„Sækjum tekjur“ með forgangsröðun í ríkisfjármálum
'}}

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins:

Skattkerfisbreytingar undanfarinn áratug hafa sannarlega miðað að því að létta byrðar launafólks, bæta afkomu fyrirtækja og hvetja þau til fjárfestinga. Undir forystu Sjálfstæðisflokksins hafa skattar verið lækkaðir og frítekjumarkið verið hækkað. Þessar aðgerðir hafa leitt til betri lífskjara fyrir fólkið í landinu.

Það er hins vegar mikilvægt í þessu eins og í öðru að bera sig saman við önnur lönd. Skoða skattheimtu íslenska ríkisins í alþjóðlegum samanburði. Þar skipta nokkrar breytur höfuðmáli.

Á síðasta þingvetri svaraði heilbrigðisráðherra fyrirspurn minni um útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála í alþjóðlegum samanburði. Heilbrigðisráðherra tók undir að  það væri nauðsynlegt að setja hlutina í eitthvað samhengi við samanburð milli landa og var afdráttarlaus varðandi þýðingu aldurs þjóðarinnar í þessu samhengi. Þýðingin er auðvitað sú að sjúkdómsbyrði eykst eftir því sem við eldumst, en Íslendingar eru ung þjóð í samanburði við t.d. Norðurlöndin sem við berum okkur gjarnan saman við. Sú breyta ætti því að leiða til umtalsvert lægri skattbyrði, enda hafa stjórnvöld gjarnan bent á aldurssamsetningu þjóðarinnar í umræðu um útgjöld til heilbrigðismála.

Ég lagði því fram fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra um áhrif aldurssamsetningar þjóðarinnar á opinber útgjöld. Í svari ráðherrans kemur fram að greiningar á aldursmynstri heilbrigðisútgjalda sýni skýrt að heilbrigðiskostnaður vaxi eftir aldri, sérstaklega eftir 65 ára aldur. Ísland er með eitt lægsta hlutfallið af 65 ára og eldri innan OECD. Hagstæð aldurssamsetning Íslendinga veldur því að heilbrigðisútgjöld og útgjöld hins opinbera eru lægri en þau væru annars, eins og ráðherrann bendir á. Útgjöld hins opinbera vegna heilbrigðismála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eru engu að síður nokkru hærri en meðaltal OECD-ríkjanna í heild.

Í svarinu kemur einnig fram að útgjöld Íslands vegna lífeyrisgreiðslna til þeirra einstaklinga sem eru komir á eftirlaun séu þau lægstu innan OECD. Skýrist það af sterku og vel fjármögnuðu lífeyriskerfi sem byggir á sjóðsöfnun hérlendis. Vegna framangreindra breyta, er Ísland í hópi þeirra ríkja heims sem þurfa hvað minnst að gera til að bregðast við öldrun þjóðarinnar, samkvæmt skýrslu OECD frá 2018. Annar stór útgjaldaliður flestra ríkja, varnarmál, er einnig lægri hérlendis en í flestum samanburðarríkjum okkar.

Það skýtur því skökku við að snemmbært kosningaloforð Samfylkingarinnar sé tugmilljarða skattahækkanir til að fjármagna stefnu hennar í heilbrigðismálum. Að teknu tilliti til aldurssamsetningar þjóðarinnar skv. framangreindu og framlags til varnarmála blasir við að skattheimta hér er í hæstu hæðum. Aukið fjármagn til heilbrigðismála er sjálfstætt markmið sumra stjórnmálamanna. Ljóst er að þá fjármuni má sækja með forgangsröðun verkefna og fjármuna. Sjálf tel ég að árangur, aðgangur og gæði heilbrigðisþjónustu ættu öllu fremur að vera markmiðið. Stóraukin framlög okkar til heilbrigðismála á undanförnum árum hafa enda ekki skilað tilætluðum árangri. Við þurfum samt greinilega að gera miklu betur þegar kemur að nýtingu þessara fjármuna. Þar þurfum við að skoða hvernig aðrar þjóðir ná að nýta fjármunina, að því er virðist, miklu betur en við. Stóraukin skattheimta er ekki svar Sjálfstæðisflokksins.

Hið opinbera eyðir ekki nándar nærri eins miklu í heilbrigðismál, lífeyrisgreiðslur og varnarmál eins og þau lönd sem við berum okkur saman við. Engu að síður hafi umsvif ríkisins og starfsmannahald vaxið hratt undanfarna áratugi. Við ættum því að eiga nóg inni fyrir allsherjar aðhald í ríkisfjármálum.

Greinin birtis fyrst í Viðskiptablaðinu 25. október 2023