Hvar eru arftakarnir?

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

„Mér varð vissu­lega orða vant, þegar ég heyrði hina hrylli­legu og hörmu­legu fregn um morð Kenn­e­dys Banda­ríkja­for­seta, glæsi­menn­is í blóma lífs­ins, æðsta manns mesta stór­veld­is heims og leiðtoga allra frjálsra þjóða,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra í út­varps­ávarpi 22. nóv­em­ber 1963. Í dag er þess minnst að 60 ár eru frá því að John F. Kenn­e­dy var myrt­ur, þá 46 ára gam­all.

Þótt Kenn­e­dy hafi aðeins verið for­seti í tæp þrjú ár markaði hann spor í sögu eig­in þjóðar og alls heims­ins. Í nokkru er arf­leifð hans þversagna­kennd. Saga Kenn­e­dy-fjöl­skyld­unn­ar er allt í senn saga auðs og valda, gjörvi­leika og óham­ingju.

Kenn­e­dy var og hef­ur aldrei verið óum­deild­ur. En þrátt fyr­ir allt er hann í hópi þeirra for­seta sem Banda­ríkja­menn kunna hvað best að meta; Geor­ge Washingt­on, Thom­as Jef­fer­son, Abra­ham Lincoln, Frank­lin D. Roosevelt og Ronald Reag­an.

Morg­un­blaðið minn­ist Kenn­e­dys í leiðara dag­inn eft­ir og sagði meðal ann­ars:

„Hinn ungi Banda­ríkja­for­seti, sem nú er fall­inn, var frjáls­lynd­ur og þrek­mik­ill maður. Í inn­an­lands­stjórn­mál­um þjóðar sinn­ar barðist hann af eld­leg­um áhuga fyr­ir aukn­um trygg­ing­um, fyr­ir auknu fé­lags­legu ör­yggi, og á alþjóðavett­vangi var hann öt­ul­asti for­víg­ismaður drengi­legr­ar og heiðarlegr­ar sam­vinnu þjóða í milli. Hann var harður and­stæðing­ur hvers kon­ar ein­angr­un­ar­stefnu og gerði sér ljóst, að ör­lög mann­kyns­ins eru í dag sam­eig­in­leg, að þjóðir þess eru í raun og sann­leika all­ar í sama báti.“

Meist­ar­ar orðs og hug­sjóna

Kenn­e­dy var demó­krati og harður and-komm­ún­isti sem áttaði sig á skyld­um Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna. Hann var sann­færður um nauðsyn sam­vinnu lýðræðisþjóða í bar­áttu gegn alræðisöfl­um sem ógnuðu frelsi þjóða.

„Lát­um all­ar þjóðir vita, hvort sem þær óska okk­ur góðs eða ills, að við erum reiðubú­in til að greiða hvað sem er, bera all­ar þær byrðar, mæta öll­um þraut­um, styðja alla okk­ar vini, standa gegn öll­um óvin­um, til að tryggja að frelsið lifi og dafni,“ sagði Kenn­e­dy í inn­setn­ing­ar­ræðu sinni 20. janú­ar 1961. Demó­krat­inn Joe Biden Banda­ríkja­for­seti er of veik­b­urða til að tala á þess­um nót­um með sundraðan flokk sér að baki sem er þjakaður af póli­tískri rétt­hugs­un og sósí­al­isma. Lýðhyggja kem­ur í veg fyr­ir að Don­ald Trump taki und­ir orð Kenn­e­dys. Hann mis­skil­ur hvað Kenn­e­dy átti við þegar hann und­ir­strikaði að Banda­ríkja­menn ættu aldrei að semja af hræðslu en þeir ættu aldrei að hræðast að semja.

„Ef fleiri stjórn­mála­menn þekktu ljóð og fleiri skáld þekktu stjórn­mál, þá er ég sann­færður um að heim­ur­inn væri aðeins betri staður,“ sagði Kenn­e­dy í ræðu við Har­vard-há­skól­ann 1956, þá 39 ára gam­all. Gaml­ir menn um átt­rætt, sem lík­lega berj­ast um for­seta­embætti á nýju ári, eru annaðhvort of sljó­ir eða of hat­ramm­ir, til að átta sig á merk­ingu orðanna.

Kenn­e­dy var full­trúi nýrra tíma. Gaf ungu fólki um all­an heim von og bjart­ari sýn á framtíðina. Um tveim­ur ára­tug­um síðar reisti Reag­an sjálfs­mynd Banda­ríkj­anna við – byggði upp sjálfs­traust þjóðar eft­ir skip­brot Nixons og Cart­ers. Reag­an og Kenn­e­dy voru hvor með sín­um hætti meist­ar­ar orðsins – hug­sjóna­menn með skýra sýn á heim­inn. Varðmenn frels­is. Þrátt fyr­ir að vera ekki póli­tísk­ir sam­herj­ar skildu þeir vel sam­hengi skatta og efna­hags­legr­ar vel­sæld­ar. Demó­krat­ar sam­tím­ans skilja ekki frek­ar en ís­lensk­ir vinstri menn hvað Kenn­e­dy átti við í ræðu á fundi fé­lags hag­fræðinga í New York 1962: „Efna­hags­kerfi sem er þrúgað af háum skött­um mun aldrei skila nægi­leg­um tekj­um til að jafn­vægi ná­ist í rík­is­fjár­mál­um, al­veg eins og það mun aldrei búa til nægi­leg­an hag­vöxt eða nægi­lega mörg störf.“

Kenn­e­dy og Reag­an beittu sér báðir fyr­ir skatta­lækk­un­um.

Nær­mynd hug­rekk­is

Traust­ur sjálf­stæðismaður færði mér góða bók að gjöf þegar ég stóð á nokkr­um tíma­mót­um í stjórn­mál­um fyr­ir nokkru; Nær­mynd­ir hug­rekk­is („Profi­les in Coura­ge“) eft­ir John F. Kenn­e­dy. Bók­in kom út árið 1956. Þar dreg­ur Kenn­e­dy upp nær­mynd­ir af stjórn­mála­mönn­um sem hann dáðist að vegna stefnu­festu þeirra og póli­tísks hug­rekk­is, and­spæn­is kjós­end­um, viðtekn­um skoðunum og póli­tísk­um þrýsti­hóp­um.

Þótt 67 ár séu síðan bók­in kom fyrst út á hún ekki minna er­indi til sam­tím­ans en í upp­hafi. Í and­rúms­lofti slauf­un­ar, póli­tískr­ar rétt­hugs­un­ar og sundr­ung­ar, er það meiri áskor­un en áður að sýna póli­tískt hug­rekki. Standa og falla með eig­in skoðunum. Kenn­e­dy hélt því fram að stjórn­mál­in væru orðin vél­vædd og stjórnað af at­vinnu­stjórn­mála­mönn­um og al­manna­tengsl­um. Hver og einn yrði hins veg­ar að ákveða hvernig hann starfar sem kjör­inn full­trúi. Aðeins sá sem fylg­ir sam­visku sinni, óháð þeim fórn­um sem því fylgja, sýn­ir póli­tískt hug­rekki.

„Hver maður ger­ir skyldu sína – þótt að hon­um steðji per­sónu­leg­ir erfiðleik­ar, hætt­ur og ögr­an­ir – og það er und­ir­staða alls mann­legs siðgæðis.“ Þannig lýsti John F. Kenn­e­dy lífsviðhorfi sínu – sýn á bar­áttu fyr­ir hug­sjón­um og sann­fær­ingu um stjórn­málastarf sem mætti ekki stjórn­ast af eig­in­girni eða smán­un sam­ferðamanna. Þótt Kenn­e­dy hafi langt í frá verið galla­laus og á stund­um átt erfitt með að lifa eft­ir eig­in forskrift, er ég sann­færður um að stjórn­mál sam­tím­ans í Banda­ríkj­un­um (og víðar á Vest­ur­lönd­um) myndu vekja hjá hon­um óhug. En hann hefði, líkt og hann gerði í ræðu við Loyola-há­skól­ann í Baltimore 1958, hvatt okk­ur til að ör­vænta ekki held­ur bregðast við og und­ir­gang­ast eig­in ábyrgð á framtíðinni.

Er nema von að spurt sé: Hvar eru arf­tak­ar Kenn­e­dys, Reag­ans og Lincolns? Hvar eru stjórn­mála­menn­irn­ir sem berj­ast fyr­ir hug­sjón­um? Hvar eru stjórn­mála­menn­irn­ir sem hafna smán­un, slauf­un, árás­argirni og lýðhyggju? Hvar eru kjós­end­ur sem vilja for­seta með skýra framtíðar­sýn – sem sam­ein­ar í stað þess að sundra? Hvers vegna á 340 millj­óna þjóð ekki aðra og betri val­kosti en Joe Biden og Don­ald Trump?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. nóvember 2023.