Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík bar upp tillögu um hagræðingu í málefnum upplýsingafulltrúa Reykjavíkurborgar í seinni umræðu um fjárhagsáætlun í borgarstjórn í vikunni.
Tillagan laut að því að leggja niður skrifstofu samskiptateymis borgarinnar og ná niður kostnaði og hagræða um 130 milljónir árlega. Í tillögunni var tiltekið að sautján upplýsingafulltrúar ynnu hjá borginni sem gæfu út efni fyrir Reykjavíkurborg.
„Allur þessi fjöldi er á pari við stóra fréttastofu og maður spyr sig hvort þörf sé á því að Reykjavíkurborg haldi úti rekstri ritstjórnarskrifstofu og hvert sé markmiðið með þeirri starfsemi þegar hægt væri að útvista þessum rekstri með töluvert minni kostnaði. Rekstur ritstjórnarskrifstofu er ekki hluti af grunnþjónustu né lögbundinni þjónustu þannig að hér er augljóslega hægt að hagræða,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi m.a. í ræðu sinni.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar segir þessar upplýsingar ekki réttar, ekki starfi 17 upplýsingafulltrúar heldur tíu. Auk þessara tíu upplýsingafulltrúa væru hins vegar sex starfsmenn hjá samskiptateymi Ráðhússins sem ekki væri rétt að nefna upplýsingafulltrúa heldur væru verkefnastjórar viðburða, ljósmyndari, vefstjóri, einn sem sinnir efnisgerð og einn sem sinnir myndbandsgerð til fræðslu.
„Þetta svar borgarinnar er ekkert annað en yfirklór. Samkvæmt því eru ekki sautján upplýsingafulltrúar sem starfa hjá Reykjavíkurborg heldur tíu plús sex sem starfa við upplýsingamiðlun. Ég fæ ekki séð hverju þetta breytir í stóra samhenginu – til hægðarauka var talað um upplýsingafulltrúa en ég tel að borgarbúar geri ekki greinarmun á upplýsingafulltrúa eða aðilum sem starfa við upplýsingamiðlun. Kjarni málsins er þessi: það starfa 17 manns við upplýsingamiðlun í borgarkerfinu og þá eru ekki taldir með upplýsingafulltrúar hjá fyrirtækjum borgarinnar eins og t.d. upplýsingafulltrúar Orkuveitunnar. Þessum 17 upplýsingafulltrúum fækkar ekki auk þess sem kostnaðurinn minnkar ekki við það að borgaryfirvöld ákveði að skilgreina starf þeirra á annan hátt,“ sagði Marta.