Efnahagsstefna Sjálfstæðisflokksins skilar hækkandi lánshæfiseinkunn í A+
'}}

Alþjóðlega matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands í A+ úr A. Horfur fyrir einkunnina eru stöðugar. Þetta kemur fram í frétt á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins - sjá hér.

Þar segir að hækkun lánshæfiseinkunninnar endurspegli áframhaldandi sterkan hagvöxt. Matsfyrirtækið spáir 3,8% hagvexti árið 2023 sem er meiri vöxtur en í öðrum Evrópuríkjum sem það gefur lánshæfiseinkunn.

Umsvif ferðaþjónustu eru nú orðin meiri en árið 2019 á flesta mælikvarða, en greinin stendur að baki um 30% útflutnings. S&P gerir ráð fyrir því að innlend eftirspurn muni taka við sem drifkraftur hagvaxtar árið 2024, studd sterkri náttúrulegri fólksfjölgun og áframhaldandi vexti nýrra atvinnugreina, þar með talið líftækni, fiskeldi, upplýsingatækni og viðskiptaþjónustu. Matsfyrirtækið bendir einnig á að Ísland sé í sjálfu sér nægt um innlenda orkuþörf sem byggir fyrst og fremst á nýtingu vatnsorku og jarðvarma.

Gert er ráð fyrir að verðbólga verði um 8% að meðaltali á árinu 2023 og hreinar opinberar skuldir fari lækkandi en því er spáð að þær verði um 41% af vergri landsframleiðslu árið 2026 sem verði lækkun úr 46% í árslok 2023. Stefna ríkisstjórnarinnar um hraðan afturbata ríkisfjármála styðji ekki síst við peningastefnu Seðlabankans um að lækka verðbólgu.

Að mati S&P veita lítil erlend skuldsetning Íslands og sterkur gjaldeyrisforði frekari viðnámsþrótt. Sterk stofnanaumgjörð og skilvirk stefnumótun stjórnvalda styðja einnig við einkunnina.

Stöðugar horfur endurspegla það mat S&P að íslenska hagkerfið muni vaxa áfram á næstu tveimur árum á sama tíma og halli á rekstri hins opinbera og viðskiptajöfnuði verður hóflegur.

Þetta eru góðar fréttir fyrir Ísland og má sjá að samhliða eru lánshæfiseinkunnir íslenskra fyrirtækja jafnframt að hækka. Þannig hækkaði lánshæfismat Landsvirkjunar úr BBB+ í A- - sjá hér. Lánshæfismat Íslandsbanka var jafnframt staðfest BBB/A2 og er breytt úr stöðugum horfum í jákvæðar horfur - sjá hér.

Sú efnahagsstefna sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið á Íslandi síðasta rúma áratuginn er að skila sér og og lánshæfismat S&P sýnir að áherslur ríkisstjórnarinnar eru strax að skila árangri fyrir allt þjóðarbúið.