Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Framundan eru mikilvægar ákvarðanir um Sundabraut en undirbúningur hennar kemst nú vonandi á rekspöl eftir miklar og óskiljanlegar tafir árum og áratugum saman. Mun það hafa verið eitt af skilyrðum Framsóknarflokksins fyrir meirihlutasamstarfi við Samfylkingu, Pírata og Viðreisn að frekari tafir yrðu ekki á undirbúningi þessa mikilvæga samgönguverkefnis.
Taka þarf ákvarðanir um legu brautarinnar og ýmsar útfærslur ef það markmið á að nást að hefja framkvæmdir við verkið árið 2026 eins og stefnt er að.
Í rúman áratug hafa borgarstjórnarmeirihlutar undir forystu Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka gripið til margvíslegra ráða til að tefja framgang Sundabrautarverkefnisins og leggja steina í götu þess. Fjölbýlishús hafa verið byggð á veghelgunarsvæði Sundabrautar í Gufunesi og smáhýsi reist í fyrirhuguðu vegstæði hennar. Þá hafa fjölbýlishús einnig verið byggð við það vegstæði, sem Vegagerðin taldi henta best fyrir tengingu Sundabrautar við Sæbraut. Þannig má áfram telja og virðist það hafa verið sérstakt metnaðarmál vinstri flokkanna í borgarstjórn undanfarin kjörtímabil að koma í veg fyrir að Sundabraut yrði að veruleika.
Þverun Kleppsvíkur
Stærsta álitaefnið varðar fyrsta áfanga verkefnisins: þverun Kleppsvíkur milli Sæbrautar og Gufuness. Ákveða þarf hvort Kleppsvík verði þveruð með brú eða göngum og legu þess mannvirkis, sem verður fyrir valinu. Ljóst er að báðar lausnir hafa kosti og galla. Einnig þarf að velja leið um Gufunes út í Geldinganes, þaðan yfir á Álfsnes og að lokum yfir Kollafjörð upp á Kjalarnes.
Brýnt er að sem best verði staðið að undirbúningi þessa risaverkefnis og á það ekki síst við um íbúasamráð í þeim hverfum sem munu liggja næst brautinni Kynna þarf málið fyrir íbúum og gefa þeim kost á að segja álit sitt áður en ákvarðanir verða teknar um leiðarval og meiri háttar útfærslur. Mikilvægt er að sem mest sátt náist um málið í þeim íbúahverfum, sem liggja munu næst brautinni.
Íbúasamráð mikilvægt
Vegagerðin og Reykjavíkurborg efndu til þriggja íbúafunda um Sundabraut í Reykjavík í byrjun október 2023. Fundirnir voru haldnir í Langholtshverfi, Grafarvogi og á Kjalarnesi og voru þeir vel sóttir. Á fundunum var kynnt matsáætlun vegna umhverfisáhrifa Sundabrautar og fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar vegna hennar.
Fróðlegt var að sitja fundina og kynnast þannig viðhorfum íbúa til Sundabrautar beint og milliliðalaust. Eins og gefur að skilja lék íbúum forvitni á að vita hvernig staðið verður að umferðartengingum hverfanna við Sundabraut og hvort akstur um nærliggjandi íbúahverfi myndi aukast eða minnka með tilkomu hennar. Var það eindregin ósk margra fundarmanna að séð yrði til þess að umferð til og frá brautinni yrði ekki leidd í gegnum íbúahverfin. Ljóst er að fyrirhugaður Sæbrautarstokkur getur gegnt lykilhlutverki að því leyti vestan megin Kleppsvíkur.
Margar spurningar komu einnig fram um kosti og galla ólíkra kosta í verkefninu, ekki síst um muninn á brúarlausn og gangalausn. Spurt var um stærð og umfang einstakra mannvirkja, sem og um ásýnd þeirra og hljóðvist. Margir sýndu því áhuga hvernig ólíkar lausnir myndu henta gangandi og hjólandi vegfarendum.
Grænu svæðin
Bent var á að verið sé að þrengja að grænum svæðum í Grafarvogi og því þurfi að fara fram með tillitsemi gagnvart þeim. Spurt var hvort ekki væri hægt að hafa Sundabraut vestar en nú er miðað við. Einnig var bent á þann möguleika að hafa alla Sundabraut í göngum, frá Sæbraut upp á Kjalarnes.
Nú er unnið að verklýsingu skipulagsgerðar og lýsingu fyrirhugaðs umhverfismats og er þær að finna á vef Reykjavíkurborgar og á skipulagsgatt.is. Frestur til að koma með ábendingar og athugasemdir vegna þeirra er til 19. október nk.
Stefnt er að því að drög að skipulagstillögu liggi fyrir í febrúar nk. og að tillagan verði auglýst, samþykkt og staðfest síðar á því ári. Mikilvægt er að vel verði staðið að samráði við íbúa í þessari vinnu og þeim gefinn kostur á að koma athugasemdum og ábendingum að í öllu ferlinu.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. október 2023.