Nýsköpunarverðlaun Íslands 2023 voru veitt við hátíðlega athöfn á Nýsköpunarþingi 2023. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti verðlaunin en það var hugbúnaðarfyrirtækið PayAnalytics sem hlaut verðlaunin í ár. Fyrirtækið hefur þróað jafnlaunahugbúnað sem gerir launagreiðendum kleift að mæla launabil, loka launabilum og halda launabilum lokuðum.
,,Það var einstaklega vel við hæfi í þessari viku að Nýsköpunarverðlaunin fari til fyrirtækis sem berst fyrir jöfnum tækifærum og er með hugbúnað sem getur aukið jafnrétti um allan heim. Nýsköpun á Íslandi er svo fjölbreytt og byggir oft á styrkleikum okkar eins og jafnrétti þar sem við erum svo sannarlega frumkvöðlar,” sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og vísaði þar m.a. til kvennafrídagsins.