Skipulagsmál í Breiðholti

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Breiðholt er fjölmennasta íbúahverfi landsins með um 23 þúsund íbúa. Hverfið er eftirsótt til búsetu enda vel skipulagt og stutt í alla þjónustu. Í Breiðholti eru einnig góðir skólar, öflug íþróttafélög og blómleg félagsstarfsemi.

Þegar Breiðholtið var byggt, var það í útjaðri búsetu á höfuðborgarsvæðinu en þróunin hefur orðið sú að nú er það nálægt þungamiðju hennar.

Breiðholtið einkennist af nokkrum fastmótuðum íbúahverfum, sem afmarkast af opnum útivistarsvæðum. Hverfið er að hluta til umlukið Elliðaárdalnum, einni fegurstu náttúruperlu borgarinnar. Þessi útivistarsvæði eru vinsæl meðal Breiðhyltinga og ein helsta ástæða þess að margir þeirra vilja hvergi annars staðar búa.

Uppbygging í Norður-Mjódd

Lengi hefur verið litið svo á að Breiðholt sé því sem næst fullbyggt. Nokkur svæði eru þó til skoðunar í hverfinu þar sem talin eru tækifæri til frekari þéttingar byggðar. Rétt er að skoða slík tækifæri en leggja um leið ríka áherslu á samráð og sátt við íbúa. Almennt verður að gæta meðalhófs við þéttingu í grónum hverfum. Stefna borgarstjórnarmeirihlutans við þéttingu byggðar vekur hins vegar ugg um að í Norður-Mjódd verði höfuðáhersla lögð á mikla uppbyggingu og hámarksafrakstur af lóðasölu, frekar en að skapa þar fallegt og mannvænleg hverfi.

Samkvæmt skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á deiliskipulagi Norður-Mjóddar verður megináhersla lögð á mikla uppbyggingu á svæðinu og að hæð húsa verði þar fjórar til sjö hæðir. Ef slík uppbygging yrði að veruleika, myndi umferðarþungi aukast verulega en ekki kemur fram í áðurnefndri lýsingu hvernig þau mál verða leyst.

Ljóst er að hin nýja byggð í Norður-Mjódd mun hafa áhrif á hina lágreistu íbúabyggð, sem fyrir er á svæðinu, þ.e. í Bakka- og Stekkjahverfi. Mikilvægt er að uppbygging þar sé í góðum tengslum við núverandi hverfi og hugmyndafræði skipulags í Neðra-Breiðholti. Mikilvægt er að varðveita sérkenni hverfisins í stað þess að byggja háreista byggð í Mjódd sem yrði í algerri andstöðu við skipulag hverfisins.

Við skipulag þarf því að gæta þess að hin nýja byggð valdi sem minnstu skuggavarpi í Bakka- og Stekkjahverfi. Eðlilegt er því að miða við að hámarkshæð nýju byggðarinnar væri þrjár til fjórar hæðir til að lágmarka neikvæð áhrif, t.d. skuggavarp, á eldri byggð.

Verður gengið á Elliðaárdalinn?

Einnig eru uppi hugmyndir hjá borgaryfirvöldum um uppbyggingu á óbyggðu útivistarsvæði Fellahverfi, austan megin við Kötlufell, Möðrufell, Nönnufell og Keilufell. Ljóst er að með slíkri uppbyggingu yrði gengið á útivistarsvæði Breiðhyltinga í Elliðaárdal og mikinn trjágróður sem þar er.

Jafnframt má nefna hugmyndir um uppbyggingu við Suðurhóla og Rangársel, sem eru til skoðunar hjá borginni.

Mathöll í Mjódd

Göngugatan í Mjódd gegnir mikilvægu hlutverki í Breiðholti og væri æskilegt að festa verslun og aðra þjónustu þar frekar í sessi. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að skoðaður verði sá möguleiki að göngugatan verði tengd skiptistöð Strætó í Mjódd með sérstakri byggingu og að þar verði mathöll komið á fót í samstarfi við einkaaðila.

Fundur um skipulagsmál Breiðholts

Sjálfstæðisfélögin í Breiðholti halda opinn fund um skipulagsmál í dag, fimmtudaginn 2. nóvember 2023, kl. 16:30 að Álfabakka 14 a. Skipulagslýsing fyrirhugaðrar byggðar í Norður-Mjódd verður meginefni fundarins en líklegt er að önnur skipulagsmál Breiðholts beri þar einnig á góma. Allir eru velkomnir á fundinn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. nóvember 2023.