Helgi Áss Grétarsson, 1. varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Verslun Garðheima var um langt skeið í N-Mjódd (að Stekkjarbakka 6). Vegna fyrirhugaðrar húsnæðisuppbyggingar á því svæði gat verslunin ekki haldið áfram þar. Eftir nokkuð langt og flókið ferli varð niðurstaðan sú að verslunarreksturinn gat haldið áfram í S-Mjódd (að Álfabakka 6). Verslunin var formlega opnuð helgina 4.-5. nóvember sl. og var vel mætt á opnunarhátíðina. Fleiri verslanir og önnur atvinnufyrirtæki eiga eftir að slást með í hópinn í S-Mjódd.
Undanfarnar vikur og mánuðir hafa ófáir haft áhyggjur af aðkomunni að hinni nýju verslun Garðheima. Umfjöllun fjölmiðla, m.a. Morgunblaðsins, um þetta hefur verið töluverð. Sem dæmi er augljóst að um nokkuð langt skeið var hornið á fráreininni frá Reykjanesbrautinni inn á Álfabakkan sérlega viðsjárvert. Breiður hjólastígur meðfram Álfabakkanum hefur einnig verið illa merktur og ýmsar framkvæmdir standa enn yfir á svæðinu. Slysahætta meðfram þessum hluta Álfabakkans hefur verið of mikil.
Í ljósi þessarar stöðu lagði undirritaður fram tillögu á fundi íbúaráðs Breiðholts á fundi þess 8. nóvember sl. að ráðið myndi beina því til umhverfis- og skipulagsráðs að umferð að „nýopnuðum Garðheimum [yrði] gerð greiðari og öruggari“. Töluverð umræða spannst um tillöguna á fundi íbúaráðsins og voru þær gagnlegar. Svo sem við mátti búast var tillagan ekki samþykkt en ráðið bókaði í þá veru að þar til bær sérfræðingur, frá umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar, myndi koma á fund ráðsins og „kynna uppbyggingu atvinnuhúsnæðis í Suður-Mjódd og hvernig fyrirhugað er að stýra umferð á svæðinu og tryggja umferðaröryggi fyrir alla vegfarendur, bæði til skemmri og lengri tíma“.
Fyllsta ástæða er fyrir alla þá sem eiga hagsmuni í S-Mjódd að heppilegu skipulagi verði komið á í því skyni að tryggja öryggi allra vegfarenda. Leysa þarf úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem komið hafa upp á svæðinu en eftir því sem rekstraraðilum fjölgar, þarf að breyta umferðarmannvirkjum til lengri tíma svo að umferð á svæðinu geti gengið í senn greiðlega og örugglega.
Greinin birtist í Breiðholtsblaðinu í nóvember 2023