Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna í Reykjavík hef ég lagt fram tillögu um að Orkuveitan kanni fýsileika þess að styðja við uppsetningu sólarsella á reykvískum heimilum. Þetta er mál sem tímabært er að taka föstum tökum. Sólarsellur eru miklu raunhæfari kostur til orkuöflunar en við höfum gert okkur grein fyrir en þessi mál eru hins vegar komin á fleygiferð annars staðar á norðlægum slóðum. Í síðasta mánuði settu Norðmenn upp sólarsellur á Svalbarða sem er á milli Norður-Noregs og norðurpólsins. Svalbarði er umvafinn myrkri frá október til febrúar en umvafinn birtu á sumrin og uppljómaður af ísglampa þess á milli. Þessi ákvörðun Norðmanna kemur í kjölfar mikils uppgangs í sólarsellunotkun þar í landi. Sem stendur eru um 20.000 sólarsellur uppsettar með samanlagt uppsett afl upp á 373 megavött sem flestar hvíla á þökum norskra heimila, en uppsett afl Búrfellsvirkjunar er 270 megavött til samanburðar. Út frá flatarmáli vel valinna þaka norskra stofnana og fyrirtækja hafa Norðmenn kortlagt orkuöflunargetu upp á 3,3 teravattstundir á ári til viðbótar sólarsellum en upp á samhengi þá framleiðir Búrfellsvirkjun um 585 gígavattstundir á ári. Ef þetta er hægt á norskum þökum, hvaða möguleikar gætu þá hvílt á reykvískum þökum?
Orkuveita í hverju húsi
Undanfarinn áratug hefur sólarsellutækninni fleygt fram. Þær eru mun öflugri og harðgerðari en áður en jafnframt mun ódýrari. Nú þurfa sólarsellur mun minni birtu en framleiða samt meira rafmagn á hverja ljóstíru en áður og virka betur í kulda en hita. Á sama tíma hafa flest lönd innleitt svonefnda snjallmæla sem gefa rauntímaupplýsingar um orkunotkun en líka orkuframleiðslu. Með slíkum mælum er heimilunum gert kleift að selja orku til baka inn á almenna dreifikerfið en mörg heimili eru líka með rafgeyma og geyma orkuna sem þau framleiða yfir daginn til að nota á nóttunni eða þegar þeim hentar. Víða erlendis eru venjuleg heimili ekki bara sínar eigin orkuveitur heldur líka orkusalar. Bróðir minn er búsettur í Árósum ásamt fjölskyldu sinni sem notar um 6.000 kílóvattstundir af rafmagni á ári en með sólarsellunum á þakinu sínu framleiðir fjölskyldan um 8.000 kílóvattstundir á ári. Orkuna selja þau inn á kerfið og hafa annan kaupanda en seljanda. Að jafnaði er raforkunotkun heimilanna hérlendis um 5.000 kílóvattstundir á ári. Mjög varlega áætlað ættu reykvísk heimili að geta annað þeirri orkunotkun með sólarsellum og jafnvel gerst umtalsverðir orkusalar á sumrin.
Raforkuverð er vissulega lágt hérlendis en íbúar eru mjög valdlitlir gagnvart Orkuveitunni og neyðast til að láta allar hækkanir yfir sig ganga. Þá þurfa Orkuveitan og Reykjavíkurborg að vera vel reknar. Upprunalega var hugsun almennings með stofnun Orkuveitu Reykjavíkur að eftir að lántökur vegna nauðsynlegra fjárfestinga vegna rafmagnsframleiðslu og hitaveitu hefðu verið greiddar niður færi afgangurinn frá rekstrinum annars vegar í að fjármagna fjárfestingar vegna stækkandi samfélags og hins vegar fengi almenningur að njóta ávaxtanna með lágum orkukostnaði. Sú sýn hefur ekki fyllilega gengið eftir af ýmsum ástæðum en miðað við núverandi skuldastöðu Orkuveitunnar, fjárfestingarþörfina og arðgreiðslukröfu Reykjavíkurborgar mega reykvísk heimili vænta hækkana á orkureikningunum. Þess vegna skapast hvati fyrir heimilin að verða sjálfbær í orkuframleiðslu.
Margar hendur vinna létt verk
Einnig þarf að hafa í huga að orkuþörf Reykvíkinga hefur aukist mjög á stuttum tíma og því er mjög brýnt fyrir Orkuveituna að bregðast við. Fyrir tæpum áratug voru um 300 rafmagnsbílar á Íslandi, í lok árs 2022 voru þeir orðnir ríflega 18 þúsund, ásamt um 20 þúsund tvíorkubílum, og einhvers staðar eru allir þessir bílar í hleðslu. Til að anna þessu og annarri eftirspurn vegna orkuskipta er Orkuveitan á fullu við að skipuleggja vindorkuframleiðslu og skoða virkjunarmöguleika, en slík uppbygging er kostnaðarsöm og getur tekið 10-20 ár að komast í gagnið þótt hún sé nauðsynleg. Orkuveitan ætti að geta séð hag sinn í því að nýta slagkraft heimilanna til að bregðast hratt við orkuþörfinni með því að styðja við uppbyggingu sólarsella í Reykjavík. Það væri sennilega ódýrasti kosturinn fyrir Orkuveituna, ekki síst vegna skilvirkari nýtingar á núverandi innviðum. Vænta má að mikil álagsaukning á dreifikerfi Orkuveitunnar undanfarinn áratug kalli á meiri fjárfestingar í innviðum, en í stað þess að flytja rafmagn inn í borg á yfirhleðslu myndu heimilin sjálf framleiða rafmagnið og nota það jafnóðum eða geyma það í eigin rafgeymum. Þetta léttir á dreifikerfinu auk þess sem flutningstap er lítið sem ekkert þegar vegalengdirnar eru svona stuttar. Stuðningur við uppsetningu sólarsella á húsþökum í Reykjavík gæti því verið hagkvæmur og nærtækasti fjárfestingarkostur Orkuveitunnar þótt óbeinn sé. Það eitt er þó víst að framtíðin er sólarsellumegin.