Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:
Í samfélagi lýðræðis eru fáar skyldur löggjafans meiri og mikilvægari en að tryggja réttindi borgaranna, – verja frelsi þeirra til orðs og æðis. Standa vörð um stjórnarskrárvarin réttindi og virða um leið alþjóðlegar skuldbindingar um mannréttindi.
Það verður að segjast eins og er að okkur hefur gengið misjafnlega að verja þau réttindi sem við teljum að séu öllum tryggð í stjórnarskránni. Þetta á ekki síst við um réttinn til að ganga í, stofna eða standa utan félaga.
Virkt félagafrelsi er grunnréttur í hverju opnu lýðræðissamfélagi. Þess vegna er að finna í stjórnarskránni ákvæði um félagafrelsi. Allir eiga „rétt til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess“. Skýrt er tekið fram að engan megi „skylda til aðildar að félagi“ en þó megi með lögum „kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmætu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra“. Í alþjóðasáttmálum, sem Ísland hefur staðfest, er einnig lögð sérstök áhersla á vernd þessara réttinda. Því miður skortir verulega á að vernd félagafrelsis samkvæmt 74. gr. stjórnarskrárinnar sé fylgt í reynd.
Í liðinni viku mælti ég í annað sinn fyrir frumvarpi þingmanna Sjálfstæðisflokksins um félagafrelsi á vinnumarkaði. Að baki frumvarpinu liggur sú sannfæring að nauðsynlegt sé að styrkja félagafrelsið betur með almennri löggjöf. Verði frumvarpið að lögum mun Ísland standa jafnfætis öðrum vestrænum lýðræðisríkjum að því er varðar vernd félagafrelsis. Að þessu leyti er frumvarpið ekki sérlega róttækt.
Í orði ekki á borði
Á Íslandi eru svokölluð forgangsréttarákvæði í kjarasamningum. Slík ákvæði ganga gegn félagafrelsi launafólks enda má leggja þau að jöfnu við skylduaðild að stéttarfélagi samkvæmt niðurstöðu Mannréttindadóms Evrópu [MDE]. Fólk er í raun og veru útilokað frá tilteknum störfum gangi það ekki í stéttarfélagið sem hefur forgang samkvæmt kjarasamningi. Þetta á jafnt við um ráðningu og uppsögn. Til að verja stöðu sína er launamanni nauðugur sá kostur að ganga í viðkomandi stéttarfélag. Réttarstaða þess sem ákveður að standa utan stéttarfélags, m.a. vegna þess að hann er ósáttur við það hvernig stéttarfélagið vinnur, er sannfærður um að stefna forystu viðkomandi stéttarfélags gangi gegn hagsmunum hans, er veik svo ekki sé tekið dýpra í árinni. Til að verja starf sitt og standa jafnfætis öðrum á starfsmaðurinn fáa aðra kosti en að ganga til liðs við stéttarfélagið.
Nánast öll vestræn lönd hafa bannað slík ákvæði með vísan til félagafrelsis launamanna.
Þess ber að geta að MDE hefur komist að þeirri niðurstöðu að jafnvel þótt kveðið sé á um frelsi manna til að standa utan félaga þá verði sá réttur að vera raunhæfur. Einstaklingur nýtur ekki félagafrelsis ef það athafna- eða valfrelsi sem honum stendur til boða er annaðhvort ekki til staðar eða skert að því marki að það hefur ekkert hagnýtt gildi. MDE hefur vitnað til 11. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Auk mannréttindasáttmálans eru Íslendingar aðilar að Félagsmálasáttmála Evrópu en í 5. gr. hans er félagafrelsi tryggt. Evrópunefnd um félagsleg réttindi hefur komist að þeirri niðurstöðu að forgangsréttarákvæði brjóti í bága við þessa grein. Nefndin hefur ítrekað bent á að Ísland gangi gegn sáttmálanum og uppfylli því ekki skyldur sínar um að tryggja launafólki félagafrelsi – rétt þess að standa utan stéttarfélaga.
Og í þessu sambandi má ekki gleyma því að réttur einstaklinga til að standa utan stéttarfélaga er samofinn skoðana- og tjáningarfrelsinu, sem varið er af 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.
Staða launafólks á Íslandi er því lakari en í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við, þegar kemur að félagafrelsi. Lagaumgjörðin hér á landi er með þeim hætti að valfrelsið er í orði en ekki á borði.
Réttur launafólks varinn
Meginmarkmið frumvarps um félagafrelsi á vinnumarkaði er að tryggja rétt launafólks til að velja sér stéttarfélag, leggja bann við forgangsréttarákvæðum í kjarasamningum, vernda rétt launamanna til að standa utan verkfalla stéttarfélaga sem þeir tilheyra ekki og afnema og koma í veg fyrir greiðsluskyldu ófélagsbundinna starfsmanna þar sem þess er krafist í lögum, svo sem varðandi opinbera starfsmenn eða í kjarasamningum.
Ákvæði frumvarpsins eru skýr:
· Menn skulu hafa rétt til þess að stofna og ganga í þau stéttarfélög sem þeir kjósa.
· Óheimilt er að draga félagsgjöld eða önnur gjöld af launum starfsmanns eða skrá hann sem félagsmann í stéttarfélag nema með skýru og ótvíræðu samþykki hans.
· Óheimilt er að skylda mann til að ganga í tiltekið stéttarfélag.
· Vinnuveitanda er óheimilt að synja umsækjanda um laust starf eða segja launamanni upp starfi á grundvelli félagsaðildar hans. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, símenntun, starfsþjálfun eða námsleyfi. Þá er jafnframt óheimilt að byggja ákvörðun um uppsögn, vinnuaðstæður eða önnur starfskjör launamanns á félagsaðild hans.
· Vinnuveitanda er óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum vegna félagsaðildar í tengslum við laun og önnur kjör, enda sinni þeir sömu eða jafn verðmætum störfum.
· Fortakslaus skylda er lögð á atvinnurekendur að greiða iðgjald í sjúkrasjóð fyrir starfsmann. Standi viðkomandi utan stéttarfélags skal atvinnurekandi tryggja honum greiðslu dagpeninga og slysabóta vegna veikinda.
Andstaða
Leiðin að frelsi einstaklingsins hefur ekki alltaf verið greiðfær. Á stundum hefur þurft margar tilraunir til að tryggja það sem við öllum segjum í orði en er ekki á borði, stjórnarskrárvarin réttindi borgaranna. Andstaðan við að íslenskt launafólk njóti félagafrelsis í raun er mikil. En dropinn holar steininn.
Í nokkru get ég skilið áhyggjur margra verkalýðsleiðtoga. Þeir óttast að með félagafrelsinu veikist samtök launafólks. En þá ganga þeir út frá því að stór hluti launafólks telji hagsmunum sínum betur borgið utan stéttarfélags en innan þess. Í þessu felst mikið vanmat og vantrú á mikilvægi stéttarfélaga.
Hitt er rétt að langstærsti hluti almennra félagsmanna er óvirkur í starfi eigin stéttarfélags. Kannski er það ekki óeðlilegt. Þegar einhver er neyddur eða telur sig neyddan til þess að eiga aðild að félagi eru meiri líkur en minni á því að viðkomandi hafi lítinn áhuga á starfi félagsins. Með því að virkja félagafrelsið og standa við alþjóðlegar skuldbindingar mun launafólk fá aukinn áhuga á réttindum sínum. Ég hef áður bent á að með frelsinu sannfærist launafólk um að réttindabarátta verði best háð sameiginlega með virkri félagsaðild, sem hver og einn tekur ákvörðun um.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 25. október 2023.