helsta áskorun efnahagsstjórnunar landsins.
Í október fórum við ásamt gestum í heimsókn á þingið. Þar tóku vel á móti okkur þingkonurnar Hildur Sverrisdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir ásamt forseta þingsins Birgi Ármannssyni. Þetta var sérlega ánægjuleg heimsókn og farið vel yfir sögu lands og þings. Eftir stofugang settumst við niður við veitingar og tókum gott spjall með þingkonunum okkar öflugu.
Á nýju ári hyggst Óðinn halda áfram að taka fyrir málefni sem brenna á sjálfstæðisfólki og samfélaginu öllu. Dagskráin verður auglýst í upphafi nýs árs og svo lokum við okkar ári í febrúar með aðalfundi félagsins.
Við í stjórn Óðins erum afskaplega ánægð og þakklát eftir árið og hlökkum til framhaldsins. Við ætlum nú að taka gott jólafrí í fundarhöldum og safna kröftum í faðmi vina og vandamanna fyrir nýtt ár en þá tökum við upp þráðinn á ný.
Fljótlega munum við svo senda smáræðis félagsgjaldarukkun. Ef einhverjir hafa tök á að leggja til félagsins þá væri það afar vel þegið til að byggja frekar undir málefna og félagsstarf innan okkar góða flokks. Margt smátt gerir eitt stórt.
Um leið og við þökkum öllum fyrir komuna á fundi í vetur óskum við ykkur gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.
Takk fyrir okkur.
Hlýjar kveðjur
f.h. stjórnar Óðins,
Birna Hafstein formaður.