„Maður eiginlega veit ekki hvernig manni líður. Finnur ekki mikið af tilfinningum. Er svona í einhverju losti eða áfalli bara, þannig að maður er ekki svangur, ekki þreyttur eða neitt slíkt. Helstu tilfinningarnar sem maður finnur kannski er öll þessi hugulsemi og aðstoð og allur þessi stuðningur sem við fáum. Hann skiptir miklu máli í þessum aðstæðum,“ sagði Vilhjálmur Árnason ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem rætt var um málefni Grindavíkur, en Vilhjálmur og fjölskylda hans eru búsett þar.
Hann segir stjórnvöld stunda virka hlustun og að allt verði gert til að svara Grindvíkingum með framhaldið. Hann segir Grindvíkinga enn vera að átta sig á þeim aðstæðum sem upp eru komnar og að óvissan sé mikil.
Hann segir að hugurinn breytist frá klukkustund til klukkustundar. Eina stundina komi upp vangaveltur um hvar fjölskyldan muni búa í vetur og aðra stundina vangaveltur um hvenær þau komist heim til sín að sækja dótið sitt. Eins vangaveltur um hvort þau séu að fara að borga afborganir af húsinu, mánaðarlegar áskriftir, heita vatnið og kalda vatnið sem ekki sé á húsinu sem stendur.
„Svo bara er maður farinn að hugsa eitthvað annað og hvernig verður með skólann hjá strákunum og íþróttirnar. Svo bara sefur maður laust og svo vaknar maður um nótt og þá er maður farinn að hugsa: Hvernig verður veturinn? Hver er nýja rútína fjölskyldunnar?“ segir Vilhjálmur.
Hann segir syni sína þrjá vera hjá afa sínum og ömmu í Skagafirði. Þeir fylgist vel með stöðu mála í Grindavík og spyrji spurninga sem ekki sé öllum auðsvarað.
Hann segir þetta það sem allar fjölskyldur í Grindavík séu að glíma við núna.
„Það veit enginn hvað næsti klukkutími ber í skauti sér, hvað þá morgundagurinn. Það er svolítið það sem ég tel mikilvægast núna að við getum farið að fá vissu nokkra mánuði fram í tímann og byggja upp einhvern fastan punkt,“ segir hann.
Vilhjálmur segist stefna að því að finna varanlegt afdrep fyrir fjölskylduna á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja sonum sínum festu. Þá segir hann að jafnvel þó atburðarásin stöðvist fljótlega þá efist hann um að þau fari með strákana alveg strax aftur til Grindavíkur. Það verði að leyfa þeim að klára íþrótta- og skólaveturinn á einum stað. Það verði að horfast í augu við að þetta sé fimmti atburðurinn á fjórum árum og að hann vilji aðeins sjá hvernig þróast áður en þau flytji aftur heim ef opnast á þann möguleika.
Vill byggja á fyrri fordæmum
Spurður að því hvað hann vilji sjá gert fyrir Grindvíkinga sem nú standi jafnvel frammi fyrir því að eiga verðlausar veðsettar eignir segir hann að það þurfi að bæta fyrir það með einhverjum hætti.
„Við höfum einhver fordæmi fyrir því og nú er í verkfærakistunni fullt frá Covid. Svo hafa komið hörmulegir atburðir hér á landi út af náttúruhamförum áður. Þannig að það þarf að læra af því og nýta þau tól.“ Segir hann og bendir á að aleiga fólks sé í Grindavík sem fólk sé búið að vera að byggja upp og nú sé algjör forsendubrestur þar á.
Hann segir mikið áfall fyrir fólk að þurfa svo að koma inn á leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu og inn á fasteignamarkaðinn. Lóðir í Grindavík kosti ekki krónu. Þá séu gatnagerðargjöld þar einnig mjög lág.
„Þannig að við erum að koma svolítið úr öðruvísi umhverfi og maður sér þetta bara hrúgast inn núna, beiðnir frá fjölskyldum um leiguhúsnæði,“ segir hann.
Vinna að lausnum hafin
Vilhjálmur segir að miðstöð fyrir Grindvíkinga verði opnuð í Tollhúsinu í dag. Þar geti fólk komið saman og rætt sínar áhyggjur og fengið upplýsingar.
„Ég veit að samtal er byrjað við fjármálafyrirtækin og svo erum við að vinna með Náttúruhamfarartryggingarsjóð og svo geta stjórnvöld alltaf komið með önnur úrræði sem eru í skoðun,“ segir hann.
„Það er kominn húsnæðishópur sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er í, meðal annars, þannig að kannski er hægt að búa til einhverskonar hlutdeildarlánarútfærslu, eða einhvern leigustyrk á meðan hitt er og fá einhverjar bætur fyrir verðfall á eignum og annað slíkt. Það er margt til í þessu en ég er ekki alveg inn í nýjustu útfærslunum,“ segir hann.
Vilhjálmur segist vilja sjá það gerast hratt að bæjarbúar fái svör um hvað gerist næst. Flestir séu komnir í skammtímahúsnæði en að það sé nauðsynlegt að íbúar fái svör svo þeir geti skuldbundið sig í leigu til einhvers tíma og fái festu. Svo íbúar séu ekki að hafa áhyggjur af leigugreiðslum annars vegar og af afborgunum af húsnæði í Grindavík hins vegar.
„Og ef að afborgunum er frestað og það eru einhvers konar vextir á því þá étur það náttúrulega upp þetta eigið fé í húsinu okkar sem er nú þegar búið að rýrna. Það þarf enginn að segja mér það að fasteignaverðið í Grindavík sé það sama eftir þessa atburði,“ segir Vilhjálmur.
Tryggja þurfi fólki nýjan griðarstað
Hann segir að húsnæðimálin og öryggið haldist í hendur við andlega heilsu Grindvíkinga. Stærsta verkefnið sé að huga að andlegu hliðinni. Tryggja þurfi fólki nýjan griðarstað.
„Af því að það er búið að taka griðastaðinn af okkur, heimilið okkar. Þá verður að vinna sem fyrst þannig að við getum búið okkur til nýjan griðastað á meðan þetta gengur yfir, til þess að hlúa að sálinni. Örugglega fleiri en Vestmannaeyingar upplifa endurminningar af sínum nátturuhamförum. Þannig að ég held að það sé svolítið stóra verkefnið núna,“ segir hann.