„Ég fagna þessari sýn sem er í takt við stefnu annarra norrænna landa og gefur okkur tækifæri til að standa okkur mun betur í því að veita öfluga heilbrigðisþjónustu til almennings hér á landi,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir varaþingmaður sem situr í dag á Alþingi fram að áramótum vegna svars heilbrigðisráðherra við fyrirspurn hennar um liðskiptaaðgerðir.
Í svari ráðherra segir m.a.: „Samningagerð við sjálfstætt starfandi heilbrigðisfyrirtæki um tiltekna þjónustu sem veitt er í opinbera kerfinu er hluti af þeirri þróun að tryggja rétta þjónustu á réttum stað. Með samningum tryggjum við aðgengi að tímalegu og jöfnu aðgengi að heilbrigðisþjónustu og þeir gera okkur betur kleift að skipuleggja heilbrigðisþjónustuna í landinu heildstætt.“
Þar segir einnig varðandi þann lið í fyrirspurn Berglindar Hörpu um hvort ráðherra finndist að gera ætti samninga til einkaaðila til framtíðar: „Árið 2023 var veitt fjármagn til samningagerðar við sjálfstætt starfandi þjónustuaðila um liðskiptaaðgerðir sem hefðu það markmið að stytta bið eftir aðgerð og létta á biðlistum sjúkrahúsa eftir liðskiptaaðgerðum. Sú viðbót hefur sýnt að með henni eigum við nú möguleika á að ná markmiðum um æskilegan aðgerðafjölda fyrir landið allt,“
Um 2.000 manns á biðlista
Um 2.000 manns eru á biðlista eftir liðskiptaaðgerði. Kostnaður við liðskiptaaðgerðir er nokkuð lægri hjá einkareknum heilbrigðisfyrirtækjum en á Landspítala. Verðmunurinn á hverri aðgerð hleypur á bilinu 700-845 þúsund. Það er því hagkvæmara að nýta einkaframtakið og jafnframt styttir það biðlistana.
Í svari ráðherrans kemur fram að ríkið greiði rúmlega 1,9 milljónir fyrir liðskiptaaðgerð á mjöðm og tæplega 2 milljónir fyrir liðskiptaaðgerð á hné á Landspítalanum. Fyrir aðgerð á Klínikinni eru greiddar rétt rúmlega 1,2 milljónir fyrir aðgerð, hvort sem það er á mjöðm eða á hné. Í Orkuhúsinu eru sömuleiðis greiddar 1,2 milljónir og tæplega 1,1 milljón hjá Cosan.
Fram kemur að verðlagning byggist á niðurstöðu útboðs frá því í mars sem var undanfari samninga við þjónustuveitendur vegna liðskiptaaðgerða á yfirstandandi ári.
Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu.
Í viðtali við Morgunblaðið segir Berglind Harpa að tölurnar komi sér ekki á óvart. Hún telji einboðið að gera eigi samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki um veitingu annarrar heilbrigðisþjónustu.
„Ég er ánægð með þessi svör því þau sýna hversu mikilvægt það er að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki,“ segir hún. Þá segir hún óásættanlegt hve langir biðlistar eru fyrir hina ýmsu heilbrigðisþjónustu hérlendis.
„Það á ekki að líðast að við séum með þúsundir manna á biðlistum árum saman þegar við erum með öflug heilbrigðisfyrirtæki á einkamarkaði sem hægt er að semja við, og vinna þannig á listunum,“ segir hún og einnig: „Ríkið eitt getur ekki staðið undir öflugri heilbrigðisþjónustu. Við erum eina Norðurlandaþjóðin sem þráast við að gera samninga við einkarekin heilbrigðisfyrirtæki.“
Svar ráðherra má finna hér.