Teitur Björn Einarsson alþingismaður:
Sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum annars vegar og laxveiði hins vegar eru ekki slíkar andstæður að eitt útiloki annað. Villta laxastofninum stafar einfaldlega ekki sú hætta af sjókvíaeldi eins og fullyrt er nú í opinberri umræðu.
Slysaslepping í Patreksfirði í ágúst er engu að síður alvarlegt mál í ljósi þeirrar umgjörðar sem stjórnvöld hafa skapað atvinnugreininni. Veigamiklir þættir í starfsemi fyrirtækisins sem um ræðir fóru augljóslega úrskeiðis. Krafan um raunhæfar úrbætur þar sem þeim verður við komið á regluverki, eftirliti og verkferlum fiskeldisfyrirtækja á því rétt á sér. Mikilvægt er að draga lærdóm af tilviki sem þessu og bæta úr með réttum hætti.
Hættan á erfðablöndun er hverfandi
Vísindalega niðurstöðu um hættu á erfðablöndun eldisfiska við villta laxastofna má draga saman á þann hátt að síendurteknar stórar sleppingar eldisfiska yfir langt tímabil þurfi til þess að auka hættuna á áhrifum á villta stofna. Skýringin er sú að eldislax hefur mun minni hæfni til að fjölga sér í villtri náttúru en villtur lax.
Talið er að eitt hrogn af þúsund frá villtum laxi komist í gegnum nálarauga náttúruvalsins og nái að verða að kynþroska laxi. Eldisfiskur hefur verið kynbættur kynslóðum saman einkum til að ná fram auknum vaxtarhraða. Gangi eldishængur í ár tekst hrygning einungis í 1-3% tilfella miðað við villta hænga. Hlutfallið er u.þ.b. 30% hjá eldishrygnum miðað við villtar hrygnur. Eldisfiskur hefur ekki þá eiginleika í genamenginu til að komast af og afkvæmi slíkra fiska hafa því að sama skapi nær enga möguleika til að lifa af, ná kynþroska og snúa til baka upp í ár til að hrygna.
Tekist á við óvissu
Jafnvel þótt besta vísindalega þekking leiði það fram að hættan á erfðablöndun eldisfisks við villtan lax sé hverfandi er engu að síður varúðar gætt. Óvissu gætir um vissa þætti í lífshlaupi villtra laxa og rannsóknum á því sviði.
Af þeirri ástæðu eru byggð inn í löggjöf um fiskeldi nokkur stýritæki til að takast á við náttúrulega óvissu með vísindalegum hætti og hlutlægum viðmiðunum þannig að stuðlað sé að ábyrgu fiskeldi og verndun villtra laxastofna tryggð.
Fyrst ber að nefna að eldissvæðum er haldið frá laxveiðiám en litið er til þess að fjarlægð milli eldissvæða og laxveiðiáa hafi áhrif á það hvort strokulaxar nái að leita upp í ár. Í öðru lagi er framleiðslumagni á eldissvæðum stýrt af áhættumati erfðablöndunar, sem er líkan sem leiðir fram reiknaða áhættu erfðablöndunar sem hlutfall af umfangi sjókvíaeldis á tilteknum stað. Í þriðja lagi eru strangar kröfur gerðar til alls búnaðar og framleiðsluferla fiskeldisfyrirtækja og það sannreynt með bæði innra og ytra eftirliti í formi skýrslugjafar og úttektar. Í fjórða lagi er kveðið á um vöktun áa og mótvægisaðgerðir ef slysasleppingar úr kví verður vart.
Vernd villtra laxastofna
Tekist er á við óvissu og áhættu í nær öllu sem viðkemur samfélagi manna með einum eða öðrum hætti og fiskeldi í sjókvíum er þar ekki undanskilið. Dregið er úr áhættu af óæskilegum umhverfisáhrifum fiskeldis eins og hægt er samkvæmt bestu vísindalegri þekkingu. Þannig eru sköpuð skilyrði fyrir frekari uppbyggingu fiskeldis og eflingu atvinnulífs og byggðar í landinu samhliða verndun villtra laxastofna.
En ef horfa á fyrst og fremst til verndunar villtra laxastofna þá kemur líka margt fleira til skoðunar en sjókvíaeldi. Fjölmargir þættir hafa áhrif á afkomu villtra laxa. Aðstæður í hafinu eru taldar ráða einna mestu um endurkomu laxa í ár en á móti hefur sá þáttur ekki verið mikið rannsakaður. Veiði hefur líka áhrif á afkomu villtra stofna. Veiðiálag í laxveiðiám hefur samt ekki verið ofarlega á baugi áhyggjufullra stangveiðimanna eða áhrif þess að þreyta lax, háfa og meðhöndla fyrir myndatöku og sleppa svo aftur. Þá er heldur ekki mikið vitað um áhrif og árangur af fiskrækt í mörgum laxveiðiám með árlegum seiðasleppingum.
Óskandi væri því að umræða um verndun villtra laxastofna færi fram á breiðari og málefnalegri grunni en hingað til og rannsóknarspjótum beint að þáttum þar sem óvissan er hvað mest.
Það er allra hagur að vel takist til við sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda landsins á grunni vísindalegrar þekkingar og málefnalegrar afmörkunar. Og það er allra hagur að vel takist til við uppbyggingu um land allt og gagnkvæmni og virðing ríki milli ólíkra hagsmuna.
En talsmenn þrýstihópa á vegum stangveiðifélaga og náttúruverndarsamtaka eru komnir langt út í skurð á opinberum vettvangi með því að krefjast þess að fiskeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum verði bannað. Við slíkan málflutning verður ekki unað og er áróður þessara hópa í engu samræmi við þann vísindalega grundvöll sem fiskeldi byggir á og það regluverk sem sett hefur verið. Virðist meira vera barist gegn sjókvíaeldi og lífsviðurværi fjölda fólks en fyrir verndun villtra laxa.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2023.