Minnsti ójöfnuður Norðurlandanna á Íslandi

Dreifing ráðstöfunartekna á Íslandi hefur haldist nokkuð stöðug á Íslandi undanfarin fimm ár. Þetta sýna tölur Hafstofu Íslands sem byggja á Gini-stuðlinum en hann var 24,1 árið 2022 og sýnir dreifingu á ráðstöfunartekjum á meðal landsmanna.

Í frétt á vb.is segir að stuðullinn segi 100 ef einn maður væri með allar tekjur en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur. Því lægri sem stuðullin er því jafnari eru því tekjurnar. Frá árinu 2018 var Gini-stuðullinn lægstur það ár og árið 2022, eða 24,2 en hæstur var hann árið 2020 eða 24,8.

Þá segir að félagsleg aðstoð frá yfirvöldum til heimila dragi úr ójöfnuði, en Gini-stuðullinn er hærri þegar hann er reiknaður án félagslegrar aðstoðar. Árið 2022 var hann 31,1 þegar sú breyta er ekki inni í jöfnunni. Þegar horft er til síðustu fimm ára var Gini-stuðullinn án fjárhagslegrar aðstoðar lægstur árið 2018 eða 29,1 en hæstur árið 2021 eða 31,7.

Á Íslandi er ójöfnuður lítill sé horft til Evrópu í samanburði. Árið 2022 var Ísland í þriðja lægsta sæti í Evrópu en meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins var 29,6. Gini stuðullinn er hæstur í Búlgaríu eða 38,4 og lægstur í Slóvakíu eða 21.2.

Ef aðeins er horft til Norðurlandanna er ójöfnuður minnstur á Íslandi. Í Danmörku var hann 27,7, í Svíþjóð 27,6 og í Finnlandi 26,6. Niðurstöður fyrir Noreg hafa ekki verið birtar en árið á undan var Gini-stuðullinn þar á bilinu 24,8-25,4.