Óli Björn Kárason alþingismaður:
Niðurstaða umboðsmanns Alþingis um að fjármála- og efnahagsráðherra hafi „brostið hæfi“ samkvæmt stjórnsýslulögum, við ákvörðun um sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka á síðasta ári, kom mér, eins og mörgum öðrum, fullkomlega á óvart. Ég fullyrði að allir þeir sem tóku þátt í undirbúningi útboðsins hafi gert það í góðri trú og í þeirri fullvissu að öllum skilyrðum laga væri fullnægt. Þar var m.a. byggt á reynslu af vel heppnuðu frumútboði þegar hlutabréf bankans voru skráð á hlutabréfamarkað árið 2021.
Í greinargerð umboðsmanns segir að ekkert hafi komið fram „sem gefur tilefni til þess að draga í efa staðhæfingu ráðherra um grandleysi hans umrætt kvöld um þátttöku Hafsilfurs ehf. í útboðinu. Í því sambandi tek ég einnig fram að ekkert í þeim gögnum sem ráðherra bárust frá Bankasýslunni, áður en hann tók ákvörðun sína, gaf honum eða starfsmönnum ráðuneytisins sérstakt tilefni til að ætla að fyrirtæki í eigu föður hans væri meðal bjóðenda.“
Niðurstaða umboðsmanns er í beinni andstöðu við lögfræðilega ráðgjöf sem lá fyrir þegar ákvörðun var tekin. Ég er ósammála niðurstöðu umboðsmanns. En um leið og niðurstaðan veldur vonbrigðum get ég ekki annað en virt hana.
Hitt er rétt að í greinargerð umboðsmanns koma fram margar ábendingar um hvað megi betur fara og hvernig skynsamlegt sé að breyta umgjörð og lögum um sölu ríkiseigna. Þær ábendingar verður löggjafinn og framkvæmdavaldið að taka alvarlega og bregðast við. Markmiðið er að tryggja að traust ríki í samfélaginu þegar og ef teknar eru ákvarðanir um að selja ríkiseignir. Þetta á ekki síst við um hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Að þessu leyti er fengur að áliti umboðsmanns.
Ávinningurinn óumdeildur
Ég hef áður bent á að ákvörðun um að selja eignarhluti ríkisins í Íslandsbanka sé í eðli sínu pólitísk og í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um að „halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða“.
Ávinningurinn af sölu bréfanna í Íslandsbanka er óumdeildur. Ríkið hefur losað verulega fjármuni sem voru bundnir í áhætturekstri, eða alls 108 milljarðar króna. Áhættusöm ríkiseign hefur verið nýtt í að styrkja innviði samfélagsins – henni er umbreytt meðal annars í nýjan Landspítala, samgönguinnviði og hjúkrunarheimili. Sú umbreyting er pólitík sem skilar árangri fyrir almenning. Þeir eru til sem eru í hjarta sínu mótfallnir þessari stefnu. Þeir halda áfram tilraunum sínum til að þyrla upp moldviðri, sá fræjum tortryggni og vinna gegn því að traust geti skapast um sölu ríkiseigna í náinni framtíð.
Til lengri tíma litið er ekki síður mikilvægt að með sölu bréfanna hafa verið tekin markviss skref í að minnka áhættu ríkisins í bankarekstri. Við færumst nær heilbrigðara fjármálaumhverfi í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar.
Stendur vörð um ákveðin gildi
Ég er stoltur af Bjarna Benediktssyni sem ráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Umskiptin í ríkisfjármálum frá 2013 eru algjör og hafa lagt grunninn að sögulegri sókn til bættra lífskjara fyrir allan almenning. Skuldir voru 55% af landsframleiðslu þegar Bjarni tók við fjármálaráðuneytinu. Hlutfallið er komið niður í 33% og með því lægsta sem þekkist á Vesturlöndum, þrátt fyrir áföll í skugga heimsfaraldurs. Skattar hafa verið lækkaðir 75 sinnum frá 2013 en hækkaðir í 25 skipti. Alls nemur uppsöfnuð nettó-skattalækkun 315 milljörðum króna á föstu verðlagi og 533 milljörðum þegar gríðarleg hækkun bankaskattsins í tíð ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er dregin frá. Mikil hækkun skattsins var ekki síst til að fjármagna umfangsmikillar leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána. Lækkun tekjuskatts einstaklinga hefur aukið ráðstöfunartekjur launafólks, ekki síst þeirra sem lægstu launin hafa.
Með því að stíga til hliðar sem fjármálaráðherra axlar Bjarni Benediktsson ábyrgð og leggur um leið grunn að því að friður geti skapast um mikilvægt verkefni í ráðuneytinu – ekki síst þegar kemur að frekari sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Með ákvörðun sinni sendir Bjarni þau skýru skilaboð að völdum fylgi ábyrgð og undirstrikar um leið þau gildi sem Sjálfstæðisflokkurinn og hann sjálfur sem stjórnmálamaður standa fyrir: Virðingu fyrir stofnunum sem eru mikilvægar í frjálsu og opnu samfélagi. Á blaðamannafundi sagði Bjarni að sem formaður Sjálfstæðisflokksins vildi hann senda út þau „skýru skilaboð að við störfum að almannaheill af fullum heilindum og við berum virðingu fyrir þeim niðurstöðum sem stofnanir samfélagsins komast að jafnvel þó við séum ekki sammála niðurstöðunni“.
Bjarni Benediktsson hefur enn og aftur sýnt að hann ber höfuð og herðar yfir aðra íslenska stjórnmálamenn. Hreinskiptinn og heiðarlegur. Óhræddur við að takast á við erfiðar aðstæður. Með ákvörðun sinni hefur hann gefið öðrum stjórnmálamönnum gott fordæmi. Slíkt fordæmi geta aðeins sterkir stjórnmálamenn gefið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. október 2023.