Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra sem einnig fer með embætti varnarmálaráðherra átti tvíhliða fund í síðustu viku í Stokkhólmi með Pål Jonson varnarmálaráðherra Svíþjóðar sem fer með formennsku í norræna varnarsamstarfinu (NORDEFCO). Fundur ráðherranna fór fram í tengslum við tveggja daga fund varnarmálaráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
Á fundi Bjarna með varnarmálaráðherra Svíþjóðar var rætt um samstarf ríkjanna, þróun öryggismála og stöðu aðildarumsóknar Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu (NATO).
Á ráðherrafundinum voru þróun öryggismála, aukinn varnarbúnaður og stuðningur við Úkraínu helstu áherslumál.
Í frétt á vef utanríkisráðuneytisins segir að fyrri daginn hafi farið fram fundir norrænu ráðherranna þar sem rætt var um ört vaxandi samstarf ríkjanna í öryggis- og varnarmálum sem styrkist enn frekar með inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO.
„Markvisst hefur verið unnið að því að tengja ríkin betur saman með æfingum og áætlanagerð sem miðar að því að auka viðbúnað og samhæfingu. Ísland tekur virkan þátt í vinnunni og hóf sömuleiðis fulla þátttöku í hermálahlið norræna varnarsamstarfsins í lok síðasta árs,“ segir í fréttinni.
Stóraukið samstarf mikið fagnaðarefni
„Stóraukið samstarf Norðurlandanna í varnarmálum síðustu misseri er mikið fagnaðarefni enda deilum við bæði áherslum og sameiginlegum hagsmunum á svæðinu. Aðild Finnlands, og von bráðar Svíþjóðar, að Atlantshafsbandalaginu styrkir stöðu bandalagsins og eflir öryggi íbúa Norðurlandanna enn frekar. Á fundi mínum með Pål Jonson ítrekaði ég ótvíræðan stuðning Íslands við aðild Svíþjóðar sem ég bind vonir við að verði að veruleika mjög fljótlega,” er haft eftir Bjarna í fréttinni.
Einnig fór fram sameiginlegur fundur varnarmálaráðherra Eystrasaltsríkja og Norðurlanda þar sem áherslan var öryggismál í Norður-Evrópu og í Eystrasalti.
Þá segir að til hliðar við við ráðherrafundina hafi ráðherrarnir tekið þátt í fjarfundi ríkjahóps sem styður varnir Úkraínu. Utanríkisráðherra hafi við það tilefni tilkynnt að búið sé að afhenda Úkraínu færanlegt neyðarsjúkrahús og að Íslands hyggist taka þátt í verkefnum er snúa að stuðningi við netöryggi og sprengjueyðingu þar í landi.
Sjá nánar hér.