Í dag fóru fram lyklaskipti í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og utanríkisráðuneytinu þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir tók við embætti fjármálaráðherra af Bjarna Benediktssyni og Bjarni tók við embætti utanríkisráðherra af Þórdísi Kolbrúnu. Síðdegis voru haldin kveðjuhóf í báðum ráðuneytum.
Bjarni gegndi embætti fjármálaráðherra í 3.473 daga eða nánast í tíu ár sem er lengsta seta fjármálaráðherra í embættinu frá lýðveldisstofnun. Á starfstíma sínum lagði hann ellefu sinnum fram fjárlagafrumvarp.
Þórdís Kolbrún hefur gengt embætti utanríkisráðherra frá 28. nóvember 2021. Hún hefur lengst íslenskra kvenna gegnt embætti utanríkisráðherra og er jafnframt þriðja konan í sögu Íslands til að gegna embætti fjármálaráðherra, sú fyrsta úr röðum sjálfstæðismanna.