Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Reykjavíkurborg verður rekin með miklu tapi á árinu 2023 og munu skuldir samstæðunnar nema um 490 milljörðum króna um komandi áramót. Reksturinn er ekki sjálfbær og stendur borgin frammi fyrir miklum skuldavanda. Samt hyggst meirihluti borgarstjórnar halda áfram að safna skuldum og er áætlað að þær verði orðnar 515 milljarðar króna í árslok 2024.
Þetta kemur fram í frumvarpi að fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir komandi ár, sem lagt var fram í borgarstjórn sl. þriðjudag. Frumvarpið sýnir að meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hefur engin tök á fjármálum borgarinnar. Ljóst er að sú aðgerðaáætlun í fjármálum, sem meirihlutinn kynnti í árslok 2023, hefur skilað litlum sem engum árangri.
Gífurleg skuldaaukning
Samkvæmt frumvarpinu mun samstæða Reykjavíkurborgar auka skuldir sínar um 69 milljarða króna á tveimur árum, 2023-2024. Skuldir borgarinnar munu aukast um 44 milljarða króna í ár samkvæmt útkomuspá og 25 milljarða á næsta ári.
Sex milljarða króna tap átti að vera á borgarsjóði á árinu 2023 samkvæmt samþykktri fjárhagsáætlun. Tapið mun nema tæplega fimm milljörðum króna á árinu samkvæmt útkomuspá. Borgarsjóður á hins vegar að skila um 600 milljóna króna afgangi á árinu 2024. Það er sýnd veiði en ekki gefin eins og fyrri áætlanir borgarinnar í fjármálum bera með sér.
12,5 milljarða króna frávik
Átta milljarða króna afgangur átti að vera á rekstri samstæðu Reykjavíkurborgar árið 2023 samkvæmt áætlun. Tapið verður hins vegar um 4,4 milljarðar samkvæmt útkomuspá. Frávikið nemur um 12,5 milljörðum króna.
Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun á borgarsamstæðan að skila tæplega átta milljarða króna afgangi á næsta ári. Er það svipuð upphæð og hún átti að skila á þessu ári en það brást eins og fyrr segir.
Stór liður í fjárhagsáætlun borgarinnar er svonefnd „matsbreyting fjárfestingareigna“. Félagslegar íbúðir borgarinnar eru endurmetnar og aukið verðmæti þeirra bókað sem hagnaður í bækur borgarinnar. Þessi matsbreyting á að skila rúmlega þriggja milljarða króna bókhaldshagnaði á yfirstandandi ári og fimm milljarða hagnaði á árinu 2024. Þetta er froðuhagnaður, sem skapar í raun engar tekjur fyrir borgina og fegrar því stöðu áætlana hennar og reikninga sem því nemur. Ef þessarar breytingar nyti ekki við hefði tap samstæðunnar orðið mun meira á yfirstandandi ári.
Skuldirnar yfir 500 milljarða
Skuldir samstæðu borgarinnar munu nema um 490 milljörðum króna um næstu áramót. Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun munu skuldirnar halda áfram að hækka og verða rúmlega 515 milljarðar króna í árslok 2024.
Borgarsjóður mun skulda 199 milljarða króna um næstu áramót samkvæmt útkomuspá. Samkvæmt frumvarpi að fjárhagsáætlun munu skuldirnar hækka áfram á næsta ári og verða komnar í 208 milljarða króna í árslok 2024.
Aukin skuldsetning einkennir því fjármálastefnu vinstri meirihlutans í borgarstjórn. Ef haldið verður áfram að auka skuldir Reykjavíkurborgar um tugi milljarða á ári, stefnir borgin í greiðsluþrot innan nokkurra ára.
Sem fyrr eru borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins reiðubúnir til samvinnu við meirihlutann um raunverulegar aðgerðir í því skyni að ná stjórn á fjármálum borgarinnar og láta af taprekstri. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu.