Í vikunni var tæplega tvö hundruð Venesúelamönnum sem áður hafði verið synjað um alþjóðlega vernd flogið til baka til Venesúela. Fólkið fór sjálfviljugt af landi brott með aðstoð íslenska ríkisins í samræmi við ákvæði útlendingalaga.
Brottflutningarnir byggja á ákvörðun úrskurðar kærunefndar útlendingamála frá því í september um að Útlendingastofnun sé heimilt að synja fólki frá Venesúela um alþjóðlega vernd hér á landi. Nefndin sneri þar með við fyrri afstöðu um að ríkisborgurum frá Venesúela skyldi veitt sérstök viðbótarvernd. Í úrskurðinum segir að ástandið í Venesúela fari batnandi og að aðstæður þar í landi séu ekki slíkar að þær réttlæti að allir sem komi þaðan eigi í hættu að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagði í samtali við mbl.is í september sl. í kjölfar úrskurðarins að við gætum verið að horfa á eina umfangsmestu fólksflutninga síðari ára.
„Ef þú horfir til annarra Evrópuríkja hafa þau ekki verið að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd. Þetta hafa verið fáar umsóknir samanborið við þann umsóknarfjölda sem hefur komið komið til Íslands,” sagði hún í sama viðtali.
Talið er að úrskurður kærunefndarinnar frá í september geti þýtt að allt að 1.500 manns frá Venesúela fái synjun og þurfi að yfirgefa landið.