Blása þarf til sóknar í að auka áhuga fólks á minjum og koma á hvötum til að vernda þær, sem og að setja aukinn kraft í öflun og miðlun þekkingar og fjármögnun grunnrannsókna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu starfshóps, sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði til að greina stöðu minjaverndar og tækifæri til umbóta.
Skýrslan ber heitið Minjavernd - staða, áskoranir og tækifæri og í henni er að finna 49 tillögur til úrbóta, en umfang skýrslunnar takmarkast við þá hluta minjaverndar sem snúa að starfsemi Minjastofnunar Íslands.
„Skilaboðin eru skýr, það er verk að vinna og sannarlega margar áskoranir. Okkur liggur á að bjarga menningarminjum sem víða eru að hverfa en það eru líka mörg sóknarfæri fyrir minjavernd á Íslandi. Skýrslan er góður grunnur fyrir okkur til þess að vinna áfram með. Það er og verður forgangsmál hjá okkur að vinna áfram með þessar ábendingar og tillögur,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson.
Starfshópinn skipuðu þau Birgir Þórarinsson formaður hópsins, Arnhildur Pálmadóttir, Erna Hrönn Geirsdóttir, Orri Vésteinsson og Vilhelmína Jónsdóttir. Meðal lykiltillagna sem fram koma í skýrslunni er að þörf sé á að:
- Blása til sóknar í að auka áhuga fólks á minjum og koma á hvötum til að vernda þær
- Setja kraft í öflun og miðlun þekkingar
- Efla rannsóknir á sviði menningarminja og menningararfs
- Koma á grænum hvötum í tengslum við loftslagsmál og hringrásarhagkerfið í átt að breyttri nýtingu húsa
- Greina hvaða möguleikar eru til þess að styrkja fjárhagslegar stoðir minjaverndar
- Vernda merkar nýminjar í lögum
- Gera aðgerðaáætlun um hvernig vekja megi áhuga almennings á minjum
Kynntu þér efni skýrslunnar hér.