Frelsis-dropinn holar steininn

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Í sam­fé­lagi lýðræðis eru fáar skyld­ur lög­gjaf­ans meiri og mik­il­væg­ari en að tryggja rétt­indi borg­ar­anna, – verja frelsi þeirra til orðs og æðis. Standa vörð um stjórn­ar­skrár­var­in rétt­indi og virða um leið alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar um mann­rétt­indi.

Það verður að segj­ast eins og er að okk­ur hef­ur gengið mis­jafn­lega að verja þau rétt­indi sem við telj­um að séu öll­um tryggð í stjórn­ar­skránni. Þetta á ekki síst við um rétt­inn til að ganga í, stofna eða standa utan fé­laga.

Virkt fé­laga­frelsi er grunn­rétt­ur í hverju opnu lýðræðis­sam­fé­lagi. Þess vegna er að finna í stjórn­ar­skránni ákvæði um fé­laga­frelsi. All­ir eiga „rétt til að stofna fé­lög í sér­hverj­um lög­leg­um til­gangi, þar með tal­in stjórn­mála­fé­lög og stétt­ar­fé­lög, án þess að sækja um leyfi til þess“. Skýrt er tekið fram að eng­an megi „skylda til aðild­ar að fé­lagi“ en þó megi með lög­um „kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsyn­legt til að fé­lag geti sinnt lög­mætu hlut­verki vegna al­manna­hags­muna eða rétt­inda annarra“. Í alþjóðasátt­mál­um, sem Ísland hef­ur staðfest, er einnig lögð sér­stök áhersla á vernd þess­ara rétt­inda. Því miður skort­ir veru­lega á að vernd fé­laga­frels­is sam­kvæmt 74. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar sé fylgt í reynd.

Í liðinni viku mælti ég í annað sinn fyr­ir frum­varpi þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði. Að baki frum­varp­inu ligg­ur sú sann­fær­ing að nauðsyn­legt sé að styrkja fé­laga­frelsið bet­ur með al­mennri lög­gjöf. Verði frum­varpið að lög­um mun Ísland standa jafn­fæt­is öðrum vest­ræn­um lýðræðis­ríkj­um að því er varðar vernd fé­laga­frels­is. Að þessu leyti er frum­varpið ekki sér­lega rót­tækt.

Í orði ekki á borði

Á Íslandi eru svo­kölluð for­gangs­rétt­ar­á­kvæði í kjara­samn­ing­um. Slík ákvæði ganga gegn fé­laga­frelsi launa­fólks enda má leggja þau að jöfnu við skylduaðild að stétt­ar­fé­lagi sam­kvæmt niður­stöðu Mann­rétt­inda­dóms Evr­ópu [MDE]. Fólk er í raun og veru úti­lokað frá til­tekn­um störf­um gangi það ekki í stétt­ar­fé­lagið sem hef­ur for­gang sam­kvæmt kjara­samn­ingi. Þetta á jafnt við um ráðningu og upp­sögn. Til að verja stöðu sína er launa­manni nauðugur sá kost­ur að ganga í viðkom­andi stétt­ar­fé­lag. Rétt­arstaða þess sem ákveður að standa utan stétt­ar­fé­lags, m.a. vegna þess að hann er ósátt­ur við það hvernig stétt­ar­fé­lagið vinn­ur, er sann­færður um að stefna for­ystu viðkom­andi stétt­ar­fé­lags gangi gegn hags­mun­um hans, er veik svo ekki sé tekið dýpra í ár­inni. Til að verja starf sitt og standa jafn­fæt­is öðrum á starfsmaður­inn fáa aðra kosti en að ganga til liðs við stétt­ar­fé­lagið.

Nán­ast öll vest­ræn lönd hafa bannað slík ákvæði með vís­an til fé­laga­frels­is launa­manna.

Þess ber að geta að MDE hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að jafn­vel þótt kveðið sé á um frelsi manna til að standa utan fé­laga þá verði sá rétt­ur að vera raun­hæf­ur. Ein­stak­ling­ur nýt­ur ekki fé­laga­frels­is ef það at­hafna- eða val­frelsi sem hon­um stend­ur til boða er annaðhvort ekki til staðar eða skert að því marki að það hef­ur ekk­ert hag­nýtt gildi. MDE hef­ur vitnað til 11. gr. Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu. Auk mann­rétt­inda­sátt­mál­ans eru Íslend­ing­ar aðilar að Fé­lags­mála­sátt­mála Evr­ópu en í 5. gr. hans er fé­laga­frelsi tryggt. Evr­ópu­nefnd um fé­lags­leg rétt­indi hef­ur kom­ist að þeirri niður­stöðu að for­gangs­rétt­ar­á­kvæði brjóti í bága við þessa grein. Nefnd­in hef­ur ít­rekað bent á að Ísland gangi gegn sátt­mál­an­um og upp­fylli því ekki skyld­ur sín­ar um að tryggja launa­fólki fé­laga­frelsi – rétt þess að standa utan stétt­ar­fé­laga.

Og í þessu sam­bandi má ekki gleyma því að rétt­ur ein­stak­linga til að standa utan stétt­ar­fé­laga er samof­inn skoðana- og tján­ing­ar­frels­inu, sem varið er af 73. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar og 10. gr. Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu.

Staða launa­fólks á Íslandi er því lak­ari en í öll­um þeim lönd­um sem við ber­um okk­ur sam­an við, þegar kem­ur að fé­laga­frelsi. Lagaum­gjörðin hér á landi er með þeim hætti að val­frelsið er í orði en ekki á borði.

Rétt­ur launa­fólks var­inn

Meg­in­mark­mið frum­varps um fé­laga­frelsi á vinnu­markaði er að tryggja rétt launa­fólks til að velja sér stétt­ar­fé­lag, leggja bann við for­gangs­rétt­ar­á­kvæðum í kjara­samn­ing­um, vernda rétt launa­manna til að standa utan verk­falla stétt­ar­fé­laga sem þeir til­heyra ekki og af­nema og koma í veg fyr­ir greiðslu­skyldu ófé­lags­bund­inna starfs­manna þar sem þess er kraf­ist í lög­um, svo sem varðandi op­in­bera starfs­menn eða í kjara­samn­ing­um.

Ákvæði frum­varps­ins eru skýr:

· Menn skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stétt­ar­fé­lög sem þeir kjósa.

· Óheim­ilt er að draga fé­lags­gjöld eða önn­ur gjöld af laun­um starfs­manns eða skrá hann sem fé­lags­mann í stétt­ar­fé­lag nema með skýru og ótví­ræðu samþykki hans.

· Óheim­ilt er að skylda mann til að ganga í til­tekið stétt­ar­fé­lag.

· Vinnu­veit­anda er óheim­ilt að synja um­sækj­anda um laust starf eða segja launa­manni upp starfi á grund­velli fé­lagsaðild­ar hans. Sama gild­ir um stöðuhækk­un, stöðubreyt­ingu, end­ur­mennt­un, símennt­un, starfsþjálf­un eða náms­leyfi. Þá er jafn­framt óheim­ilt að byggja ákvörðun um upp­sögn, vinnuaðstæður eða önn­ur starfs­kjör launa­manns á fé­lagsaðild hans.

· Vinnu­veit­anda er óheim­ilt að mis­muna starfs­mönn­um sín­um vegna fé­lagsaðild­ar í tengsl­um við laun og önn­ur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafn verðmæt­um störf­um.

· For­takslaus skylda er lögð á at­vinnu­rek­end­ur að greiða iðgjald í sjúkra­sjóð fyr­ir starfs­mann. Standi viðkom­andi utan stétt­ar­fé­lags skal at­vinnu­rek­andi tryggja hon­um greiðslu dag­pen­inga og slysa­bóta vegna veik­inda.

Andstaða

Leiðin að frelsi ein­stak­lings­ins hef­ur ekki alltaf verið greiðfær. Á stund­um hef­ur þurft marg­ar til­raun­ir til að tryggja það sem við öll­um segj­um í orði en er ekki á borði, stjórn­ar­skrár­var­in rétt­indi borg­ar­anna. Andstaðan við að ís­lenskt launa­fólk njóti fé­laga­frels­is í raun er mik­il. En drop­inn hol­ar stein­inn.

Í nokkru get ég skilið áhyggj­ur margra verka­lýðsleiðtoga. Þeir ótt­ast að með fé­laga­frels­inu veikist sam­tök launa­fólks. En þá ganga þeir út frá því að stór hluti launa­fólks telji hags­mun­um sín­um bet­ur borgið utan stétt­ar­fé­lags en inn­an þess. Í þessu felst mikið van­mat og van­trú á mik­il­vægi stétt­ar­fé­laga.

Hitt er rétt að lang­stærsti hluti al­mennra fé­lags­manna er óvirk­ur í starfi eig­in stétt­ar­fé­lags. Kannski er það ekki óeðli­legt. Þegar ein­hver er neydd­ur eða tel­ur sig neydd­an til þess að eiga aðild að fé­lagi eru meiri lík­ur en minni á því að viðkom­andi hafi lít­inn áhuga á starfi fé­lags­ins. Með því að virkja fé­laga­frelsið og standa við alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar mun launa­fólk fá auk­inn áhuga á rétt­ind­um sín­um. Ég hef áður bent á að með frels­inu sann­fær­ist launa­fólk um að rétt­inda­bar­átta verði best háð sam­eig­in­lega með virkri fé­lagsaðild, sem hver og einn tek­ur ákvörðun um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2023.