Ert þetta örugglega þú?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Ný­lega fóru fram kosn­ing­ar í Slóvakíu og hörð kosn­inga­bar­átta. Meðal þess sem fór á kreik á sam­fé­lags­miðlum var hljóðupp­taka af stjórn­mála­manni sem heyrðist leggja á ráðin um kosn­inga­s­vindl. Í aðdrag­anda lands­fund­ar Verka­manna­flokks­ins í Bretlandi kom upp svipað til­vik þar sem hljóðupp­taka af Keir Star­mer flokks­for­manni komst í dreif­ingu. Á upp­tök­unni heyrðist formaður­inn hella sér yfir und­ir­menn sína og fara ákaf­lega ófögr­um orðum um Li­verpool-borg, vett­vang fund­ar­ins.

Báðar þess­ar upp­tök­ur fengu um­tals­verða dreif­ingu áður en í ljós kom að þær voru falsaðar. Ómögu­legt er að segja hvort all­ir þeir sem urðu fyrst fyr­ir hug­hrif­um eða hneyksluðust á sviknu upp­tök­un­um hafi síðar fengið þær upp­lýs­ing­ar að um föls­un hafi verið að ræða. Eins er ómögu­legt að vita hvort ein­hvers kon­ar vanþókn­un á fram­ferði stjórn­mála­mann­anna sitji eft­ir í huga þeirra sem til heyrðu, jafn­vel þótt búið sé að meðtaka upp­lýs­ing­arn­ar um að þeir hafi sjálf­ir ekki átt minnsta þátt í því sem fór fram á upp­tök­un­um. Það sem maður hef­ur einu sinni séð eða heyrt er erfitt að afmá með öllu, einkum ef það vek­ur sterk­ar til­finn­ing­ar.

Fyrsta viðvör­un­ar­merkið

Fyr­ir mörg okk­ar var lík­lega fyrsta viðvör­un­ar­merkið um getu gervi­greind­ar til blekk­inga tölvu­teiknuð mynd af Frans páfa íklædd­um hvítri dúnúlpu af dýr­ustu gerð. Mynd­in fór eins og eld­ur í sinu um heims­byggðina, enda leit páfinn sér­lega reffi­lega út þótt svo óhemju­dýr smekk­ur á yf­ir­höfn þætti ef­laust ekki passa vel við áhersl­ur hans á hlut­skipti þeirra fá­tæku. Mynd­in var líka föls­un, sköpuð af gervi­greind. Þetta var um miðjan mars þegar Chat GPT 4 kom út. Þá varð mik­il umræða um stöðu gervi­greind­ar. Mörg­um var brugðið við að sjá hversu langt tækn­in væri þá þegar kom­in og undi­rituðu hundruð sér­fræðinga áskor­un um að frek­ari þróun gervi­greind­ar yrði um­svifa­laust stöðvuð. Þá hafa ýms­ir af þeim sem hafa átt hvað mest­an þátt í þróun gervi­greind­ar hingað til verið há­vær­ir í yf­ir­lýs­ing­um um að mann­kyn­inu stafi raun­veru­leg og grafal­var­leg hætta af stjórn­lausri þróun þess­ar­ar tækni.

Í vik­unni fór fram ráðstefna í Bretlandi þar sem rætt var um framtíð gervi­greind­ar. Þar und­ir­rituðu full­trú­ar 25 ríkja sam­eig­ini­lega yf­ir­lýs­ingu þar sem rætt var um þau tæki­færi sem geta fal­ist í henni fyr­ir mann­kynið, en þar var einnig að finna mjög al­var­leg viðvör­un­ar­orð, meðal ann­ars vegna getu gervi­greind­ar­inn­ar til þess að fram­leiða efni sem er nán­ast (eða al­gjör­lega) óþekkj­an­legt frá raun­veru­leik­an­um. Ris­hi Sunak for­sæt­is­ráðherra sagði í ávarpi sínu að gervi­greind­in fæli í sér hættu sem væri sam­bæri­leg við kjarn­orku­stríð.

Æsir og blekk­ir

Í skoðana­grein í dag­blaðinu The Times í þess­ari viku skrif­ar William Hague, fyrr­ver­andi formaður Íhalds­flokks­ins, að stærsta og nær­tæk­asta hætt­an sem staf­ar af gervi­greind­inni sé að með henni sé hægt að ýfa upp ill­deil­ur í sam­fé­lög­um og hrekja sí­fellt fleiri út á ystu jaðra öfganna. Ef ekki er gætt að því að setja upp varn­ir má auðveld­lega gera sér í hug­ar­lund að hægt sé að sníða gervi­greind þannig að hún dæli fölsuðu og sér­sniðnu efni til fólks í því skyni að æsa upp til­finn­ing­ar og blekkja fólk til þess að sjá hluti frá sí­fellt þrengra sjón­ar­horni. Með gervi­greind er hægt að skrifa fals­frétt­ir þannig að þær snerti sem allra mest við ein­stak­ling­um og spili á til­finn­ing­ar, for­dóma og veik­leika hvers og eins okk­ar. Við blas­ir að ekki er hægt að láta þessa þróun eiga sér stað án þess að ábyrg stjórn­völd taki sig sam­an um að koma í veg fyr­ir að upp­lif­un fólks af raun­veru­leik­an­um meng­ist svo af slík­um föls­un­um að ekki sé mögu­legt að taka upp­lýst­ar og þroskaðar ákv­arðanir.

Gervi­greind­in fel­ur vita­skuld í sér einnig marg­vís­leg lof­orð um ótrú­leg­ar fram­far­ir, til dæm­is á sviði heil­brigðismála. Gervi­greind nær framúrsk­ar­andi ár­angri við grein­ingu sjúk­dóma og von­ir eru um að með henni verði hægt að flýta mjög þróun lyfja sem munu gera krafta­verk. Ótelj­andi önn­ur gagn­leg not munu finn­ast fyr­ir gervi­greind en for­senda þess að hún verði mann­kyn­inu til heilla mun þó alltaf verða að hún lúti mennskri stjórn og ábyrgð; að fólk geti greini­lega séð hvort efni sé raun­veru­legt eða gervi; að henni séu sett tak­mörk þannig að hún nýt­ist í þágu mann­kyns og mann­legr­ar reisn­ar; og að gervi­heim­ur henn­ar verði ekki alls­ráðandi gagn­vart hinum ófull­komna og fal­lega raun­veru­leika sem er fyr­ir utan tölvu- og síma­skjá­ina sem heimta sí­fellt stærri hluta af at­hygli okk­ar og vit­und.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 5. nóvember 2023.