Athyglisverð uppákoma varð á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra. Þar voru þrír ráðherrar mættir til svara, m.a. Bjarni Benediktsson fráfarandi fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Var fyrirfram talið að stjórnarandstaðan myndi nýta þetta tækifæri til þess spyrja ráðherrann út í afsögn hans og álit Umboðsmanns Alþingis og virtst spennan fyrir þeirri umræðu svo mikil að Vísir.is sá m.a. ástæðu til þess að vera með beina útsendingu frá fyrirspurnartímanum.
En stjórnarandstaðan sagði pass og lagði ekki fram eina einustu fyrirspurn til ráðherrans um málið, jafnvel þó svo að fulltrúar hennar hefði frá því í gær þegar hann tilkynnti um afsögn sína haft sig umtalsvert frammi á samfélagsmiðlum og í nær öllum fjölmiðlum landsins.
Aðspurður sagði Bjarni um ástæðurnar að honum dytti helst í hug að stjórnarandstaðan treysti sér ekki í að taka umræðuna eða þá að öllum spurningum væri þegar svarað. Viðbrögð Bjarna má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.