Verðbólgan er stóra verkefnið

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Umræðan um rík­is­stjórn­ina síðustu daga hef­ur að mestu snú­ist um breyt­ingu á ráðherra­stól­um, sem nú er búið að kynna. Slíkt vek­ur öllu jafna at­hygli, sem er eðli­legt.

Það eru þó mik­il­væg­ari mál sem bíða okk­ar allra – og það er rík­is­stjórn­in meðvituð um. Helsta for­gangs­mál okk­ar er að ná tök­um á verðbólg­unni enda er hún sá óvin­ur sem kem­ur niður á lífs­gæðum allra. Þau sem eldri eru muna ef­laust vel þegar hér ríkti óðaverðbólga og fengu því miður að kynn­ast af­leiðing­um henn­ar. Þau sem yngri eru hafa, sem bet­ur fer, ekki fengið að finna fyr­ir því með sama hætti. Við get­um þó ekki látið eins og ekk­ert sé og að sá vandi sem nú blas­ir við hag­kerf­inu leys­ist að sjálfu sér, því hann ger­ir það ekki.

Við get­um haft ýms­ar skoðanir á því í hvernig sam­fé­lagi við vilj­um búa og hverj­ar áhersl­ur stjórn­mál­anna eiga að vera hverju sinni. Aft­ur á móti er til lít­ils að velta vöng­um yfir því sem mögu­lega mætti kalla dæg­urþras stjórn­mál­anna ef við búum ekki við efna­hags­leg­an stöðug­leika. Það ætti að vera sam­eig­in­legt mark­mið okk­ar allra, hvar sem stönd­um, að tryggja þann stöðug­leika og byggja þannig grunn að auk­inni hag­sæld á Íslandi.

Þess vegna þurf­um við að sýna aðhald í rík­is­fjár­mál­um til að kæfa verðbólgu­bálið. Það á einnig við um skatt­heimtu sem stilla þarf í hóf til að bæði fólk og fyr­ir­tæki getið notið afrakst­urs af erfiði sínu. Þá þarf að að taka skyn­sam­ar ákv­arðanir við gerð kjara­samn­inga. Það má öll­um vera ljóst að fram­leiðnin í land­inu þarf að standa und­ir launa­kostnaði og að efna­hags­leg staða verður ekki bætt með því einu að hækka töl­urn­ar á launa­seðlin­um ef sú tala brenn­ur upp í verðbólgu og minni kaup­mætti.

Verðbólga kem­ur illa við alla. Ef við tök­um dæmi af ungu fólki þá haml­ar hún því að fólk kom­ist inn á hús­næðismarkaðinn. Til að taka ein­falt dæmi má nefna ein­stak­ling sem hafði safnað sér fimm millj­ón­um í upp­haf árs 2021 og vantaði þá eina millj­ón til að eiga fyr­ir út­borg­un á 40 millj­óna króna íbúð. Hann á í dag aðeins 4,4 millj­ón­ir í banka og vant­ar 2,7 millj­ón­ir í út­borg­un á sömu fast­eign. Ein­stak­ling­ur sem aft­ur á móti var kom­inn í eig­in íbúð og átti 5 millj­ón­ir króna í eigið fé, á sama tíma á nú átta millj­ón­ir í eigið fé. Aft­ur á móti hef­ur hús­næðis­verð hækkað þannig að sá ein­stak­ling­ur get­ur átt erfitt með að stækka við sig. Einnig mætti nefna fyr­ir­tæki sem þurfa að fjár­magna sig á háum vöxt­um á sama tíma og þau þurfa að stilla verðlagi og launa­kostnaði í hóf.

Það er eng­in ein lausn í bar­áttu við verðbólgu. Það má þó draga þann lær­dóm af henni að lífs­gæði þurfa að byggj­ast á stöðug­leika og á traust­um efna­hags­leg­um grunni. Hvor­ugt er skapað með lof­orðaflaumi stjórn­mála­manna um fal­lega framtíðar­sýn og stór­auk­in út­gjöld, svo tekið sé nær­tækt dæmi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. október 2023.